Laugardagur 23.08.2014 - 11:12 - FB ummæli ()

Metnaðarleysi í skattamálum

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, vill einfalda virðisaukaskattkerfið: Lækka efstu álagninguna (úr 25,5% í 24,5%), en hækka á móti matarskattinn (úr 7% í 11% eða  jafnvel 14%)

Þetta myndi hækka verð matvæla á Íslandi, sem er þegar eitt það hæsta í heimi.

Er þetta það sem brýnast er að gera í skattamálum?

Er þetta gott fyrir heimilin, sem fengu loforð um skattalækkanir?

Hækkun matarskattsins úr 7% í 11% mun leggja aukalega um 5,3 milljarða (fimm þúsund og þrjú hundruð milljónir) á heimilin í landinu.

Í staðinn hugsa Sjálfstæðismenn sér að sletta nokkrum tugum eða hundruðum milljóna í barna- og vaxtabætur (sem þegar hafa lækkað um talsverðar upphæðir). Hætt er við að slíkar hækkanir yrðu smáaurar í samanburði við hinar auknu álögur sem fylgja hækkun matarskattsins.

Engin heimili komast hjá matvælaútgjöldum. Frekar er hægt er að fresta eða neita sér um önnur útgjöld.

Þeir sem túlka neyslukönnun Hagstofunnar þannig að hækkun matarskatts skipti lágtekjufólk ekki máli eru á miklum villigötum.

Fyrir erum við með eitt hæsta matvælaverð í heimi. Verðlag matvæla hækkaði að auki næst mest á Íslandi af öllum vestrænum þjóðum frá 2005 til júlí 2014, eins og sjá má á myndinni hér að neðan (heimild: Eurostat).

Matarverð

Er á þetta bætandi, með mikilli hækkun matarskattsins á næstunni?

 

Metnaðarleysi og falskar skattalækkanir

Hvers vegna ekki að standa við loforðin og lækka skatta í alvöru, en ekki bara færa skattbyrði frá einum til annars – frá hærri tekjuhópum til lægri tekjuhópa?

Sjálfstæðismenn hafa lengi verið talsmenn flatra skatta, af því þeir sjá í þeim möguleika á að lækka skattbyrði á hærri tekjuhópa og greiða fyrir það með hækkun skattbyrði hjá lægri tekjuhópum. Þetta lærðu þeir af frjálshyggjunni.

Slíkar breytingar gerðu þeir á tekjuskatti einstaklinga á tímabilinu frá 1995 til 2006, sem komu illa við láglaunafólk og lífeyrisþega.

Hvers vegna ekki að hafa alvöru metnað og lækka einfaldlega efsta álagningarþrepið í virðisaukaskattinum, en halda matarskattinum óbreyttum? Í staðinn má þétta kerfið gagnvart undanþágum, undanskotum og frávikum, ekki síst í ferðaþjónustu.

Auðlegðarskattur og veiðigjöld byggja á traustum skattstofnum þar sem ágæt greiðslugeta er fyrir hendi, sem nýta má betur.

Það er lítill metnaður fólginn í því að leggja verulega auknar byrðar á matvælaútgjöld heimilanna í einu dýrasta landi heims – eftir að hafa lofað þessum sömu heimilum skattalækkunum.

Leiðin ætti frekar að vera að færa efra þrep álagningar niður í átt til matarskattsins – skref fyrir skref, á lengri tíma.

Eða að hækka skattleysismörkin veglega. Það bætir hag alls þorra heimila, mest þeirra sem minnst hafa.

Skattalækkun á einu sviði sem mætt er að fullu með skattahækkun á öðru er ágætlega til blekkinga fallin, en þjónar ekki hagsmunum venjulegs fólks.

 

Síðasti pistill: DV-menn höfðu rétt fyrir sér

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar