Vilhjálmur Egilsson, gamall frjálshyggjumaður og talsmaður atvinnurekenda til langs tíma, var á Sprengisandi hjá Sigurjóni Egilssyni í morgun að tala um gjaldeyrishöftin.
Hann finnur þeim allt til foráttu og segir það hafa verið mistök að innleiða þau eftir hrun.
Gjaldeyrishöftin, sem takmarka flæði fjármagns til og frá Íslandi að hluta, voru sett á að ráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, til að aftra því að gengi krónunnar lækkaði enn meira en þó varð.
Án gjaldeyrishaftanna hefði kaupmáttur heimilanna minnkað enn meira og skuldir þeirra orðið enn meiri en nú er.
Mörgum fannst þó kjaraskerðingin sem hrunið orsakaði meira en nógu stór biti fyrir heimilin, svo ekki sé meira sagt!
En Villa Egils finnst sem sagt í lagi að ganga enn fastar í skrokk á heimilunum. Honum finnst að fara hefði átt alla leið í hruni krónunnar og telur hann að við værum betur stödd í dag ef hrunið hefði orðið enn stærra! Og þetta segir hann í fullri alvöru, að því er virðist.
Svona ábyrgðarlaus steypa kemur varla frá neinum nema þeim sem tekur óhefta markaði sem trúarbrögð, eða frá þeim sem hafa beinan hag af gengisfellingu, eins og á við um marga atvinnurekendur og fjárfesta (einkum í útflutningsgreinum).
Þarna skortir að minnsta kosti alla tillitssemi gagnvart afkomu heimilanna.
Atvinnurekendur hafa ítrekað hvatt stjórnvöld til að afnema gjaldeyrishöftin sem allra fyrst, og hirða augljóslega ekkert um hvernig það færi með heimilin. Segja bara að án haftanna verði allt betra, en eiga við að þá muni hagur þeirra sjálfra batna, þó hagur heimilanna versni enn meira.
Vilhjálmur Egilsson tjaldaði öllum venjulegu rökunum um kosti þess að afnema þessar takmarkanir á flæði fjármagns til og frá Íslandi. Hagvöxtur yrði meiri og svo framvegis.
Vilhjálmur gaf sér meðal annars að hagvöxtur yrði um hálfu prósenti meiri á ári hverju og margvíslegur sparnaður annar félli til. Með höftunum yrði kostnaðurinn af framkvæmd þeirra á hinn bóginn meiri en kostnaðurinn af hruninu sjálfu, sagði hann!
Þar fór Vilhjálmur illa afvega. Hann hefur nefnilega engin ábyggileg gögn sem tryggja það að hagvöxtur yrði meiri með afnámi haftanna. Þetta er bara skáldskapur hjá honum.
Afnám gjaldeyrishafta án skilyrða leiðir til annars hruns lífskjara
Raunar er lang líklegast að djúp samdráttardýfa myndi fylgja í kjölfar gengisfellingar sem afnám haftanna án skilyrða myndi örugglega framkalla, vegna enn minni kaupmáttar, aukins skuldavanda og enn meiri niðurskurðar opinberra útgjalda. Einkaneysla myndi dragast saman á ný.
Atvinnuleysi myndi aukast hratt á ný – alveg eins og í kjölfar hrunsins 2008.
Í núverandi ástand er hagvöxtur á Íslandi hins vegar einn sá mesti sem sést á Vesturlöndum og hefur svo verið frá 2011 – í skjóli gjaldeyrishafta. Atvinnuleysi er líka með allra minnsta móti – í skjóli gjaldeyrishafta.
Við urðum reyndar ein af ríkustu þjóðum heims í skjóli gjaldeyrishafta, sem voru í gildi hér til 1995. Hagvöxtur á tíma gjaldeyrishafta var t.d. mun meiri frá 1960 til um 1990 en varð eftir afnám haftanna, frá 1995 til 2008.
Þessu eru Vilhjálmur Egilsson og pólitískir samherjar og hagsmunabræður hans tilbúnir að fórna, fyrir ævintýralegt lotterí – þar sem afkoma heimilanna er lögð undir.
Þetta er svipuð lógík og var á bak við skuldsettu yfirtökurnar á frjálshyggjutímanum, sem settu þjóðarbúið á hausinn. Lotterí og brask með lánsfé, sem lendir svo á venjulegum skattgreiðendum.
Kanski Vilhjálmur Egilsson og eftirmaður hans hjá Samtökum atvinnulífsins ættu líka að upplýsa stjórnvöld um það, hversu mikið vinsældir þeirra myndu aukast við afnám gjaldeyrishafta sem sendir heimilin í annað kjarahrun á svipstundu.
Engin ríkisstjórn mun lifa af afnám gjaldeyrishafta, ef það leiðir til umtalsverðrar gengisfellingar með tilheyrandi kjaraskerðingu.
Þess vegna þurfum við „þjóðhagsvarúðarreglur“ gagnvart flæði fjármagns ef við viljum verja þjóðina gegn öðru hruni og frekari kjaraskerðingu, eins og AGS hefur bent á. Það þýðir áframhaldandi gjaldeyrishöft, en kanski svolítið breytileg frá einum tíma til annars. „Þjóðhagsvarúðarreglur“ eru einfaldlega annað orð yfir „gjaldeyrishöft“.
Sjá einnig athyglisverð ummæli Gylfa Zoega hagfræðings um höftin (hér).
Fyrri pistlar