Það hefur verið undan mörgu að kvarta á Íslandi eftir hrun. Hrunið var gríðarlegt áfall fyrir íslenska samfélagið, með mikilli kaupmáttarskerðingu, skuldaaukningu, niðurskurði opinberrar þjónustu og töpuðu trausti á stofnunum og stjórnmálunum. Allt er það skiljanlegt og að gefnu tilefni.
Þó vel hafi miðað í endurreisn samfélagsins bíða enn stór verkefni úrlausnar. Margir hafa við þessar aðstæður orðið mjög gagnrýnir og sumir gengið svo langt að segja íslenska samfélagið ónýtt.
Það er of langt gengið. Þó samanburður við Noreg sé okkur (og raunar fleiri þjóðum) um margt óhagstæðari um þessar mundir en áður var, er ástæðulaust fyrir flesta Íslendinga að örvænta.
Gagnlegt er við þessar aðstæður að spyrja hvernig Íslendingar standa þegar lífsgæði eru borin saman við önnur lönd og hverjar horfurnar eru.
Um daginn flutti ég erindi um þetta efni á ráðstefnu Félagsfræðingafélags Íslands um lífsgæði Íslendinga fyrir og eftir hrun.
Ég birti hér nokkrar myndir sem ég sýndi þar og læt smá upplýsingar úr erindinu fylgja með. Hin erindin sem öll voru athyglisverð má sjá hér.
Góð lífsgæði Íslendinga frá 1985 til 2008
Lífsgæði Íslendinga höfðu verið áþekk því sem tíðkaðist meðal frændþjóðanna á Norðurlöndum allt frá níunda áratugnum og til hruns. Staðan á árinu 1988 var staðfest í lífskjarakönnun sem Félagsvísindastofnun HÍ gerði árið 1988, að skandinavískri fyrirmynd (sjá bók mína Lífskjör og lífshættir á Norðurlöndum, er kom út árið 1990). VIð vorum í hópi 10 til 12 hagsælustu þjóða hins vestræna heims, með ágæt lífsgæði.
Megin munur á Íslandi og hinum norrænu þjóðunum þá var sá, að Íslendingar þurftu að vinna meira fyrir lífsgæðum sínum og nutu minni stuðnings frá velferðarríkinu. Við vorum og erum raunar enn meiri vinnuþjóð, byggjum lífskjör okkar í meiri mæli en frændþjóðirnar á sjálfsbjargarviðleitni og vinnusemi.
Við héldum svo að mestu leyti í við hinar norrænu þjóðirnar fram til 2008 (sjá bók okkar Guðnýjar Eydal, Þróun velferðarinnar 1988 til 2008).
Í viðamikli rannsókn sem ég gerði á lífsgæðum nútímaþjóða á tímabilinu 2005 til 2008 (og birti árið 2013) kom fram að Íslendingar voru þá með sjöttu bestu lífsgæði í hópi 29 nútímaþjóða. Rannsóknin byggði á nærri 70 mælingum á mikilvægum lífsgæðaþáttum (sjá hér). Yfirlit um niðurstöðurnar má sjá á eftirfarandi mynd.
Á næstu mynd má svo sjá sambærilega niðurstöðu lífsgæðamats OECD frá 2013 (byggt að mestu á gögnum frá 2011). Þar kemur fram að Íslendingar höfðu fallið með hruninu úr 6. sæti niður í 11. sæti af 36 þjóðum.
Það er talsvert fall, úr 6. sæti niður í 11. sæti. Hins vegar lækkaði kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila talsvert meira en þetta, í fjölþjóðlegum samanburði.
Eins og sjá má á þriðju myndinni þá urðu Íslendingar fyrir næst mestu kjaraskerðingu í Evrópu frá 2008 til 2011, á eftir Grikkjum. Miðgildi ráðstöfunartekna lækkaði um 16% en meðaltalið um nálægt 20% (minna þó hjá lágtekjufólki).
Þetta fall kaupmáttar, sem gengisfall íslensku krónunnar orsakaði á árunum 2008 og 2009, setti okkur í 21. sæti OECD-ríkjanna, í nýlegum samanburði OECD á ráðstöfunartekjum heimila (að teknu tilliti til ábata af bótum og opinberri velferðarþjónustu, en að frádregnum sköttum). Það má sjá á næstu mynd.
Það þarf ekki að koma á óvart að lífsgæði almennt skerðist minna en kaupmáttur heimilistekna í alvarlegri kreppu, eins og hér skall á með bankahruninu.
Þó kaupmáttur falli um 20% þýðir það ekki að heilsufar fólks versni um 20%, né menntastig, eða húsnæðisgæði og félagsauður, sem felst í gæðum hins mannlega samfélags sem við búum í.
Þannig getur oft orðið munur á útkomu þjóða þegar litið er á kaupmáttarþróun og önnur lífsgæði, eins og ánægju með lífið almennt og einstaka þætti samfélagsumhverfisins.
Þannig sjáum við á síðustu myndinni að þegar á árinu 2012 höfðu Íslendingar náð þeirri stöðu á ný að vera þriðja efsta þjóðin í samanburði á ánægju með lífið almennt. Ánægja með lífið hafði minnkað umtalsvert strax í kjölfar hrunsins. Það endurheimtist smám saman frá og með árinu 2011.
Ísland er á réttri leið – en mörg brýn verkefni bíða úrlausnar
Í reynd varð það þannig að margt tókst vel í viðbrögðum við kreppunni á Íslandi, í samanburði við aðrar kreppuþjóðir. Okkur hefur miðað að mörgu leyti í rétta átt, þó enn sé ekki búið að endurheimta að fullu þau lífsgæði sem við nutum almennt frá 1985 til 2008.
Íslendingar eru þó enn í hópi þeirra 10 til 12 vestrænu þjóða sem njóta hvað bestra lífsgæða.
Það sem helst brennur nú á er að bæta enn frekar kaupmátt ráðstöfunartekna heimilanna og efla grunn heilbrigðisþjónustunnar og menntakerfisins, sem veiktust verulega í kreppunni, vegna niðurskurðar.
Einnig hafa húsnæðismálin orðið að sérstaklega miklu vandamáli, einkum fyrir ungar fjölskyldur sem ekki geta keypt og þurfa að stóla á leigumarkað sem býður upp á alltof háa húsaleigu og mikið óöryggi.
Þá eru sérhópa í miklum vanda, svo sem öryrkjar, einstæðir foreldrar, atvinnulausir, eldri borgarar og ungt fjölskyldufólk sem fór illa út úr kreppunni.
Þó furðu vel hafi tekist að hífa þjóðina upp úr feni fjármálakreppunnar, sem var óvenju djúp og alvarleg, eru þannig enn mikilvæg verkefni sem bíða úrlausnar. Fjárhagsþrengingar heimila eru enn of miklar og fólk sem var í erfiðri stöðu fyrir hrun býr nú oft við afar slæm kjör.
Ísland er þrátt fyrir allt komið fyrir vind hvað hagvöxt og atvinnustig snertir, skuldabyrði heimila er að léttast og svigrúm til lífskjarasóknar eykst því á ný.
Það er því ástæða til bjartsýni, ef þjóðin heldur vöku sinni og tryggir að hagvöxturinn skili sér að fullu til almennings – en ekki bara til fámennrar yfirstéttar.
Ísland er sem sagt ekki ónýtt, eins og sumir segja.
Fyrri pistlar