Þriðjudagur 08.07.2014 - 20:21 - FB ummæli ()

Um nýsköpun Lennons og McCartneys

Í tímaritinu Atlantic er fróðleg og skemmtileg grein um sköpunarmátt tvíeykisins í Bítlunum, þeirra Lennons og McCartneys. Greinin er eftir Joshua Wolf Shenk og byggir á væntanlegri bók hans um mikilvægi samvinnu í nýsköpun.

Bókin snýst sem sagt um sköpunarmátt tvíeykja eða para (duos). Shenk segir að goðsögnin um hinn einangraða snilling, sem skapi eitthvað nýtt í einveru sinni og komi svo fram með hana fullskapaða, sé villandi. Hinn einangraði snillingur sé í öllu falli hvorki algengasta né árangursríkasta uppspretta frjórrar sköpunar. Samvinna skili meiru.

Tvíeyki eða lið þar sem saman koma einstaklingar með ólíka eiginleika sé líklegra til að búa til frjóan jarðveg, sem skili af sér ríkulegri uppskeru en hinn staki nýsköpunarmaður (eða kona).

Í umræddri grein leggur höfundurinn mikið út af samstarfi Pauls og Johns í Bítlunum. Þeirra höfundarverk er óhemju mikið, frumlegt og í mjög háum gæðaflokki. Þeir mótuðu tónlistarsmekk stórrar kynslóðar og veittu gríðarlega mörgum ómælda gleði.

En John og Paul voru mjög ólíkir karakterar, nánast öndverðir að eiginleikum. Saman mynduðu þeir sterkari og stærri heild. Samt var iðulega togstreita milli þeirra, en þá togstreitu náðu þeir að virkja á uppbyggilegan hátt.

Þeir bættu hvor annan upp – veittu hvor öðrum meiri fjölbreytileika. Saman voru þeir stærri og öflugri.

Einar Benediktsson skáld og nýsköpunarmaður orðaði þetta vel:  „Maðurinn einn er ei nema hálfur, með öðrum er hann meiri en hann sjálfur.“

Joshua Shenk hefur eftir einum af upptökustjórum Bítlanna (Geoff Emerick) eftirfarandi lýsingu á ólíkum eiginleikum þeirra félaga:

“Paul var vinnusamur og skipulagður: hann var alltaf með minnisbók sem hann skrifaði texta og hljómahugmyndir sínar samviskusamlega í, með snyrtilegri rithönd sinni. John var á hinn bóginn eins og hann lifði í viðvarandi ringulreið: hann var sífellt að leita að bréfsnifsum til að hripa hugmyndir sínar á í flýti. Paul átti auðvelt með að tjá sig en John átti oft erfiðara með að koma hugmyndum sínum skipulega frá sér (þó hann væri oft orðheppinn).

Paul var prúður, en John uppreisnarseggur. Paul talaði mildum rómi og var iðulega kurteis; John gat verið mjög hávær og jafnvel ruddalegur. Paul hafði þrautseigju til að verja löngum tíma í að fullkomna verk; John var óþolinmóður, vildi frekar komast áfram í ný verkefni.

Paul vissi venjulega nákvæmlega hvað hann vildi og tók gagnrýni illa; John hafði þykkari skráp og var tilbúinn að heyra hvað öðrum fannst og jafnvel taka tilsögn.”

Eftir Cynthiu Lennon, fyrri eiginkonu Johns, er haft að John hefði haft þörf fyrir Paul til að sinna fínessum og smáatriðum – klára málin. Paul hafði þörf fyrir leitandi hugsun og fjörugt ímyndunarafl Johns.

Við lagasmíðar unnu þeir iðulega vel saman, þó þeir væru alltaf líka í samkeppni. Þeir bættu hvor sínum pörtum í laglínur og texta og deildu hugmyndum.

Að mörgu leyti er lýsingin á ólíkum eiginleikum þeirra félaga eins og lýsingin hjá Grikkjum til forna á guðunum Apollo og Dionysus. Apollo var guð skynsemi og aga, en Dionysus var fulltrúi tifinninga og upplifana (og svalls). Paul var Apollo og John Dionysos!

Joshua Wolf Shenk segir að nútímafræði um nýsköpun undirstriki þá lexíu sem læra megi af farsælu samstarfi þeirra Bítlabræðra. Sama má líklega segja um Keith Richard og Mick Jagger í Rolling Stones – og marga fleiri á ólíkum sviðum (t.d. Steve Jobs og Steve Wozniak í tölvunum o.sfrv…).

Sköpun er frjórri í pörum en hjá stökum einstaklingum. Andstæðir eiginleikar örva og frjóvga, jafnvel þó togstreita fylgi með í pakkanum.

Röstin sem myndast þar sem ólíkir straumar mætast getur þannig verið hin gjöfulasta uppspretta nýmæla og stórverka.

Ég mæli með þessari grein, bæði fyrir þá sem hafa áhuga á Bítlunum og þá er hafa áhuga á nýsköpun almennt (sjá hér).

Screen shot 2014-07-08 at 5.45.04 PM

Síðasti pistill: Lið Davíðs vill Má úr bankanum

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar