Ég gagnrýndi það þegar ríkisstjórnin lagði fram sitt fyrsta fjárlagafrumvarp að hún felldi niður áform fyrri ríkisstjórnar um fjárfestingaráætlun til þriggja ára.
Þar voru mörg góð áform um aukið fé til nýsköpunar og rannsókna, með áherslu á þekkingarbúskap og græna hagkerfið. Áhersla var á aukinn fjölda nýrra smáfyrirtækja.
Þetta var verkefni sem Dagur B. Eggertsson stýrði fyrir hönd stjórnvalda og byggði m.a. á samráðum við fólk úr öllum landshlutum (sóknaráætlanir landshlutanna og Ísland 2020 áætlunin, sem að mörgu leyti voru til fyrirmyndar sem vinnubrögð við stefnumótun). Guðmundur Steingrímsson úr stjórnarandstöðunni kom líka að verkefninu.
Núverandi ríkisstjórn blés þetta af í fjárlagafrumvarpi sínu og sagði að þessi áform hefðu ekki verið fjármögnuð. Hækkun veiðileyfagjaldsins nýja átti að greiða hluta kostnaðar.
Nú kemur ríkisstjórnin með þetta til baka og hefur útfært á sinn hátt í aðgerðaráætlun til nokkurra ára. Ríkisstjórnin var þá varla andvíg áformum fjárfestingaráætlunar fyrri stjórnar, heldur vildi setja sitt mark á málið og breyta fjármögnun. „Aðgerðunum er sömuleiðis ætlað að laða fram aukna fjárfestingu fyrirtækja í vísindum og nýsköpun“, segir í greinargerðinni.
Ég fagnaði því þegar þessi áform um aukna nýsköpun komu fram hjá fyrri stjórn og harmaði það er þau voru blásin af.
En nú er ástæða til að fagna aftur og hæla núverandi stjórn fyrir að koma með þetta til baka.
Fátt er mikilvægara í atvinnulífinu en þróttmikil nýsköpun.
Fyrri pistlar