Það virðist hafa komið mörgum í opna skjöldu að þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp á Alþingi, sem þeir segja að miði að því að draga úr spillingu.
“Megintilgangur frumvarpsins er meðal annars til að tryggja betri meðferð á opinberu fé og til að koma í veg fyrir spilling”, segja flutningsmenn (orðrétt).
Af kommentum á netinu að dæma virðast margir frekar tengja Sjálfstæðisflokkinn við spillingu en siðbót. Mörgum finnst þetta svolítið eins og að rónar taki að sér að hafa forystu um baráttuna gegn áfengisbölinu! Sumir fagna þó og segja batnandi mönnum best að lifa.
Nefnt er að Guðlaugur Þór Þórðarson hafi öðrum fremur lagst gegn gagnsærri upplýsingagjöf um fjárframlög til kosningabaráttu, ekki síst sinnar eigin. Þá var hann einnig lykilgerandi í afar vafasömum risastyrkveitingum til Sjálfstæðisflokksins á árunum fyrir hrun, sem meðal annars virtust tengjast REI-málinu. Það leit ekki vel út – svo ekki sé meira sagt.
Brynjar Níelsson og Óli Björn Kárason eru harðir báráttumenn gegn opinberu eftirliti hvers konar, einkum ef það beinist að einkageiranum. Telja hins vegar mikla ástæðu til að hafa eftirlit með hinu opinbera.
Þrímenningarnir eru svokallaðir frjálshyggjumenn, sem sjá svart þegar ríkið eða lýðræði ber á góma, en telja að markaðurinn og einkageirinn séu heilagar kýr sem geri allt á besta veg og eigi að taka yfir sem flest af verkefnum ríkisins.
Nú er ég ekki andvígur auknu eftirliti með opinberum rekstri og gagnsæi í upplýsingagjöf um hann. Hreint ekki.
Hins vegar mættu þessir ágætu riddarar siðsemi og góðra stjórnsýslu koma niður á jörðina og beina sjónum að spillingu og ógagnsæi þar sem vandinn er mestur. En það er í einkageiranum.
Einkageirinn er mesti vandinn – ekki ríkið
Það var einmitt einkageirinn, óhefti markaðurinn og óhefti fjármálageirinn, sem setti Ísland á hausinn fyrir um sex árum síðan. Þar voru ekki bara siðleysi, græðgi og ófaglegir stjórnarhættir á ferð, heldur einnig margvísleg lögbrot, eins og fram hefur komið á síðustu misserum. Þjóðinni blæðir nú vegna þessa.
Græðgi braskara í einkageira magnaðist úr hófi í umhverfi óheftra markaðshátta, þar sem eftirlit og aðhald ríkisins gagnvart einkageiranum hafði verið veikt og þynnt út með skipulögðum hætti á frjálshyggjuárunum. Stjórnvöld höfðu ofurtrú á einkageira og óheftum markaði, í anda frjálshyggjurétttrúnaðar.
Braskararnir nýttu sér hið aukna frelsi til að drekkja Íslandi í skuldum, en sjálfum sér til hagsbóta.
Það er því helst á sviði einkageirans sem þörf er á auknu eftirliti, gagnsæi upplýsinga og aðhaldi gegn óhófi og spillingu.
Ríkisgeirinn er almennt með mikið kostnaðaraðhald og lítinn tilkostnað miðað við það sem gerist í öðrum löndum og miðað við einkageirann hér á landi. Launagreiðslur eru hóflegar hjá ríkinu og engar innistæðulausar arðgreiðslur.
Háskóli Íslands er til dæmis rekinn fyrir minna fé á hvern stúdent en sést víðast á Vesturlöndum. Samt skilar hann allgóðum árangri, langt umfram það sem illa fjármagnaðir háskólar almennt gera.
Tryggingastofnun ríkisins er rekin fyrir einungis um þriðjung til fjórðung af því sem sambærilegar stofnanir á hinum Norðurlöndunum kosta, miðað við umfang verkefna.
Það er því annað hvort hræsni eða veruleg þröngsýni þegar riddarar frjálshyggjunnar sjá hvergi lesti nema hjá ríkinu, nema hvoru tveggja sé.
Einkageirinn þyrfti svo mikið á aðhaldsherferðum að halda: auknu eftirliti, gagnsæi, siðabót og hófstillingu.
En frjálshyggjubörnin heimta sífellt meira frelsi án ábyrgðar fyrir einkageirann, líka skömmu eftir að hann keyrði íslenska þjóðarbúið fyrir björg.
Þessi herferð þeirra félaga er svolítið eins og að rónar hafi tekið forystuna í baráttunni gegn áfengisbölinu – og beini spjótum sínum einkum að hófdryggjumönnum!
Fyrri pistlar