Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, er glöggur og heiðarlegur maður. Ég ber yfirleitt virðingu fyrir því sem hann skrifar – þó ég sé honum oft ósammála. Ég held hann vilji Íslandi vel.
Styrmir var lykiláhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum til áratuga, vann flokknum heilt og beitti sér og Morgunblaðinu í þágu hans og þeirra hugsjóna (og hagsmuna) sem þeir stóðu fyrir á dögum kalda stríðsins.
Hann var dyggur andstæðingur kommúnismans og stuðningsmaður vestrænnar samvinnu í skjóli Bandaríkjanna. Á síðustu árum hefur hann fundið sér andstæðing í Evrópusambandinu, sem virðist hafa tekið sess kommúnismans í huga hans.
Styrmir var ekki alfarið neikvæður í garð opinberrar velferðarforsjár hér á árum áður, en það er frekar fátíður eiginleiki í röðum áhrifamanna í Sjálfstæðisflokknum nú á dögum. Þeir setja gjarnan hagsmuni atvinnurekenda og fjárfesta í forgang.
Styrmir hefur auðvitað alltaf verið afskaplega pólitískur maður. Annars hefði hann ekki gegnt því hlutverki sem hann gerði. Hann beitti sér oft af mikilli hörku.
Ég var sammála hinni frægu yfirlýsingu sem hann gaf Rannsóknarnefnd Alþingis, um hið ógeðslega samfélag á Íslandi, samfélag hagsmuna og engra hugsjóna.
Í myndbandinu hér að neðan útskýrir Styrmir sjálfur vandlega hvað hann átti við með þessum ummælum sínum.
„Hið ógeðslega samfélag“ spratt af tíðaranda frjálshyggjunnar
Þegar maður hlustar á þessa umfjöllun Styrmis þá blasir við að hann er að lýsa því hvernig tíðarandi frjálshyggjunnar varð allsráðandi hér á landi.
Það byrjaði fyrir um þrjátíu árum, einmitt þegar frjálshyggjuáhrif fóru að skjóta rótum innan Sjálfstæðisflokksins. Svo ágerðist þetta, breiddist út og fór loks alveg úr böndum eftir aldamótin, eins og Styrmir segir.
Það sem einkenndi hin nýju viðhorf sem Styrmir lýsir var að hagsmunir urðu allsráðandi viðmið en hugsjónir viku. Allt varð falt. Hægt var að kaupa fólk, skoðanir, atkvæði í kosningum. Allt.
Styrmir er einfaldlega að lýsa peningahyggju frjálshyggjunnar, sem er afleiðing af ofurtrú á óhefta markaðinn. Þegar slík markaðshyggja er færð yfir á sífellt fleiri svið samfélagsins verður einmitt allt falt. Áhrif og völd þeirra sem hafa mesta peninga magnast og allt fer að snúast um peninga og hagsmuni sem þeim tengjast.
Þetta er hnitmiðuð og rétt lýsing hjá Styrmi.
Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður og sagnfræðingur, hefur lýst þessari innreið tíðaranda frjálshyggjunnar ágætlega í bókinni Hamskiptin – Þegar allt varð falt á Íslandi.
Ég hef skrifað um það hvernig þessi sjónarmið róttækrar frjálshyggju breyttu Sjálfstæðisflokknum, einmitt með tilvísunum í ágæta bók Styrmis, Sjálfstæðisflokkurinn – Átök og uppgjör.
Páll Skúlason heimspekingur og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands fjallaði líka um þetta í athyglisverðri grein í Skírni vorið 2008, sem heitir Menning og markaðshyggja.
Styrmir segir svo að hann hafi verið að vona að við fengjum það út úr hruninu að þetta ógeðslega samfélag, alræði peninga og hagsmuna, kæmi ekki aftur.
Mun “hið ógeðslega samfélag” lifa áfram?
Það er þó ekki líklegt að honum verði að þeirri ósk sinni. Því miður.
Ástæðan er sú, að þeir sem innleiddu frjálshyggjuna, sem eru heimamenn Styrmis í Sjálfstæðisflokknum, samþykkja enga ábyrgð á því sem hér gerðist og fór afvega. Þeir fara undan í flæmingi og búa til villukenningar og stundum beinlínis lygar um orsakir hrunsins.
Styrmir er sjálfur höfundur einnar slíkrar villukenningar sem hann setti fram í léttvægri bók sinni Umsátrið, þar sem sökin var alfarið lögð á útlendinga. Það gerði Styrmir til að bjarga Sjálfstæðisflokknum, Davíð og frjálshyggjunni undan ábyrgð sem þeim þó bar að viðurkenna.
Styrmir hefur þó stundum sagt að alvöru uppgjör við hrunið hafi ekki farið fram þar á bæ – og harmað það.
En það var flokkshollustan sem bar Styrmi ofurliði.
Þessi flokkshollusta fer þó illa saman við þau sjónarmið sem Styrmir lýsir með þessum frægu ummælum sínum og skýringunum á þeim.
Það voru nefnilega frjálshyggjumennirnir í Sjálfstæðisflokknum sem opnuðu Pandórubox peningahyggjunnar og slepptu óværunni lausri.
Nú brýna frjálshyggjumennirnir og braskararnir sverðin og búa sig undir að endurtaka leikinn. Fjárfestar hugsa sér til hreyfings og eru byrjaðir að spenna upp eignaverðin, á fasteignum og hlutabréfum. Krafan um minna eftirlit og hverfandi hlutverk ríkisins og lýðræðisins ríður húsum á ný, ekki síst í röðum atvinnurekenda og peningamanna.
Af hverju gerist þetta svona og af hverju heldur það áfram?
Jú, það er vegna þess að hagsmunaaðilarnir sem ráða för græddu svo mikið á bóluhagkerfi spákaupmennskunnar sem hér ríkti fram að hruni. Það skilaði hærri tekjuhópunum í landinu gríðarlegum auði og menn vilja freista gæfunnar á ný – í skjóli frjálshyggjunnar.
Fjöregg þjóðarinnar skiptir engu máli í ranni þessa fólks. Bara eigin hagur, eins og Styrmir lýsir svo vel.
Það væri þó óskandi fyrir farsæld þjóðarinnar að Styrmi yrði að þeirri ósk sinni að þetta ógeðslega samfélag komi ekki aftur.
Styrmir Gunnarsson og aðrir andmælendur mega sín þó sennilega of lítils gagnvart þessum hagsmunum. Peningahyggja frjálshyggjunnar ræður nú för á ný.
Síðasti pistill: Finnst þér matur ekki nógu dýr á Íslandi?
Fyrri pistlar