Miðvikudagur 14.05.2014 - 09:14 - FB ummæli ()

Meiri og betri skuldalækkun

Ég hef stutt hugmyndir um lækkun skulda heimilanna. Tel það mikilvæga kjarabót og jákvæða efnahagsaðgerð.

Fyrir því má færa margvísleg rök. Paul Krugman, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, leggur áherslu á lækkun skulda heimila í kreppu til að örva hagkerfið til hagvaxtar og vinna betur bug á kreppunni.

Þessi rök finnst mér mikilvægust. Við höfum einmitt mikla þörf fyrir örvun einkaneyslunnar á Íslandi eftir þá miklu kjaraskerðingu sem hrun krónunnar orsakaði.

Ríkisstjórnin notar réttlætisrök (leiðrétting forsendubrests). Það eru tvíbent rök, því erfitt er að draga mörk milli þeirra sem verðskulda leiðréttingu og annarra – svo öllum líki.

Ég er þó ekki sérlega hrifinn af því hvernig ríkisstjórnin útfærir tillögur sínar. Mér sýnist að Sjálfstæðismenn hafi haft of mikil áhrif á það. Verst finnst mér að draga eigi frá þá aðstoð sem heimili fengu frá fyrri ríkisstjórn. Það kemur illa við marga sem enn standa illa. Auk þess máttu aðgerðirnar vera veigameiri.

Ég hefði líka sett eignaþak á skuldaleiðréttinguna, til að aftra því að sterkefnað fólk fái hjálp sem það ekki þarf á að halda.

Ég sé að stjórnarandstaðan leggur áherslu á kostnað af skuldaleiðréttingunni fyrir ríkissjóð. Þó var fundinn nýr skattstofn (þrotabú og fjármálastofnanir) til að fjármagna 80 milljarðana sem úrræði Framsóknar eiga að kosta. Tillögur Sjálfstæðismanna gera svo ráð fyrir að heimilin greiði kostnaðinn sjálf að mestu, með séreignasparnaði sínum.

Ég bendi á að Paul Krugman segir réttlætanlegt að greiða skuldalækkun heimila á krepputíma með almennum skatttekjum. Í því samhengi er ekki ástæða til að gera of mikið úr áhrifum fyrirhugaðra aðgerða á ríkissjóð. Ég gef líka lítið fyrir rök Seðlabankans gegn aðgerðunum.

Fyrri ríkisstjórn féll í kosningunum í fyrra einkum af tveimur ástæðum: heiftarlegri gagnrýni frá stjórnarandstöðu (sem var eldfim í umhverfi kreppuerfiðleika) og vegna þess að heimilunum fannst hún ekki sýna vanda þeirra nægilegan skilning.

Mótrök stjórnarflokkanna fyrri voru þau, að ábyrg fjármálastjórn leyfði ekki meiri aðstoð. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr þá voru heimilin verulega ósammála því. Þess vegna töpuðu Samfylking og VG svo illa.

 

Betri skuldalækkun

Ég er svolítið hissa á viðbrögðum sömu flokka við skuldaaðgerðum núverandi stjórnarflokka. Þeir halda sig í megindráttum við fyrri rök sín, sem kjósendur höfnuðu eftirminnilega í fyrra, en bæta við umkvörtunum um að aðgerðirnar leysi ekki vanda þeirra sem verst standa.

Það væri án efa betri herfræði hjá stjórnarandstöðunni að styðja skuldalækkunina en fara kröftuglega fram á að þær nái betur til þeirra verr settu, en síður til yfirstéttarinnar. Fara fram á betri útfærslu.

Ég er líka hissa á því að þeir sem eru andstæðingar skuldalækkunar til heimila hafa lítið haft við það að athuga að nærri helmingur skulda fyrirtækja hefur verið afskrifaður (sjá hér). Það eru einungis vasapeningar sem hafa verið hreinsaðir af heimilunum í samanburði við það sem eigendur fyrirtækja hafa fengið.

Það er vissulega samkvæmt forskriftinni að Sjálfstæðismenn skuli vilja skuldaafskriftir hjá fyrirtækjum um leið og þeir mega ekki heyra minnst á neinar aðgerðir til kjarabóta fyrir heimili. Þeir eru jú flokkur fjármálamanna og hátekjuhópa.

En er ekki of langt gengið hjá núverandi stjórnarandstöðu að gera málflutning Sjálfstæðismanna að sínum?

Stjórnarandstaðan ætti að fara fram á betri og jafnvel meiri skuldalækkun til heimila, frekar en að hafna úrræðunum alfarið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar