Menn hafa sumir gert mikið úr því að Sjálfstæðisflokkurinn taki þátt í meirihluta nokkurra stórra bæjarfélaga (Kópavogi, Garðabæ, Mosfellsbæ og Hafnarfirði). Allt eru þetta þó gömul vígi flokksins, nema helst Hafnarfjörður.
Í sumum slíkra bæja missti Sjálftæðisflokkur nokkurt fylgi og tapaði reyndar talsverðu á Seltjarnarnesi – gömlu stórvígi sínu.
Sigur miðju og vinstri manna var hins vegar talsverður í þessum kosningum.
Nú er ljóst orðið að vinstri-og-miðjumenn stjórna þremur af fimm stærstu sveitarfélögum landsins næsta kjörtímabilið: Reykjavík, Reykjanesbæ og Akureyri.
Oft hafa þetta verið sterk vígi Sjálfstæðisflokksins. En ekki nú.
Í þessum þremur sveitarfélögum býr nær helmingur íbúa landsins.
Vinstri og miðjumenn stjórna reyndar víðar, þannig að þeir stýra nú sveitarfélögum þar sem meirihluti þjóðarinnar býr.
Vinstri menn hafa sjaldan verið jafn áhrifamiklir í stærstu sveitarfélögum landsins og nú er.
Það eru tíðindi!
Fyrri pistlar