Talsmenn hækkunar matarskattsins, það er lægri álagningarþrepsins í virðisaukaskattinum, segja gjarnan að æskilegt sé að hafa einungis eitt álagningarþrep á alla neysluvöru. Það sé einfaldara og skilvirkara.
Ekkert land í Evrópu býr hins vegar við slíkt fyrirkomulag.
Öll Evrópulöndin eru með tvö eða fleiri álagningarþrep, misjafnt er þó á hvaða vöruflokka lægri álagningin gildir.
Öll OECD-ríki nema tvö (Japan og Chile) eru með tvö eða fleiri álagningarþrep í virðisaukaskatti og undanþágur.
Algengast er að hafa álagninguna lægri á matvæli, lyf og læknistæki, bækur, tannlækningar, hótelgistingu, fólksflutninga, dagblöð og menningarneyslu (aðgengi að söfnum og menningarviðburðum o.s.frv.).
Á myndinni hér að neðan má sjá lægstu álagningu á matvæli og hið almenna álagningarhlutfall í virðisaukaskatti í Evrópulöndum á árinu 2014 (heimild Eurostat – sjá hér).
Miðað við núverandi fyrirkomulag þá er lægsta álagning á matvæli svipuð á Íslandi og í Þýskalandi, en lægri í 13 Evrópulöndum og hærri í 14 löndum. Einungis 5 lönd eru með almennu álagninguna á matvæli, en öll hafa þau þó lægri álagningu á einhverja aðra vöruflokka.
Ef álagningin á mat (lægra þrepið) hækkar á Íslandi úr 7% í 12%, eins og fjármálaráðherra leggur til í fjárlagafrumvarpinu, þá yrði niðurstaðan þessi:
9 Evrópulönd væru með hærri álagningu á mat en Ísland, en 17 lönd yrðu með lægri álagningu en við (tvö væru með sömu álagningu í lægsta þrepi fyrir matvæli).
Til hvers er breytingin?
Þegar þetta er skoðað í samhengi, þá er ekki augljóst hvers vegna þessi breyting er æskileg. Hagfræðingar hafa þó mælt með þessu, en þeir hallast oft að því að einfalda líf tölvanna sem reikna út skattinn (þó þær ráði vel við verkefnið!).
Með breytingunni verða áfram tvö þrep, en einungis með öðrum tölum. Flækjustigið helst óbreytt.
Hins vegar væri það klárlega æskileg einföldun að afnema vörugjöld á tiltekna neysluvöru, en það leiðir ekki sjálfkrafa til neinnar nauðsynjar á hækkaða álagningu á mat.
Það sem fjármálaráðherra er í reynd að leggja til, er að láta hækkunina á matarskattinum greiða fyrir lækkun á vörugjöldum og hærra álagningarþrepinu.
Lofuð skattalækkun verður því í senn skattahækkun (sem leggst með meiri þunga á lægri tekjur) og skattalækkun (sem kemur betur út fyrir milli og hærri tekjuhópa). Byrðunum er fyrst og fremst breytt milli tekjuhópa, sem þó er háð neyslumynstri.
Hækkun matarskattsins er sögð skila um 10-11 milljörðum aukalega í ríkiskassann (svipað og lækkun auðlegðarskatts og veiðigjalda nemur), en á móti er boðið upp á hækkun barnabóta upp á um 1 milljarð króna (sem skila sér sérstaklega til láglaunahópa).
Meiri metnaður hefði verið í því, að lækka efra þrepið og afnema vörugjöldin án hækkunar matarskattsins. Það hefði verið alvöru skattalækkun fyrir alla.
Ef ástand ríkisfjármála er þannig, að ekki sé staða til að gera það, þá væri eðlilegri málamiðlun að láta duga nú að afnema vörugjöldin en fresta lækkun hærra álagningarþrepsins. Slík aðgerð væri klárlega viðráðanleg.
Að láta hækkun matarskattsins um 10-11 milljarða greiða fyrir aðrar breytingar á skattkerfinu er þunnur þrettándi, sem gerir matvæli enn dýrari á Íslandi en nú er.
Síðan sýnist mér að í kynningu fjármálaráðherra á heildarútkomu aðgerðanna þá reikni hann skuldaniðurfellinguna inn í dæmið um heildaráhrif breytinganna á skattkerfinu.
Með því er hann að selja okkur ábatann af skuldalækkun til heimilanna tvisvar sinnum. Það er varla boðlegt.
Fyrri pistlar