Hugmyndin um nytsemd hins frjálsa og óhefta markaðar hefur verið einn af hornsteinum hagfræðinnar um langa hríð.
Í hugmyndinni er falin sú forsenda, að því minni sem ríkisafskipti og önnur inngrip í virkni frjálsa markaðarins séu (t.d. af hálfu launþegafélaga), þeim mun meiri árangri skili markaðurinn í hagvexti og efnahagsframförum.
Þeim mun meira frelsi, þeim mun meiri hagvöxtur – segir þulan. Óheftur markaður er alltaf bestur!
Í áhrifamikilli bók, Equality and Efficiency – The Big Tradeoff, setti hagfræðingurinn Arthur Okun þetta fram árið 1975 á þann veg, að markaður skilaði hagkvæmni og hagvexti en lýðræðisleg stjórnmál skiluðu jöfnuði, t.d. með velferðaraðgerðum ríkisins, hækkun lágmarkslauna og jafnandi skattheimtu.
Kjarni boðskapar Okuns var einmitt sá, að menn gætu ekki haft fullt hús beggja gæða: hagkvæmni og jafnaðar. Aukning jafnaðar fyrir tilstilli stjórnvalda og launþegafélaga myndi koma niður á hagkvæmninni og þar með hagvextinum. Óheftur markaður yki á hinn bóginn ójöfnuð og gerði samfélagið ómannúðlegt.
Okun sjálfur var þó hlynntur því að ríkið færi meðalveg blandaða hagkerfisins og drægi úr þeim ójöfnuði sem óheftur markaður skilar að öðru jöfnu. Slíkt væri verjandi og mikilvægt í þágu lýðræðis, manngildis og réttlætis – til að efla stöðugleika og bæta samfélagið.
Flestir hagfræðingar hafa hins vegar til lengri tíma samþykkt þá (villandi) forsendu að algerlega óheftur markaður skilaði mestum hagvexti.
Frjálshyggjusinnaðir hagfræðingar og stjórnmálamenn hafa tekið þessa trú lengst allra. Í nafni hennar leggjast þeir gegn hvers konar ríkisafskiptum og krefjast síaukins markaðsfrelsis. Það er þeirra mantra sem hljómar í sífellu.
“Ríkið er vandamálið, en ekki lausnin”, sagði frjálshyggjumaðurinn Ronald Reagan, þá nýorðinn forseti Bandaríkjanna. Hjá róttækustu markaðshyggjumönnum kveður gjarnan við sú þula, að allt sem ríkið geri sé slæmt, en allt sem markaður geri sé gott!
Þó það hafi verið óheftur og agalaus fjármálamarkaður einkageirans sem gat af sér hrunið á Íslandi og alþjóðlegu fjármálakreppuna breytir það engu fyrir hina trúuðu.
Þeir hafna velferðarríkinu sem inngripum í markaðinn, einnig skattkerfinu sem fjármagnar hlutverk ríkis og sveitarfélaga. Vilja banna launþegafélög og veita fjármagninu algert frelsi. Allt skal vera í einkaeigu og engar sameignir þjóðar eða ríkis umbornar. Þetta er svo (ranglega) sagt auka hagvöxt.
Óheftur markaður eykur ójöfnuð
Óheftum markaði fylgir meiri ójöfnuður en þar sem velferðarríki og jöfnunaraðgerðir lýðkjörinna stjórnvalda vega meira. Þetta er vel þekkt staðreynd úr bæði hagfræðum og þjóðfélagsfræðum (félagsfræði og stjórnmálafræði).
Þess vegna hafa fylgjendur hins óhefta markaðar almennt ekki áhyggjur af ójöfnuði og telja að í staðinn fái samfélögin meiri hagvöxt sem allir njóta, þrátt fyrir allt.
Brauðmylsnukenningin er svo sérstakt afbrigði af pólitískri hugmyndafræði frjálshyggjunnar, sem boðar að vænsta leiðin til aukinnar hagsældar sé að stuðla að sem bestum hag þeirra allra ríkustu. Það muni svo seitla niður til almennings og færa honum einnig betri hag – á lengri tíma.
Þessi “kenning” hefur þó aldrei verið studd raunverulegum rannsóknargögnum, heldur hefur henni verið haldið á floti sem pólitískum trúarbrögðum.
Lengi vel voru helstu áhrifaöfl hagfræðinnar og hægri stjórnmála og fjölmiðla höll undir kenninguna um mikilvægi óhefta markaðarins fyrir hagvöxtinn.
OECD, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Alþjóðabankinn og margir áhrifamestu hagfræðingar heimsins skrifuðu beint og óbeint uppá þá fyrirfram gefnu forsendu, að minni afskipti af markaði skiluðu alltaf meiri hagvexti. Höfðu því ætíð horn í síðu velferðarríkisins og opinbers aðhalds hvers konar (þ.á.m. reglun fjármálamarkaða).
Það eru ekki mörg ár síðan OECD var enn að birta ályktanir um að ójöfnuður væri gagnlegur hvati fyrir hagvöxt.
Nýr tíðarandi í hagfræðum?
Nú ber svo við að helstu áhrifastofnanir alþjóðlegra hagfræða (OECD, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Alþjóðabankinn o.fl.) hafa algerlega snúið við blaðinu.
Þetta eru þó ekki trúarleg siðaskipti, heldur umskipti byggð á reynslurannsóknum. Það sem er nýtt er að upp hafa byggst sífellt meiri sönnunargögn um að óheft markaðsskipan með meiri ójöfnuði skili ekki meiri hagvexti – heldur hamli hagvexti.
Þannig segir reynslan frá um 1980 til samtímans að aukinn ójöfnuður vegna meira frelsis á mörkuðum og minni ríkisafskipta hefur dregið úr hagvexti vestrænna ríkja á þeim tíma.
Niðurstaða nýrrar rannsóknar OECD segir að aðildarríkin væru hagsælli í dag sem nemur að meðaltali um 8,5% ef ekki hefði komið til aukins ójafnaðar eftir 1980 (sjá hér og hér og hér). Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti nýlega samsvarandi niðurstöður (sjá hér). Rannsóknarmenn Alþjóðabankans sömuleiðis (sjá hér).
Tíðarandi hins óhefta markaðar í kenningum hagfræðanna þarf sem sagt að víkja fyrir nýrri þekkingu. Þetta er það sem kallað er “paradigm shift” í vísindaheimspekinni.
Ný kenning byggð á reynslurannsóknum steypir eldri ófullnægjandi kenningu af stalli!
Brauðmylsnukenning frjálshyggjustjórnmálanna fellur að sjálfsögðu samhliða þessu, með braki og brestum – og það sama gildir um vúdú-hagfræði áróðursmannsins Arthurs Laffers.
Þessar “kenningar” sýna sig að vera ekkert annað en mælskubrögð frjálshyggjuróttæklinga sem hafa haft þann tilgang helstan, að réttlæta aukinn ójöfnuð og aukin fríðindi fyrir hátekju- og stóreignafólk, á kostnað venjulegs fólks.
Frjálshyggjan er lítið annað en pólitísk trúarbrögð sem réttlæta auðræði – og vinna gegn lýðræði.
Íslenskir frjálshyggjumenn tóku öll þessi trúarbrögð um óheftan markað, brauðmylsnur og vúdú-brellur sem sjálfsögðum sannindum og fylgdu þeim fast eftir. Vilja leggja íslenska samfélagið allt undir þessar villukenningar.
Nú þegar sterkustu raddir hins alþjóðlega hagfræðisamfélags, eins og OECD o.fl., hafa komist að þeirri niðurstöðu, að óhefti markaðurinn og aukinn ójöfnuður vinni gegn sjálfum hagvextinum, verður fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum íslenskra frjálshyggjuróttæklinga og annarra stjórnmálamanna.
Samþykkja þessir aðilar vandaðar reynslurannsóknir eða halda þeir sér við trúarbrögð óhefta markaðarins?
Í ljósi þess að frjálshyggjumenn hafa einkum tekið boðskap sinn sem trúarbrögð, frekar en fræðilega trausta þekkingu, má búast við að þeir haldi áfram að hártoga, falsa og blekkja – í þágu auðræðis.
Það verður mun athyglisverðara að fylgjast með því, hvernig alvöru hagfræðingar taka þessum nýju tímamótarannsóknum virtra alþjóðlegra stofnana.
Fyrri pistlar