Hannes Hólmsteinn fór mikinn á ráðstefnu um kynjamál um daginn.
Sagði hann jafnréttisbaráttu kynjanna nú vera lokið með fullum sigri kvenna. Lífið væri körlum þungbærara en konum, launamunur kynjanna væri “tölfræðileg tálsýn” og jafnlaunabaráttan því barátta við vindmyllur.
Auk þess mælti hann með lögleiðingu vændis og fullyrti að óheftur samkeppnismarkaður myndi skila meira jafnrétti kynja og jafnari tækifærum.
Málflutningi sínum til stuðnings leiddi Hannes fram tölur um lengri ævilengd kvenna, fleiri sjálfvíg meðal karla, slys, morð, óreglu og fangelsanir. Taldi hann þessar tölur sýna að lífið væri körlum þungbærara en konum og því væri ekki lengur tilefni til jöfnunaraðgerða milli kynjanna.
Þegar rýnt er í þennan málflutning og tölurnar sem Hannes setur fram þá kemur í ljós að hann gerir grundvallarvillur í ályktunum og rökfræði sinni.
Þessar tölur sem Hannesar flaggar á yfirborðslegan hátt sýna almennt fátt eða ekkert sem er beintengt jafnréttisbaráttu kynjanna.
I. Ævilengd er að mestu líffræðilega ákvörðuð
Tökum fyrst lengri ævilengd kvenna. Konur lifa almennt lengur en karlar. Sérfræðingar rekja það öðru fremur til líffræðilegra þátta. Lífsstílsþættir eða samfélagsskilyrði geta haft áhrif en þau eru í minnihluta.
Konur hafa að upplagi líffræðilegt forskot á karla hvað ævilengd snertir. Á árum áður var munur á ævilengd kvenna og karla almennt meiri en nú er. Hannes virðist telja að jafnréttisbaráttan hafi leitt til þessarar lengri meðalævi kvenna og telur að nú sé nóg komið. Hann hefur mjög rangt fyrir sér um það.
Staðreyndin er sú, að eftir að barátta fyrir jafnrétti kynjanna jókst fór að draga meira saman með körlum og konum í meðalævilengd. Konur á Íslandi lifðu að jafnaði um sex árum lengur en karlar um 1970, áður en kraftur tók að aukast í jafnréttisbaráttunni. Nú á dögum hefur þessi munur helmingast og er rétt um þrjú ár.
Ef jafnréttisbaráttan er tengd meðalævilengd þá hefur hún sem sagt meira gagnast körlum. Meðalævilengd þeirra hefur aukist örar en hjá konum á tíma jafnréttisbaráttunnar!
En þarna eru hins vegar engin markverð tengsl á milli. Það er grundvallarvilla hjá Hannesi að tengja þessi atriði eins og hann gerir.
Lífeðlisfræðingar og læknar rekja mun ævilengdar og reyndar einnig mun kynjanna hvað snertir áhættusækni, árásargirnd og ofbeldishneigð m.a. til áhrifa kynhormónanna. Testosterónið (karlkynshormónið) er talið hafa þau áhrif á karla, einkum unga karla, sem Hannes vísar til sem dæma um verra líf karla (sjálfsvíg, slys, morð, glæpi og meiri fangelsanir sem af sumu þessu leiða). Kvenkynshormónið (estrogen) færir konum annað upplegg.
Hannes er því að tengja gögn um mun kynjanna sem er einkum líffræðilegur við jafnréttisbaráttuna, sem hefur ekkert með þessi atriði að gera.
Þetta er eins og að segja sem svo, að sólardagar eru mun fleiri á Grikklandi en Íslandi. Ergó: Grikkir hljóta að vera mun ríkari (hagsælli) en Íslendingar.
Staðreyndin er hins vegar sú, að Íslendingar eru mun hagsælli en Grikkir. Fjöldi sólardaga á ári hefur ekkert með hagsæld að gera, frekar en að jafnréttisbaráttan hafi eitthvað með meðalævilengd og ólíka áhættutilhneigingu kynjanna að gera.
Hannes fellur í þá gryfju að taka sýndarsamband (enska: spurious correlation) sem orsakasamband. Faglega kunnandi menn myndu vara sig á því, en Hannes hikar ekki við að draga miklar og djarfar ályktanir af þessari villu sinni.
II. Er launamunur kynjanna tálsýn?
Hannes viðurkennir að launamunur kynjanna sé nokkur, en segir hann ekki vera vegna mismununar – og því sé um tálsýn að ræða. Hann segir:
“Konur mælast ekki að meðaltali með lægri laun en karlar vegna þess, að kvennastörf séu láglaunastörf, heldur vegna þess að lægri laun eru í boði fyrir þau störf, sem konur hafa tilhneigingu til að velja.
Þau störf krefjast ekki samfelldrar viðveru, sívirkrar þekkingaröflunar og fela ekki í sér verulega ábyrgð.”
Í staðinn uppskeri konur að fá að ganga með og ala börn á brjósti. Skiptin séu konum ekki óhagstæð og því yfir litlu að kvarta.
Fyrri hluti röksemdarinnar hjá Hannesi felur í sér hringrök sem engu vatni halda, en seinni fullyrðingin stenst heldur ekki staðreyndakönnun og er reyndar meiðandi fyrir konur.
Hannes horfir alveg framhjá því að gerðar hafa verið víðtækar rannsóknir á launaumbun fyrir karla og konur sem hafa sömu menntun, vinna sama vinnumagn og gegna sömu störfum með sambærilega ábyrgð. Þær rannsóknir sýna að laun kynjanna eru samt er ekki þau sömu, eins og lög þó kveða á um að vera skuli.
Þetta er kallað óútskýrður launamunur kynjanna og er oft rakinn til mismununar eða hefðbundinna hátta (íhaldssemi) á vinnumarkaði.
Hannes hefur því engar forsendur til að fullyrða svo stórkallalega að launamunur kynjanna sé tálsýn.
III. Eru barneignir einkamál kvenna?
Umræðunni um launamun kynjanna er teng sú fullyrðing Hannesar að “…konur hafi tilhneigingu til að velja störf, sem farið geta saman við barneignir og heimilishald.”
Þetta eru hin lakari störf sem vísað er til að ofan og sem skaffa konum lægri laun en körlum – og sem konur hafa ekkert yfir að kvarta vegna þeirrar lífsfyllingar sem þær fá af barneignum og heimilishaldi, að mati Hannesar.
Forsendan fyrir þessum málflutningi Hannesar er sú, að barneignir séu einkamál kvenna. Hannes virðist hafa lítinn skilning á eðli fjölskyldulífs og bareigna.
Forsenda jafnréttisbaráttunnar er hins vegar sú, að börn séu sameign og á ábyrgð beggja foreldra, karla ekki síður en kvenna. Því fylgir að konur eigi ekki að búa við nauðarval í þessum efnum, hvorki hvað snertir skyldur við heimilisstörf né hvað snertir tækifæri í menntun og á starfsferli.
Raunar er það svo nú til dags að konur sækja háskólanám í meiri mæli en karlar og því væri enn óskynsamlegra en ella hjá samfélaginu að nýta ekki hæfni, getu og dug kvenna sem mest á vinnumarkaði sem víðar.
Stór þáttur í jafnréttisbaráttu nútímans er einmitt um að samþætta betur en fyrr þarfir heimila (fjölskyldna) og vinnustaða. Jafnvel íhaldssamar stofnanir eins og OECD og Samtök atvinnulífsins á Íslandi taka undir slíkan málflutning.
En það er of langt gegnið fyrir Hannes Hólmstein.
IV. Hver niðurgreiðir hvern?
Inn í þetta tal sitt fleygir Hannes að venju ýmsum molum sem eiga að ginna menn til að trúa boðskapnum. Eitt slíkt atriði er, að fyrst konur lifi lengur þá megi segja að karlar greiði niður lífeyri fyrir konur.
Þetta er varla meira en hálfsannleikur og að auki afleiðing nauðarvals kvenna sem tengist barneignum.
Staðreyndin er sú að karlar hafa almennt hærri lífeyritekjur en konur, einmitt vegna meiri atvinnuþátttöku á starfsaldri. Það felur í reynd í sér að vinna kvenna við barneignir og heimilishald hefur lengi ekki verið metin í lífeyriskerfum til réttindaávinnings. Þessi störf og ýmis umönnunar og kennslustörf hafa kerfisbundið verið vanmetin þó fátt sé mikilvægara í lífinu en þau.
Þetta er nær því að vera mismunum en sérstök niðurgreiðsla til kvenna. Í seinni tíð hefur mönnum orðið þetta ljóst og það sjónarmið að ekki eigi að refsa konum með lakari lífeyrisrétti vegna barneigna hefur unnið á. Nú veita hin skárri lífeyriskerfi Vesturlanda konum lífeyrisrétt í barneignaleyfum.
Ungir karlar glíma við sérstök vandamál í nútímanum sem taka þarf á, en það felur ekki í sér að snúa eigi jafnréttisbaráttunni á haus. Við eigum að stefna að framförum áfram fyrir bæði kynin. Áhættuhegðun, skortur á félagslegum tengslum og óreglulíf eru sjálfstæð viðfagnsefni sem vinna þarf að, óháð jafnréttisbaráttu kynja eða annarra hópa.
V. Lagar markaðshyggjan allt böl?
Rótin að þessum málflutningi Hannesar Hólmsteins um kynjamálin er sá sami og alltaf: áróðursbarátta hans fyrir nýfrjálshyggjunni. Allt sem hann gerir og kallar „fræðimennsku“ er því marki brennt.
Hannes er að leggjast gegn jafnréttisbaráttunni vegna þess að hann vill óheftan markað og engin eða sem allra minnst ríkisafskipti af samfélagsþróuninni. Þetta er ekki bara íhaldssemi heldur einnig ofurtrú á nytsemd hins óhefta markaðar.
Þó lítt heft markaðsöflin hafi leitt til hruns á fjármálakerfi Íslands fyrir fimm árum þá hefur hann ekkert lært – eða neitar öllu heldur að læra eitthvað af því. Sennilega er honum erfitt að horfast í augu við eigin ábyrgð í þeim efnum og ófullkomleika markaðarins.
En það er einnig oft svo með trúarbrögð, að staðreyndir geta vegið lítið á móti blindri sannfæringu. Það einkennir allt tal Hannesar um markaðshyggjuna.
Það er auðvitað pínlegt að þiggja laun sem fræðimaður við opinberan háskóla og vera undir slíku oki pólitískra trúarbragða – að ekki sé talað um fúskið sem Hannes oft gerist sekur um.
Dómur sögunnar er hins vegar sá, að óheft markaðshyggja skilar hvorki mannréttindum né jöfnum tækifærum. Það þurfti pólitísk afskipti og mikla baráttu til að afnema þrælahald og til að innleiða velferðarríki nútímans, sem færir aukin mannréttindi og meiri jöfnuð tækifæra fyrir bæði kynin og fólk af ólíkum samfélagsuppruna.
Þar sem markaðshyggjan er óheftari þar standa þessi mannréttindamál og skyld tækifæramál oftast verr.
Þessar kynlegu villur Hannesar Hólmsteins eru því miður mjög einkennandi fyrir vinnubrögð og málflutning hans um þjóðmál og pólitík almennt.
En það er jú engin ný frétt!
Fyrri pistlar