Það var viðbúið að Frakkinn Thomas Piketty fengi á sig harða gagnrýni fyrir nýju bókina sína (Capital in the 21st Century). Ástæðan er sú, að niðurstöður hans rekast illa á hagsmuni þeirra ríkustu og valdamestu í samfélaginu og þær hafa vakið gríðarlega athygli og umræðu um allan heim.
Raunar er sala bókarinnar svo mikil að undrun vekur og fjölmiðlar tala um Piketty sem „rokkstjörnu hagfræðinnar“. Verk Pikettys fjallar hins vegar um viðfangsefni sem skiptir fólk miklu máli – framtíð ójafnaðar, kapítalisma og lýðræðis.
Rannsóknir Pikettys og félaga sýna að aukning tekna og eigna þeirra ríkustu er í venjulegu árferði meiri en hagvöxturinn eða hækkun raunlauna. Þeir ofurríku hafa alltaf forskot og skattalækkanir til þeirra á síðustu áratugum hafa einungis magnað ójöfnuðinn en ekki aukið hagvöxtinn eða bætt kjör venjulegs fólks.
Auðurinn í samfélaginu þjappast þannig sífellt meira saman. Ójöfnuður eykst. Millistéttin og lægri tekjuhópar sitja eftir. Tækifæri til að vinna sig upp í samfélaginu minnka.
Aukinn ójöfnuður hefur grafið undan bæði hagvexti og lýðræði í vestrænum samfélögum, ekki síst í Bandaríkjunum. Horfurnar eru að óbreyttu þær, að ástandið muni versna enn frekar á næstu áratugum.
Fyrstu viðbrögð í Bandaríkjunum voru þau, að ýmsir talsmenn hægri stjórnmála og auðmannadekurs fóru að kalla Piketty “marxista”! Það er hins vegar út í hött. Aðrir reyna að afbaka verk hans með kukli og fúski og telja fólki trú um að aukinn ójöfnuður sé einhver tálsýn eða skipti ekki máli (sjá t.d. hér).
Raunar vill Piketty bjarga kapítalismanum frá græðgi kapítalistanna og tryggja betur hag milli og lægri stétta – og meiri hagvöxt og farsælla lýðræði.
Í kjölfarið á þessum áburði um marxisma kom það sem við fyrstu sýn virtist alvarleg gagnrýni, frá blaðamanni á Financial Times í London (hér). Sá taldi sig hafa fundið villur í gögnum sem bók Pikettys byggir á og fullyrti hann að það ógilti niðurstöður bókarinnar.
Þeir sem fóru ofan í málið brugðust fljótlega við og höfnuðu þessum róttæku ályktunum blaðamannsins. Meira að segja frjálshyggjumaðurinn Scott Winship, sem þó er gagnrýninn á sumar ályktanir Pikettys, hafnaði strax þeim áburði að Piketty hefði gert mistök eða dregið upp ranga mynd af ójöfnuði í skiptingu tekna og eigna.
Margir aðrir málsmetandi hagfræðingar hafa hafnað því að athugasemdirnar breyti niðurstöðum Pikettys. Margvísleg önnur gögn styðja niðurstöðurnar. Við sem höfum fylgst með rannsóknum Pikettys og félaga um árabil vissum að hann var með allt sitt á hreinu, þó auðvitað geti fagleg álitamál komið upp þegar unnið er með gögn sem ná til tveggja síðustu alda eða jafnvel lengri tíma.
Nú hefur Thomas Piketty sjálfur fyrir nokkru sent frá sér ítarleg svör við aðfinnslum blaðamannsins og skýrt betur þau talnagögn sem deilan hefur staðið um (sjá hér).
Niðurstaðan er sú, að Piketty gefur ekki þumlung eftir. Hann sýnir á öruggan hátt hvernig gögnin eru unnin og stillt af með eðlilegum hætti til að tryggja sambærileika yfir tíma.
Niðurstöðurnar halda til fulls.
Bók Thomasar Pikettys er tímamótaverk sem mun ekki aðeins breyta hagfræðinni til betri vegar heldur sennilega einnig samfélagsgerð vestrænna þjóðfélaga – það er ef allt fer á betri veginn.
Fyrri pistlar