Ég hef ekki skrifað um lekamálið, en fylgst með úr fjarska. Sumt hefur mér þótt skrítið við framvindu málsins, ekki síst það sem hefur snúið að ráðuneytinu.
Það vakti hins vegar athygli mína hversu staðfastir DV-menn voru í umfjöllunum sínum um málið, þrátt fyrir að oft væri harkalega að þeim vegið.
Sjálfstæðismenn og vildarvinir þeirra sökuðu DV um einelti gegn ráðherranum. Talað var m.a. um tilbúning, samsæri og ljótan pólitískan leik.
Sérstakur lögfræðilegur ráðgjafi ráðherrans, Jón Steinar Gunnlaugsson, segir af þessu tilefni að DV sé “óheiðarlegt fréttablað sem er alltaf í erindagjörðum í sínum frásögnum…”
En Jón Steinar er ekki í neinum erindagjörðum eða hvað?!! Hvorki fyrir Flokkinn né ráðherrann…
DV-menn bentu hins vegar staðfastlega á að málið snérist um mannréttindi og leikreglur vandaðrar stjórnsýslu, sem virtust hafa verið brotnar.
Og nú hefur ríkissaksóknari gefið út kæru á hendur aðstoðarmanns ráðherra. Eftir að málið var rannsakað ofan í kjölinn.
Það eru stór tíðindi – hvort sem sakfellt verður eður ei.
Þar með blasir við að DV-menn höfðu rétt fyrir sér. Það var ástæða til að fjalla um málið.
Kanski þeir sem harðast hafa sótt að DV vegna málsins ættu að biðja blaðamennina afsökunar á því…
Fyrri pistlar