Sjálfstæðismenn eru með böggum hildar vegna slakrar stöðu flokksins í Reykjavík og víðar.
Styrmir Gunnarsson hefur ítrekað kallað eftir uppgjöri í Valhöll. Fleiri hafa gert það, meðal annars Guðmundur Magnússon í Mogganum í dag.
Hrun fylgisins í Reykjavík er eitt. Slakt fylgi á landsvísu er annað.
Margir munu reyna að kenna forystumanni listans í Reykjavík um útkomuna og kalla á aftöku hans. Það væri þó ekki sanngjarnt, enda ristir vandinn dýpra.
Það sem leiddi Sjálfstæðisflokkinn afvega, öðru fremur, var öfgafrjálshyggjan sem Hannes Hólmsteinn fluttu inn frá Bandaríkjunum.
Auðmannadekur, blind markaðshyggja, skattalækkanir fyrir hátekjumenn og fyrirtæki, spillt einkavæðing, fjandskapur í garð velferðarríkisins, afskiptaleysisstefna ríkisvaldsins og hirðuleysi um hagsmuni almennings voru leiðarljósin.
Á Davíðs-tímanum voru þessar stefnuáherslur innleiddar, einkum eftir 1995.
Afleiðingin varð stærsta bóluhagkerfi sögunnar og eitt stærsta fjármálahrun sögunnar. Auðmenn græddu gríðarlega af braski með lánsfé, í skjóli fríðinda og afskiptaleysis. Davíð Oddsson var sterkur leiðtogi og menn fylgdu honum í blindni. Þess vegna gekk þróunin hér jafn langt afvega og raun varð á.
Kreddufastir stjórnmálamenn verða gjarnan hrokafullir og hirða ekki um umburðarlyndi gagnvart öðrum skoðunum. Stefna Davíðs var að refsa fólki fyrir önnur sjónarmið en þau sem hann fékk frá Hannesi Hólmsteini. Samherjum jafnt sem andstæðingum var refsað.
Þess vegna var klassískt umburðarlyndi Sjálfstæðisflokksins aflagt á frjálshyggjutímanum.
Eftir hrun stoppaði Davíð síðan uppgjörið við mistök frjálshyggjutímans, á eftirminnilegan hátt. Þar er flokkurinn enn fastur og leysist smám saman upp í frumeindir sínar.
Sjálfstæðisflokkurinn kemst hvorki lönd né strönd. Reynir að ljúga sig frá ábyrgð sinni á mistökunum sem leiddu til hrunsins, hvort sem er í Moggaskrifum eða bloggspreði Hólmsteins.
Ég ráðlegg forystu Sjálfstæðisflokksins að losa sig við Davíð, Hannes og hirð þeirra alla. Það er leiðin til að endurreisa hinn klassíska Sjálfstæðisflokk, sem gat höfðað til um 40% kjósenda í góðu árferði.
Ég hef þó ekki trú á að það verði niðurstaðan. Náhirð Davíðs og Hannesar er einfaldlega enn of valdamikil.
Því er líklegra að leiðtoga listans í Reykjavík verði slátrað. Nema menn láti eins og ekkert sé…
Fyrri pistlar