Niðurstaða kosninganna er nokkuð skýr. Dagur B. Eggertsson vinnur stórsigur fyrir Samfylkinguna í Reykjavík. Sjálfstæðisflokkurinn bíður afhroð í borginni, en Framsókn vinnur þar óvæntan sigur. Píratar ná inn manni, Björt framtíð fær minna en vænt var í Reykjavík og VG stendur að mestu í stað.
Sjálfstæðisflokkur missir sterkan meirihluta sinn í Reykjanesbæ, en vinnur sætan sigur í Eyjum. Að öðru leyti má segja að Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og Framsókn fái nokkuð breytilega útkomu á landinu, bæta við sig sums staðar en tapa annars staðar.
Björt framtíð vinnur stóra sigra í nokkrum sveitarstjórnum, t.d. í Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ (og taka þar mest fylgi frá Samfylkingunni). Alls fær Björt framtíð um tug sveitarstjórnarmanna á landinu, sem er stórt skref.
Framsókn bætir stöðu sína sögulega í Reykjavík, með áherslu á Moskumálið. Nýjum leiðtoga B-listans í borginni tóks fádæma vel að vekja athygli sem virðist hafa skilað sér í kjörkassana. Framsókn bætir við sig á nokkrum stöðum á landsbyggðinni, t.d. á Dalvík, í Skagafirði, en einnig í Kópavogi.
Sjálfstæðisflokkur er stærstur í nokkrum stærri bæjum utan Reykjavíkur, án þess að vera með mikið fylgi sögulega séð. Tapar raunar aðeins fylgi í bláa kraganum, sérstaklega á Seltjarnarnesi, sem og á Ísafirði og í Hveragerði.
VG voru almennt ekki í neinni sókn í þessum kosningum. Þau halda fulltrúa í Reykjavík, en ekki meira en það. Klofningsframboð eins og Dögun fær engan hljómgrunn. Slík framboð sundra einungis og atkvæði falla dauð, eins og svo mikil brögð voru að í síðustu Alþingiskosningum.
Á heildina litið eru það einkum Samfylking, Framsókn og Björt framtíð (utan Reykjavíkur) sem bæta við sig fylgi á landinu öllu. Samfylkingin virðist þó suma staðar fara mjög halloka gagnvart Bjartri framtíð. VG stendur í stað en Sjálfstæðisflokkur tapar lítillega til viðbótar við slaka útkomu í síðustu kosningum.
Kjörsókn í sumum sveitarfélögum var óvenju lítil og hefur það væntanlega haft áhrif á úrslitin.
Fyrri pistlar