Þriðjudagur 04.11.2014 - 10:14 - FB ummæli ()

Barnafjölskyldur í basli

Margir eru hissa á viðvarandi reiði og óánægju í samfélaginu. Mikil þátttaka í mótmælunum í gær kom mörgum líka á óvart, ekki síst stjórnarliðum.

Allt er þetta þó skiljanlegt.

Kjaraskerðingin vegna frjálshyggjuhrunsins var hátt í 30%, þegar bæði er tekið er tilliti til minnkunar kaupmáttar og aukinnar skuldabyrði heimila. Þetta var gríðarlegt áfall, sem þjóðin er enn að glíma við.

Ungar barnafjölskyldur fóru einna verst út úr hruninu. Margar þeirra höfðu keypt húsnæði á bóluárunum, þegar íbúðaverð var uppsprengt og því tók ungt fjölskyldufólk á sig meiri skuldir en áður hefur þekkst hér á landi (sjá hér).

Síðan magnaði hrunið þennan vanda sem var undirliggjandi.

Þó vinstri stjórninni hafi tekist að nokkru leyti að verja tekjulægstu heimilin gegn verstu afleiðingunum þá tókst almennt ekki að hlífa neinum alveg við kjaraskerðingu.

Hins vegar var tæpast um nógu miklar varnir að ræða. Mikil hækkun vaxtabóta bætti þó úr og það sama má segja um 30% hækkun barnabóta í byrjun árs 2013. Það kom þó full seint og hefði að auki mátt vera meira, því barnabótakerfið var orðið nær ónýtt, eftir árvissa rýrnum þess frá 1995 til um 2006.

En heimilin glíma sem sagt enn við mikinn vanda, eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

Á henni eru upplýsingar um fjárhagsþrengingar íslenskra barnafjölskyldna, bæði fyrir og eftir hrun, í samanburði við barnafjölskyldur á hinum Norðurlöndunum (heimild: Eurostat).

Barnafjölskyldur í fjárhagserfiðleikum

Fjárhagsstaða barnafjölskyldna á Íslandi var verri en á hinum Norðurlöndunum fyrir hrun og stórversnaði svo með hruninu. Sveiflurnar eru miklar.

Um 8% barnafjölskyldna á Íslandi náðu endum saman einungis með miklum erfiðleikum árið 2004. Það lækkaði síðan niður í tæp 5% árið 2007, en meira en tvöfaldaðist svo til 2010, í tæp 11%.

Síðan 2010 hefur hlutfall barnafjölskyldna í fjárhagserfiðleikum lækkað lítillega, en einungis lítillega. Raunar jókst það aðeins á ný árið 2013.

Eins og sjá má á myndinni er batinn óverulegur miðað við þá miklu aukningu fjárhagserfiðleika sem hrunið lagði á barnafjölskyldur og aðra.

Á hinum Norðurlöndunum varð lítil breyting á fjárhagserfiðleikum barnafjölskyldna með fjármálakreppunni, nema helst í Danmörku. Aukningin þar var þó ekkert í líkingu við þróunina á Íslandi.

Þó fyrri ríkisstjórn hafi glímt við mun meiri fjárhagsvanda en sú sem nú situr hefði verið æskilegt að hún sýndi heimilunum enn meiri skilning. Þrátt fyrir fyrirhugaða skuldalækkun glímir núverandi stjórn við sama vanda. Hún þykir sýna heimilunum of lítinn skilning. Sjálfstæðismenn hafa að auki of miklar áhyggjur af hag ríkari hluta þjóðarinnar, að því er fólki finnst.

Lærdómurinn af myndinni hér að ofan er sá, að æskilegt hefði verið að geta gert meira fyrir barnafjölskyldur og aðra þjóðfélagshópa sem hafa verið í fjárhagsþrengingum.

Afleiðingar hrunsins eru hér enn – svo um munar.

Það eru helst hátekjuhóparnir sem ekki finna fyrir neinu basli. Eignir þeirra og tekjur eru teknar að aukast á ný – svo um munar (sjá hér og hér og hér).

Þess vegna er reiðin enn við lýði. Þess vegna er óánægjan viðvarandi.

 

Síðasti pistill:  Villi Egils yrkir ljóð um gjaldeyrishöft – og vill leggja enn meiri byrðar á heimilin

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar