Laugardagur 24.05.2014 - 00:19 - FB ummæli ()

Ójöfnuður – Thomas Piketty slær í gegn

Það er merkilegt að sjá þá miklu athygli sem bók franska hagfræðingsins Thomas Piketty, Capital in the 21st Century, vekur um allan heim. Bókin fjallar um ójöfnuð eigna og tekna í helstu ríkjum hins þróaða heims, síðustu tvær til þrjár aldirnar. Hún þykir marka tímamót og selst eins og heitar lummur, sem er vægast sagt óvenjulegt fyrir fræðibók.

Það sem einkum vekur athygli eru ný gögn um skiptingu tekna og eigna í löndunum og svo ýmsar niðurstöður og greiningar Pikettys. Sú niðurstaða sem hefur vakið hvað mesta athygli er að ávöxtun eigna þeirra ríkustu eykst alla jafna meira en hagvöxturinn í landi þeirra.

Það þýðir að þeir ríkustu taka til sín sífellt stærri hluta þjóðarauðsins og teknanna í venjulegu árferði. Þeir hafa alltaf forskot á alla aðra. Það helsta sem raskaði þessu á tuttugustu öldinni voru tvær heimsstyrjaldir og kreppan mikla á fjórða áratugnum. En stjórnmál gætu líka skipt máli fyrir framvinduna – ef þeim væri beitt gegn óhóflegri samþjöppun auðsins, segir Thomas Piketty.

Ef fram heldur sem horfir, segir Piketty, þá stefnir í að eignum vestrænna þjóða verði álíka ójafnt skipt milli íbúa landanna og tíðkaðist á 18. og 19. öld. Við erum á leið til miðalda í þessum efnum. Samfélagið breytist þá frá millistéttarsamfélagi til auðræðissamfélags, þar sem fámennur hópur auðmanna á megnið af þjóðaraunum og ræður för samfélagsins í krafti eigna sinna. Tækifæri almennings minnka. Lýðræðið víkur fyrir auðræði.

Eftir seinni heimsstyrjöldina varð tekju- og eignaskiptingin jafnari bæði í Evrópu og Ameríku en verið hafði fyrir heimsstyrjöldina fyrri. Það tímabil, frá um 1945 og fram undir 1980, einkenndist af miklum hagvexti og miklum kjarabótum fyrir almenning, auk þess sem velferðrríkið byggðist hratt upp. Þetta var gullöld blandaða hagkerfisins, ört vaxandi hagsældar og kjarabóta fyrir allan þorra almennings – ekki bara fyrir þá allra ríkustu.

Eitt af því sem Thomas Piketty sýnir er að skattlagning allra hæstu tekna var miklu hærri á þessu sama tímabili en verið hafði bæði fyrir og eftir þann tíma. Fjármálakreppur hurfu einnig að mestu á sama tíma. Allt gekk betur í vestræna kapítalismanum en varð eftir um 1980.

Þarna liggur sú mikilvæga niðurstaða, ein af mörgum hjá Piketty, sem margir grípa nú á lofti. Hún er sú, að mun mikilvægara er að bæta hag almennings en hag þeirra allra ríkustu. Þannig eru framfarir og farsæl virkni samfélags og lýðræðis best tryggð. Þeir ríkustu eru alltaf með forskot á aðra og því þarf að hemja auðsöfnun þeirra, t.d. með skattlagningu, segir Piketty – til farsældar fyrir samfélagið í heild.

Þessi niðurstaða gengur í berhögg við speki nýfrjálshyggjunnar, ekki síst brauðmylsnukenninguna. Sú speki hefur boðað að stjórnvöld eigi að setja auðmenn (fjárfesta og atvinnurekendur) í forgang. Gera allt sem þeir fara fram á. Það magnar hins vegar einungis samþjöppun auðsins, en bætir ekki almennar framfarir eða hagvöxt.

Niðurstaða þessarar stefnu nýfrjálshyggjunnar liggur nú fyrir. Dómur reynslunnar hefur verið upp kveðinn, bæði til skemmri og lengri tíma. Brauðmylsnukenning nýfrjálshyggjunnar virkar alls ekki. Þvert á móti leiðir hún til gríðarlegrar samþjöppunar auðsins í fáum höndum – og stöðnunar eða jafnvel hnignunar í kjörum milli og lægri stétta. Hún leiðir líka til samþjöppunar stjórnmálaáhrifa. Vaxandi auðræði ógnar lýðræðinu.

Piketty sýnir hvernig regla hefur verið í þessari þróun síðustu tvær aldirnar í mörgum löndum.

 

Fyrirlestur Pikettys

Í gær var Thomas Piketty með opinberan fyrirlestur við École des Hautes Etudes en Sciences Sociale í París, sem hann tengist og þar sem ég er gistiprófessor um þessar mundir.

Piketty er ekki bara einstaklega útsjónarsamur rannsóknarmaður, heldur hefur hann skrifað einstaklega aðgengilega og áhugaverða bók um frekar flókið viðfangsefni, sem þó skiptir alla miklu máli. Málsmetandi menn spá því að bók hans muni breyta fræðilegum áherslum í hagfræði og öðrum félagsvísindum í heiminum.

Maðurinn er einnig afar geðþekkur í framkomu og algerlega laus við tilgerð eða hroka, sem stundum einkennir þá sem mikillar velgengni njóta.

Hér að neðan má sjá Thomas Piketty flytja fyrirlestur í New York nýlega um bók sína. Fjórir kunnir hagspekingar taka svo þátt í áhugaverðum umræðum um efni bókarinnar í framhaldinu.

Screenshot 2014-05-22 20.56.47

https://www.youtube.com/watch?v=heOVJM2JZxI

Hér ræðir Bill Moyers efni bókar Thomasar Piketty við Paul Krugman:

Bill Moyers

 

Meira um þetta síðar.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar