Sunnudagur 12.10.2014 - 10:00 - FB ummæli ()

Kostnaður Íslendinga af hruninu – nýjar upplýsingar

Samkvæmt nýlegum upplýsingum sérfræðinga AGS var beinn útlagður kostnaður af hruninu á Íslandi (2008 til 2011) um 44% af vergri landsframleiðslu (sjá “Fiscal Cost á myndinni hér að neðan).

Þetta nemur um 748 milljörðum króna (þjóðarframleiðslan árið 2011 var 1700 milljarðar).

Það eru um 2,4 milljónir á hvert mannsbarn í landinu, eða tæplega 10 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Þetta var heldur dýrara en bankakreppan hjá Írum. Þar var beini kostnaðurinn um 41% af landsframleiðslu þeirra.

Þó er þetta ekki allt. Eins og sjá má á mynd AGS hér að neðan þá jukust skuldir hins opinbera vegna hrunsins og kreppunnar mun meira, eða um 72% af landsframleiðslu. Það var svipað og hjá Írum (73%).

PDP-Working Paper

Það eru um 1.224 milljarðar sem íslenskir skattgreiðendur þurfa á endanum að borga. Það samsvarar um 15,5 milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Skuldum hins opinbera vegna hrunsins er hægt að fleyta inn í framtíðina (eins og nú er gert), en það kostar um 85 milljarða á hverju ári í vaxtakostnað, eða meira en kostnaður er við byggingu nýs Landsspítala. Vaxtakostnaðurinn er sem sagt einn nýr Landsspítali á ári.

Þá er ótalinn kostnaður vegna framleiðslutaps þjóðarbúsins, en það varð þó talsvert minna hér en á Írlandi, ekki síst vegna minna atvinnuleysis. Þá vegur 20-30% skerðing ráðstöfunartekna heimilanna mikið til viðbótar. Rólega hefur miðað í endurheimt kaupmáttarins. Tapið var bæði beint og óbeint.

Lífeyrissjóðir almennings töpuðu um 480 milljörðum króna. Það eru um 6 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Niðurstöður AGS-manna benda til að hrunið íslenska hafi verið þriðja dýrasta fjármálakreppan í heiminum síðan 1970, næst á eftir Indónesíu 1997 og Argentínu 1980, miðað við útlagðan kostnað. Það er mælt í hlutfalli við landsframleiðslu, eins og sjá má á myndinni.

Fjármálakreppan í Finnlandi í byrjun tíunda áratugarins kostaði um 15% af landsframleiðslu í beinum fjárútlátum. Hún var bæði djúp og erfið. Beinn kostnaður okkar var sem sagt þrisvar sinnum meiri en kostnaður Finna.

Þegar allt er saman tekið er þetta gríðarlegur kostnaður. Satt að segja ótrúlegur.

En þessu til viðbótar er stefnt að afnámi gjaldeyrishafta sem að öllum líkindum mun leiða til stórrar gengisfellingar á ný (sjá hér og hér).

Það mun rýra kaupmátt fjölskyldna enn frekar og hækka allar skuldir enn meira. Á móti myndi það bæta hag útvegsmanna og atvinnurekenda í öðrum útflutningsgreinum.

Vonandi hafa stjórnvöld þá fyrirhyggju að afnema ekki gjaldeyrishjöftin fyrr en tryggt verður að ekki komi til gengisfellingar vegna þess.

Þol heimilanna er takmarkað og sennilega fullnýtt – svo ekki sé meira sagt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar