Snjóhengjan svokallaða, kvikar eignir útlendinga hér á landi og kröfur í þrotabú föllnu bankanna, eru eitt stærsta vandamálið sem leysa þarf í tengslum við afnám gjaldeyrishafta.
Forsætisráðherrann Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og seðlabankastjórinn Már Guðmundsson hafa lengi bent á að erlendir kröfuhafar þurfi að gefa eftir hluta af krónueignum sínum, annað hvort með afskriftum eða beinni skattlagningu (útgönguskatti).
Þarna er um að ræða hundruð milljarða króna, sem ættu að renna í ríkissjóð og lækka skuldir þjóðarinnar.
Rökin fyrir því að reynt verði að semja við kröfuhafana um slíkt eða setja á þá útgönguskatt eru skortur á gjaldeyri og hættan á nýju hruni krónunnar, sem myndi leggja heimilin í rúst.
Það eru vissulega gild og afar mikilvæg rök.
En það eru einnig önnur rök sem grípa má til.
Kröfuhafar bankanna og þeir fjárfestar sem voru að elta uppi háa vexti á Íslandi ollu þjóðarbúinu gríðarlegu tjóni, með ofurskuldsetningu bankanna og alltof mikilli áhættutöku. Það gerðu þeir í eigin gróðasókn.
Eðlilegt er að þeir hafi mikinn kostnað af þessu tjóni, til viðbótar við það sem orðið er.
Eitt mikilvægt viðmið er beint fjárhagslegt tjón íslenska ríkisins af hruninu. Það nam rúmum 700 milljörðum, eða um 44% af þjóðarframleiðslu, skv. mati AGS-manna (sjá hér).
Annað ekki síðra viðmið er að skuldir ríkisins jukust um rúma 1200 milljarða króna vegna hrunsins, eða um 72% af landsframleiðslu.
Því til viðbótar var svo gríðarleg kjaraskerðing heimilanna og rýrnun eigna þeirra.
Kanski markmið stjórnvalda ætti að vera að ná inn allt að 1200 milljörðum vegna tjónsins sem fjármálabraskið olli íslensku þjóðinni?
Það myndi fara langleiðina með að greiða niður opinberar skuldir ríkisins.
Í öllu falli eru sterk rök fyrir því að ríkið innheimti verulegar fjárhæðir af erlendu kröfuhöfunum vegna þess tjóns sem þeir ollu hér á landi með braski sínu.
Fyrri pistlar