Bandaríkin voru draumaland fyrir marga á 19. öldinni og einnig lengst af á þeirri tuttugustu.
Landið þar sem draumar gátu ræst, þar sem fólk gat brotist frá fátækt til bjargálna og notið nútímalegra lífsgæða.
Á þessu varð grundvallarbreyting á síðasta aldarfjórðungi tuttugustu aldarinnar, einkum eftir 1980. Þá fór ójöfnuður að aukast stórlega og inntak ameríska draumsins varð sífellt holara.
Tímamótin eru nátengd auknum áhrifum frjálshyggjustjórnmála, sem ágerðust með tilkomu Ronalds Reagans á forsetastól.
Frjálshyggjan réttlætir aukinn ójöfnuð og berst gegn velferðarríkinu sem jafnar tækifæri og bætir hag lægri stétta. Frjálshyggjan berst einkum fyrir bættum hag þeirra allra ríkustu.
Nú eru Bandaríkin betur þekkt sem land þar sem þeir ríkustu bæta hag sinn stórlega frá ári til árs á meðan millistéttin og lágstéttin standa því sem næst í stað (sjá hér).
Bandaríska lýðræðið og markaðssamfélagið breyttist sem sagt í auðræði, þar sem völd þeirra allra ríkustu eru í vaxandi mæli notuð til að efla auðræðið enn frekar og grafa undan lýðræðinu og velferðarríkinu.
Bandaríkin eru orðin að landi þar sem tekjur þeirra ríkustu aukast í sífellu en aðrir standa í stað eða verr. Spáð er að unga kynslóðin sem nú er muni njóta lakari lífskjara en kynslóð foreldra þeirra. Það yrði nýmæli.
Þekktur hagfræðiprófessor við Berkley háskólann í Kaliforníu, J. Bradford DeLong, skrifaði nýlega grein um þessa þróun og segir einmitt að megnið af hagvextinum í Bandaríkjunum síðan 1979 hafi runnið til þeirra allra ríkustu.
Hagvöxtur á mann jókst um nærri 72% að raunvirði á þremur áratugunum frá 1979 til 2009. Á sama tíma bötnuðu kjör venjulegs fólks lítið sem ekkert. Það eru mögnuð umskipti frá því sem áður hafði tíðkast.
Áhætta hefur einnig aukist, eins og hefur sýnt sig í kreppunni. Millistéttarfólk sem missir vinnuna getur jafnvel misst húsnæði og sjúkratryggingar og endað með fjölskyldu sína á götunni.
Nú er það svo að hægri sinnaðir hagfræðingar hjá OECD og IMF, aðrir en frjálshyggjuróttæklingar, eru farnir að óttast að ójöfnuður grafi undan hagvexti (sjá hér og hér).
Stjórnmálafræðingar benda sömuleiðis á að auðræðið grafi undan lýðræðinu.
Allt hefur þetta afleiðingar sem vega að rótum hins vestræna samfélags, sem áður skilaði flestum miklum tækifærum og raunverulegum lífskjarabata.
Þegar millistéttin hættir að blómstra og lágstéttin á litla von um að komast áfram þá tekur stöðnun við – og síðan breytist stöðnun í hnignun.
Fyrri pistlar