Fyrir kosningarnar í fyrra sagðist Sjálfstæðisflokkurinn geta lækkað skatta, öllum til hagsbóta.
Forystumenn flokksins sögðu að skattalækkanir myndu hafa svo örvandi áhrif á efnahagslífið að tekjur ríkisins þyrftu ekki að minnka vegna hennar.
Þessa speki höfðu forystumenn flokksins eftir Hannesi Hólmsteini, sem fékk hana að láni frá Arthur Laffer, páfa vúdú-hagfræðinnar í heiminum.
Þetta var náttúrulega aldrei annað en blekking sem sett var fram í áróðursskyni, eins og ég benti á í nokkrum greinum (t.d. hér og hér og hér).
Nú er Sjálfstæðisflokkurinn kominn til valda og formaðurinn Bjarni Benediktsson orðinn fjármálaráðherra þjóðarinnar, sem fer með skattamál.
Bjarni er sem sagt í stöðu til að setja vúdú-hagfræðina í framkvæmd: lækka skatta og láta ríkissjóð græða á galdrabrögðunum, án þess að nokkur finni fyrir neikvæðum afleiðingum neins staðar.
En nú er annað uppi á teningnum.
Bjarni segist vilja lækka skatta, en í stað þess að láta vúdú-brögðin borga tekjutap ríkisins segist hann þurfa að hækka matarskattinn (lægra þrepið í virðisaukaskattinum) – til að afla tekna í staðinn.
Nú er sem sagt ekki lengur gripið til vúdú-hagfræðinnar!
Skattalækkun þarf í senn að verða skattahækkun, til að dæmið gangi upp, segir Bjarni.
Það er bara svigrúm til að færa skattbyrði af sumum til að lækka hana á öðrum. Svo er boðið upp á ófullnægjandi mótvægisaðgerðir, sem ná alls ekki að bæta öllum auknar skattaálögur.
Hagur okkar allra væri náttúrulega betri ef vudú-hagfræðin hefði staðist. En hún var bara til að blekkja kjósendur til fylgilags og skilaði sínu. Svo tekur „alvöru“ hagfræði við þegar völdum er náð.
Bjarni á hins vegar enn þann kost í stöðunni að lækka skattbyrði allra í raun. Það gæti hann gert ef hann hækkaði persónufrádráttinn myndarlega, til viðbótar við boðaðar mótvægisaðgerðir.
Þetta bendir Jón Steinsson hagfræðingur á í nýrri grein í Kjarnanum og ég hef ítrekað fært rök fyrir nauðsyn þess ef mótvægið á að vera fullnægjandi. Einnig ASÍ.
Ef Bjarni Benediktsson færi að þeim ráðleggingum, þá gæti hann í framhaldinu hælt sér af því, að hafa í alvöru lækkað skatta, í stað þess að færa skattbyrðina einfaldlega af breiðu bökunum yfir á þau sem mjórri eru.
Framsókn ætti að þrýsta á um öflugri mótvægisaðgerðir með hækkun persónuafsláttarins.
Kjósendur kynnu að meta það.
Fyrri pistlar