Fimmtudagur 22.05.2014 - 22:20 - FB ummæli ()

Davíð æfði Lögreglukórinn!

Davíð Oddsson segir í viðtali við Viðskiptablaðið að hann hafi ekki gert nein mistök í aðdraganda hrunsins og virðist telja sig lausan allrar ábyrgðar á því sem gerðist í íslenskum fjármálaheimi. Hann sver af sér hrunið.

Ekki benda á mig, segir hann, rétt eins og í klassískum texta við lag Bubba Mortens. “Ég var að æfa Lögreglukórinn”!

Samt var hann forsætisráðherra á þeim tíma sem grunnur var lagður að þeirri skipan, stefnu og starfsháttum sem leiddu til hrunsins.

Svo varð hann æðsti yfirmaður íslenska peningakerfisins, sem hrundi til grunna undir hans stjórn!

Hann er einn þeirra sem Rannsóknarnefnd Alþingis sakaði um grófa vanrækslu í starfi sínu sem aðalbankastjóri Seðlabankans, sem einnig varð gjaldþrota undir hans yfirstjórn. Hann brást skyldum sínum.

Tvær nýlegar bækur um hrunið gera ábyrgð Davíðs Oddssonar á hruninu ágæt skil: Hamskiptin – þegar allt varð falt á Íslandi eftir Inga Frey Vilhjálmsson og Skuggi sólkonungs eftir Ólaf Arnarson.

Maður getur auðvitað skilið að erfitt sé að horfast í augu við allt þetta sem gerðist. Maður getur líka vorkennt Davíð Oddssyni að hafa látið hugmyndafræðing sinn (HHG) leiða sig svo illa afvega. Þeir félagar töldu sig hafa innleidd íslenskt efnahagsundur, sem í reynd var skelfilegt viðundur.

En afleiðingar rangrar stefnu, lélegrar framkvæmdar og gríðarlegra mistaka lentu á herðum almennings og því er ekki hægt að leyfa Davíð að sverja af sér ábyrgðina sem augljóslega var hans – og raunar annarra líka.

Það er því ekki boðlegt hjá Davíð að segja einfaldlega að hér hafi verið innleiddar sömu reglur og í ESB. Öllu máli skiptir hvernig framkvæmd reglunar, eftirlits og peningastjórnunar var háttað. Davíð fylgdi afskiptaleysisstefnu nýfrjálshyggjunnar og það leiddi til hættulegra lausataka í fjármálageiranum, gagnvart braski, áhættu og skuldasöfnun.

Einungis Írar nálguðust okkur í óhóflegri skuldasöfnun og áhættu. Þeir voru að mörgu leyti með sama regluverkið og við (utan þess að þeir eru með Evruna), en eins og hjá okkur skipti framkvæmd stjórnunar og eftirlits mestu máli.

Það var oftrúin á sjálfstýringu hins óhefta markaðar sem leiddi Davíð Oddsson og fylgjendur hans afvega. Gráðugir bankamenn og braskarar nýttu sér það til hins ýtrasta og settu þjóðarbúið á hliðina með algerlega ósjálfbærri skuldasöfnun.

Í starfslýsingu Davíðs Oddssonar og annarra seðlabankastjóra stóð að þeir ættu að vernda og tryggja fjárhagslegan stöðugleika á Íslandi. Of mikil áhætta og of mikil skuldasöfnun ógnaði fjármálastöðugleikanum – langt umfram það sem var í öðrum löndum.

Þar brugðust Davíð og félagar í einu og öllu, með skelfilegum afleiðingum fyrir almenning í landinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar