Ingi Freyr Vilhjálmsson, sagnfræðingur/heimspekingur og blaðamaður, sendi fyrir nokkru frá sér bókina Hamskiptin – Þegar allt varð falt á Íslandi. Þetta er bók um breytingar tíðarandans í samfélaginu í aðdraganda hrunsins.
Bókin fjallar um það hvernig aukin frjálshyggjupólitík breytti hugarfari og þar með samfélaginu á Íslandi, sem svo greiddi leiðina að hruninu. Þetta er athyglisvert og mikilvægt framlag til greiningar á orsökum hinna miklu ófara íslenska samfélagsins sem hrunið var.
Ingi Freyr er sérstaklega vel í stakk búinn til að skrifa svona bók. Ástæðan er sú, að hann hefur sem blaðamaður og fréttastjóri á DV fylgst vandlega með framvindunni í þjóðmálunum og sérstaklega beint skörpum blaðamannsaugum að viðskiptalífinu, bæði fyrir og eftir hrun.
Ingi Freyr hefur verið óþreytandi við að draga fram í dagsljósið margt af því sem misfórst hér í fjármálum og stjórnmálum í starfi sínu sem rannsóknarblaðamaður. Hann hefur kafað ofaní gögn sem tengjast hruninu, frá opinberum skýrslum til ársreikninga fyrirtækja og greint fyrirtækjafrumskóga sem ræktaðir voru til að fela vafasama fjármálagjörninga margvíslega.
Frá nýfrjálshyggju til fjármálahruns
Þráðurinn í bókinni er um áhrif breytinga á tíðarandanum í átt til aukinnar nýfrjálshyggju, sem fól í sér ný gildi og breytta áherslu í stjórnmálum og þjóðmálum almennt. Þessari nýju hugmyndafræði fylgdi aukin áhersla á óheft frelsi fjármálaafla og fyrirtækja, markaðshyggju og peningahyggju.
Þetta var auðvitað hluti af almennri nýfrjálshyggjuvæðingu sem breiddist út um Vesturlönd frá um 1980, meðal annars fyrir áhrif Margrétar Thatchers og Ronalds Reagans.
Hér á landi var það Eimreiðarhópur Davíðs Oddssonar og Hannesar Hólmsteins sem dró frjálshyggjulestina, einkum á vettvangi Sjálfstæðisflokksins.
Hópurinn samanstóð af einstaklingum sem allir urðu síðar miklir áhrifamenn innan Sjálfstæðisflokksins og víðar. Sú staðreynd að þeim tókst að sveigja stærsta og áhrifamesta stjórnmálaflokk landsins til áratuga í átt til aukinnar nýfrjálshyggju gerði þessa breytingu jafn afdrifaríka og raun ber vitni.
Samfélagið breyttist
Ingi Freyr lýsir vel hvernig þessu fylgdu breytingar á tíðarandanum í samfélaginu, einkum frá tíunda áratugnum. Hann þræðir framvinduna á ólíkum sviðum samfélagsmálanna og sýnir aukin áhrif lífsgilda taumlausrar neysluhyggju, sem og aukna peningavæðingu menningarinnar, stjórnmálanna, fjölmiðlunar, háskólanna, forsetaembættisins og listaheimsins.
Markaðsvæðing hugarfarsins lét engan kima samfélagsins ósnortinn.
Þessu fylgdi það að fjármálaheimurinn tók í auknum mæli yfir atvinnulífið, stjórnmálin og menningu samfélagsins. Sérstaklega afdrifaríkt var að stjórnmálin urðu undirlögð og ofurseld afli peningamanna. Verulega auknar fjárhæðir runnu frá þeim til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna.
Með því keyptu peningamenn sér pólitísk áhrif.
Lýðræðið veiktist
Þar með var grafið undan lýðræðinu í samfélaginu og vald peningaafla almennt aukið. Viðskiptaráð varð verulega áhrifamikill mótandi lagasetningar um langt árabil. Fyrirtækjamenn og fjármálabraskarar fengu nær allt það sem þeir báðu um frá stjórnvöldum, í fríðindum og fyrirgreiðslu.
Jafnvæginu milli markaðar og lýðræðis var með þessu raskað. Fjármálamenn sluppu lausir og settu á endanum efnahagslífið á hliðina með taumlausri gróðasókn og skuldasöfnun sinni, sem var með öllu ósjálfbær og stórhættuleg eins og kom á daginn.
Þeir sem áttu að verja samfélagið gegn áhættum og óhófi fjármálaafla og braskara brugðust í einu og öllu: stjórnvöld, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið.
Sérstaklega athyglisvert er hvernig Inga Frey tekst að sýna samfelluna í áhrifum hins nýja tíðaranda nýfrjálshyggjunnar á öðrum sviðum en í viðskiptalífinu. Í umfjöllunum um þjóðmálin hefur oft vantað að setja breytingar á afmörkuðum sviðum í heildarsamhengi.
Ábyrgðin á hruninu
Raunar hafa áhrif nýfrjálshyggjunnar á samfélagið og pólitíkina verið stórlega vanmetin hér á landi. Þar eð fáar þjóðir urðu jafn illa fyrir barðinu á valdatöku frjálshyggju- og fjármálaaflanna í samfélaginu er löngu tímabært að þessir hlutir séu skýrðir og settir í rétt samhengi.
Í seinni hluta bókarinnar reifar Ingi Freyr athyglisverða umræðu um ábyrgð á hruninu almennt. Eftir að hafa útlistað réttilega hvernig helstu stjórnmálaöflin og helstu gerendurnir í fjármála- og atvinnulífinu bera mesta ábyrgð á óförunum spyr hann um almenna ábyrgð almennings og kjósenda sérstaklega.
Þó flatskjárkenningin haldi engu vatni má vissulega segja að kjósendur hafi kosið yfir sig aukin áhrif nýfrjálshyggju og hugmyndafræðina um „alþjóðlega fjármálamiðstöð“ hólmsteinskunnar.
Varast ber þó að leggja of mikið af ábyrgðinni á almenning sem fyrst og fremst var fórnarlamb þess sem yfirstéttin aðhafðist. Bóluhagkerfið var drifið áfram með lánsfé af fjármálabröskurum í viðskiptalífinu sem græddu gríðarlega á öllu saman.
Almenningur hafði litlar upplýsingar um hvað var að gerast hér á árunum fyrir hrun og stjórnmál, háskólar og fjölmiðlar brugðust í upplýsingagjöf og aðhaldshlutverki sínu. Almeningur var í raun varnarlaus gegn taumlausri góðasókn braskara sem keyrðu þjóðarbúið í þrot.
Þegar upp var staðið var reikningurinn sendur almenningi. Almenningur var helsta fórnarlambið.
Ábyrgðin á hruninu liggur því fyrst og fremst hjá helstu gerendunum í stjórnmálunum (nýfrjálshyggjuöflunum) sem gerðu þetta allt mögulegt, sem og hjá bröskurunum í bönkum og fyrirtækjum sem nýttu sér frelsi frjálshyggjunnar ótæpilega og græddu gríðarlega á öllu saman.
Félagslegar og pólitískar rætur hrunsins
Bók Inga Freys Vilhjálmssonar, Hamskiptin – Þegar allt varð falt á Íslandi, er mikilvægt framlag til aukins skilnings á því hvernig breytt pólitík getur breytt samfélaginu og sérstaklega hvernig aukin nýfrjálshyggjuáhrif greiddu leiðina að hruni.
Bók Jóhanns Haukssonar, Þræðir valdsins – Kunningjaveldi, aðstöðubrask og hrun Íslands, er skyld bók Inga Freys.
Báðar draga þessar bækur sérstaklega fram félagsleg og pólitísk áhrif á samfélagið sem svo leiddu til hrunsins. Þær eru mikilvægar til mótvægis við einhliða hagfræðilegar umfjallanir um orsakir hrunsins, sem og til mótvægis við beinar sögufalsanir um orsakir hrunsins sem enn eru á borð bornar.
Það er þakkarvert að menn eins og Ingi Freyr Vilhjálmsson og Jóhann Hauksson og fleiri skarpir þjóðfélagsrýnar skuli leggja á sig að skrifa svo ítarleg og upplýsandi verk um jafn skelfilegan viðburð og hrunið varð.
Fyrri pistlar