Ragnheiður Elín Árnadóttir, ferðamálaráðherra, lætur ekki segjast og vill troða “náttúrupassa” sínum ofan í kok þjóðarinnar.
- Hirðir ekki um andstöðu í ferðamálageiranum.
- Hirðir ekki um aldagamla hefð fyrir frjálsu aðgengi almennings að náttúru Íslands.
- Hirðir ekki um dýran framkvæmdamáta.
- Hirðir ekki um andstöðu almennings.
En hvers vegna?
Svo virðist sem ráðherrann vilji ganga erinda hóteleigenda sem ekki vilja gistináttaskatt eða hærra þrep virðisaukaskatts á ferðaþjónustu (þó hvoru tveggja sé algengt í grannríkjunum).
Ráðherrann virðist líka ætla að leyfa landeigendum að vera sjálfir með gjaldtöku, eins og fitjað var uppá í fyrra.
Kanski er megin markmið ráðherrans með “náttúrupassanum” að lögmæta gjaldtöku landeigenda. Ríkið verði með gjaldtöku í formi náttúrupassa á sínum svæðum – og þá megi landeigendur rukka hver á sinni þúfu.
Fyrir almenning og erlenda ferðamenn verður gjaldtakan þá fljótt miklu meiri en nemur einungis gjaldi fyrir passa ráðherrans.
Náttúra Íslands gæti öll á skömmum tíma orðið einn allsherjar súpumarkaður – þar sem fjöll, lækir og berjamó verða verðlögð eins og „vara“ í hillum búðanna.
Niðurstaða ráðherrans beinist þannig í átt víðtækrar gjaldtökuvæðingar á landinu öllu. Verður það spennandi ásýnd fyrir ferðamenn – íslenska sem erlenda?
Þetta væri hins vegar mjög í anda þeirrar auðhyggju og peningagildismats sem flokksmenn ráðherrans boða með róttækri frjálshyggju sinni.
Skítt með frelsi almennings til að njóta Íslands. Frelsi landeigenda og fjármagns er miklu mikilvægara í Sjálfstæðisflokknum.
Kanski almenningur sýni ráðherranum þann passa sem hér hæfir: reisupassann – rauða spjaldið!
Fyrri pistlar