Heimsmeistarakeppnin í fótbolta setur skemmtilegan svip á sumarið – og bjargar miklu þegar rigningin hefur tekið völdin, eins og vill verða hér á landi.
Milli leikja er gaman að rifja upp ýmis atvik og stjörnur fótboltans, ekki síst þegar dregur að úrslitum.
Eitt furðulegasta atvik seinni ára var þegar hinn glæsilegi franski kappi Zinedine Zidane skallaði ítalska bakvörðinn Marco Materazzi, í keppninni árið 2006.
Frakkar höfðu átt einstaklega gott lið um árabil og Zidane var mesta stjarna þeirra, ítrekað kosinn besti knattspyrnumaðurinn, heima jafnt sem erlendis. Hann var einstaklega skemmtilegur og sókndjarfur leikmaður og iðulega mikill gleðigjafi fyrir áhorfendur – og ekki bara meðal stuðningsmanna Frakka.
Atvikið átti sér stað í framlengingu í sjálfum úrslitaleik keppninnar, milli Frakka og Ítala. Eftir stympingar milli Zidane og Materazzi í hita leiksins lét Materazzi ósmekkleg orð falla um móður og systur Zidanes. Zidane sneri sér til baka eftir að hafa heyrt ummælin þrisvar sinnum (eftir því sem hann sjálfur segir) og skallaði Materazzi í bringuna. Ítalinn steinlá!
Zidane fékk umsvifalaust rauða spjaldið og gekk af leikvelli, framhjá gylltri verðlaunastyttunni. Þannig endaði glæsilegur ferill Zidanes sem atvinnumaður í knattspyrnu, því hann hafði áður tilkynnt að þetta yrði hans síðasti leikur.
Drama atviksins liggur kanski ekki síst í því, að það gæti hafa kostað Frakka heimsmeistaratitilinn. Ítalir unnu vítaspyrnukeppnina sem fylgdi að framlengingu liðinni.
Það hefði vissulega munað um að hafa stórskyttuna Zidane með í vítaspyrnukeppninni, fyrir utan shokkið sem atvikið kann að hafa haft á liðið í heild á slíku augnabliki, þegar örfáar mínútur voru eftir af leiktíma. Zidane var jú lykilmaður í liðinu.
Hér má sjá myndskeið af þessu eftirminnilega atviki.
Hér fyrir neðan má svo sjá skemmtilega styttu af árekstrinum milli þeirra félaga, sem prýðir svæði leikvangsins í Doha í Qatar. Til stendur að halda keppnina þar árið 2022.
Fyrri pistlar