Mánudagur 30.06.2014 - 11:25 - FB ummæli ()

Íhaldið – köld róttækni ræður för

Í fjölmiðlum er nú sagt frá því að Sjálfstæðisflokkurinn sé í samstarfi með hægri öfgaflokkum í Evrópu. Samtökin heita AECR og fengu þau nýlega til liðs við sig Sanna Finna og Danska þjóðarflokkinn á Evrópuþinginu.

Þetta er að vísu ekki ný frétt. Pawel Bartoszek vakti athygli á þessu í Fréttablaðinu fyrir nokkru og varaði við.

En það eru önnur tengsl Sjálfstæðisflokksins við róttæklinga sem hafa verið afdrifaríkari. Þau tengsl breyttu í reynd gamla Sjálfstæðisflokknum svo mikið að hófsöm hægri stefna og umburðarlyndi þekkist varla lengur á þeim bæ (sjá hér).

Ég er að tala um áhrif róttækra frjálshyggjumanna á Sjálfstæðisflokkinn.

Frjálshyggjumenn fluttu inn hugmyndafræði frá bandarískum áróðursveitum (Cato, AEI, Heritage Foundation o.fl.). Sömu aðilar stofnuðu áróðursveitur hér á landi fyrir símiðlun róttækrar frjálshyggju og auðmannadekurs (sjá hér). Þeir eru reyndar líka í samstarfi við AECR.

Þessir aðilar hafa rekið harða hægri pólitík með ofurtrú á óhefta markaðshyggju, auðhyggju og afskiptaleysisstefnu. Þeir hafa réttlætt sérstök fríðindi fyrir hátekju- og stóreignafólk en barist gegn hófsamri velferðarstefnu fyrir almenning.

Þessir aðilar hafa innleitt einstrenging og öfga inn í gamla Sjálfstæðisflokkinn, sem áður var meinlaus og nokkuð umburðarlyndur flokkur. Hann setti þó alltaf atvinnulífið í forgang en sætti sig við hófsama velferðarstefnu til að gera venjulegu fólki kleift að eignast íbúðarhúsnæði og njóta gjaldfrjálsrar heilsugæslu og skólagögnu, sér og samfélaginu til góðs.

Nýi Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið meira mót af bandaríska Repúblikanaflokknum, sem réttlætir og berst fyrir auknum ójöfnuði og forréttindum yfirstéttar, oft gegn almannahag.

Sjáið til dæmis baráttu Repúblikana og hægri róttæklinga í Bandaríkjunum gegn Obamacare, almennum sjúkratryggingum sem allir íslenskir íbúar fengu þegar árið 1946. Þessir aðilar mega ekki til þess hugsa að fátækir Bandaríkjamenn njóti gjaldfrjálsrar heilbrigðisþjónustu eins og tíðkast á Norðurlöndum.

Þarna liggur hin raunverulega hægri róttækni í Sjálfstæðisflokknum.

Nýr Sjálfstæðisflokkur nýfrjálshyggjunnar er allt annar en gamli Sjálfstæðisflokkurinn.

 

Síðasti pistill: Hólmsteinn dansar hrunið

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar