Upplýsingar um þróun atvinnutekna í Tekjublaði Frjálsrar verslunar hafa vakið umræðu um hvort stjórnendur í atvinnulífinu hafi fengið meiri hækkanir en aðrir milli áranna 2012 og 2013.
Vísbendingin þaðan er sú, að stjórnendur hafi að jafnaði fengið um 14% hækkun launa milli áranna, sumir allt að 40% hækkun.
Almennir launamenn hafa fengið mun minni hækkanir og eiga von á frekar litlum hækkunum í þeim kjarasamningum sem gerðir voru í byrjun þessa árs (2,8%).
Tölur Hagstofunnar, sem eru áreiðanlegri en tölur Frjálsrar verslunar, segja sömuleiðis að heildarlaun (atvinnutekjur) stjórnenda hafi hækkað meira en laun annarra, eða einmitt um 14% (það er sjálfsagt hending að talan er sú sama hjá Frjálsri verslun, enda úrtak þeirra hendingarkennt).
Aðrir starfshópar voru með á bilinu -0,4% (háskólamenntaðir sérfræðingar) og upp í 8,4% (sölu- og afgreiðslufólk).
Talsmenn atvinnurekenda hafa reynt að fegra þetta og segja að stjórnendur hafi fengið meiri skerðingu en aðrir í upphafi kreppunnar. Það heldur litlu vatni.
Á myndinni hér að neðan má sjá uppsafnaða þróun heildarlauna fullvinnandi fólks, skv. könnunum Hagstofunnar, alveg frá 1998 til 2013.
Þar má vel sjá hvernig stjórnendur hafa siglt framúr öðrum starfsstéttum á árunum fram að hruni – og svo aftur nú á uppsveiflunni frá 2011 til 2013.
Ég hef hins vegar áður bent á að í þessar tölur Frjálsrar verslunar (og raunar Hagstofunnar líka) vantar fjármagnstekjur, ef sýna á heildartekjur fólks. Fjármagnstekjur eru sá hluti skattskyldra tekna sem rennur langmest til hæstu tekjuhópanna.
Þau stóru tíðindi fylgja álagningu skattanna fyrir árið 2013 að það er komin mikil uppsveifla í vöxt fjármagnstekna á ný (sjá hér).
Almennt hækkuðu fjármagnstekjur um 23,7% milli áranna – verulega langt umfram launatekjur almennings.
Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig þeir liðir fjármagnstekna sem einkum renna til allra tekjuhæstu hópanna hafa hækkað langt umfram almennar launatekjur vinnandi fólks.
Arður sem rennur til eigenda og stjórnenda hækkaði um 14,7% milli áranna. En söluhagnaður hækkaði um 124,3%. Þær tekjur renna einkum til allra tekjuhæstu hópanna, eigenda og stjórnenda. Slíkar tekjur fóru upp úr öllu valdi á bóluárunum frá 2003 til 2007. Brask með hlutabréf er sem sagt farið að gefa verulega vel af sér á ný.
Aðrir liðir fjármagnstekna, vaxtatekjur og leigutekjur, hækkuðu mjög lítið, en eldri borgarar eru stór hluti þeirra sem fá vaxtatekjur af hóflegum sparifjár-innistæður í bönkum.
Þetta þarf að hafa inni í myndinni ef menn vilja sjá heildarmyndina af þróun teknanna í samfélaginu – og sérstaklega þróun háu teknanna.
Fyrri pistlar