Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur staðið velferðarvaktina í ríkisstjórninni.
Fyrir Framsóknarflokkinn gegnir hún einu alþýðingarmesta ráðherraembættinu, því kosningaloforð Framsóknar voru einkum á sviði velferðarmála.
Eygló vill efla velferðarríkið og koma húsnæðismálunum í höfn. Lækka skuldabyrði heimilanna og laga stöðu leigjenda. Bæta hag lífeyrisþega.
Þegar hafa náðst mikilvægir áfangar á þeirri braut.
Fleira er þó á döfinni.
Til dæmis er von á nýjum lagafrumvörpum um grundvallarbreytingar á skipan húsnæðismála og eflingu húsnæðis- og leigubóta.
En Eygló lætur ekki duga að þrýsta á um framfarir í velferðarmálum, þó það sé ærið verkefni og oft þungsótt í hirslur Sjálfstæðisflokksins (fjármálaráðuneytið), þegar fjármagna þarf umbætur á þeim sviðum.
Eygló lýsti því um daginn að hún vill einnig sjá alvöru launahækkanir fyrir almenning í næstu kjarasamningum. Hún sér svigrúm til þess, eftir að ríkisstjórnin hefur létt álögum af fyrirtækjum og eflt vaxtarskilyrði atvinnulífsins.
Það er alveg rétt.
Auðvitað vill enginn að verðbólgunni sé sleppt alveg lausri. Þess er heldur ekki að vænta að læknasamningarnir gangi yfir línuna.
Læknar voru í sérstöðu, eins og forsætisráðherra sagði, því bjarga þurfti heilbrigðiskerfinu frá bráðu hruni. Það skilja allir og samþykkja.
En það er svigrúm fyrir meira en 3% launahækkun til almennings við núverandi aðstæður, eins og Eygló Harðardóttir segir.
Við búum um þessar mundir við verðhjöðnunaraðstæður og því er lítil hætta á verðbólgusprengju, þó kaupmáttur almennings batni eftir þrautagöngu kreppunnar.
Kaupmáttaraukning eflir þrótt atvinnulífsins enn frekar við þessi skilyrði.
Ráðherrar eiga að hugsa fyrst og fremst um hag almennings og segja hlutina eins og þeir eru. Slíkt er til eftirbreytni.
Vonandi vinna aðilar vinnumarkaðarins úr stöðunni með hagsmuni almennings að leiðarljósi.
Fyrri pistlar