Síðustu daga hefur verið mikil umfjöllun um aukinn ójöfnuð í skiptingu eigna í heiminum, í framhaldi af nýrri skýrslu Oxfam um efnið.
Nú virðist stutt í að ríkasta eina prósentið í heiminum eigi meira en helming allra eigna á jörðinni.
Það eru tíðindi.
Í byrjun október síðastliðinn skrifaði ég þrjár greinar á Eyjuna um eignaskiptinguna á Íslandi og þróun hennar yfir tíma, þ.m.t. í gegnum kreppuna. Greinarnar eru hér og hér og hér.
Stærsta niðurstaðan var sú, að ójöfnuður í eignaskiptingunni á Íslandi hefur aukist mikið frá 1997 til 2013.
Ójöfnuður eigna jókst líka eftir hrun, ólíkt ójöfnuði í tekjuskiptingunni. Hér eru tvær myndir af nokkrum sem ég birti í október.
Mynd 1: Hlutur fólks í ólíkum eignahópum af heildareignum á Íslandi, 1997 og 2013, raðað í tíu jafn stóra hópa (tíundir), frá þeim sem eiga minnst (vinstra megin) til hinna sem eiga mest (hægra megin). (Heimild: Hagstofa Íslands)
Hér má sjá að ríkustu tíu prósent heimila á Íslandi (stóreignahópurinn) áttu um 56% heildareigna í landinu árið 1997 en voru komin upp í um 71% árið 2013.
Ef við tökum ríkustu 30 prósentin þá voru eignir þeirra orðnar um 94% allra eigna á Íslandi árið 2013. Eignir hinna 70 prósentanna voru litlar sem engar. Ríkasta eina prósentið á um 23% heildareigna.
Í næst efsta tíundarhópnum jókst eignarhluturinn líka, úr 23,7% í 25,1%.
En í öllum öðrum eignahópum minnkaði hlutdeild heildareigna, mest hjá allra lægsta hópnum. Þar var neikvæð eiginfjárstaða (þau skulduðu meira en þau áttu) uppá -7,5% árið 1997 en var komin niður í -12,7% ári 2013.
Á seinni myndinni má betur sjá þróun eigna fólks í ólíkum hópum frá ári til árs.
Þar kemur fram að eignir efnafólks voru að aukast miklu örar en eignir milli og lægri hópa fram að hruni. Eftir hrun drógust eignir efsta hópsins minna saman en eignir lægri hópanna.
Þeir sem áttu minnstar eignir fyrir, fór verst út úr hruninu hvað þróun eigna snertir (skuldir þeirra jukust), bæði hlutfallslega og í nafnvirði eigna.
Ójöfnuður í skiptingu eigna jókst þannig bæði fyrir hrun og eftir hrun. Spurningin er hvernig þróunin verður í framhaldinu.
Mynd 2: Þróun eigna í ólíkum eignahópum, frá ári til árs. (Hagstofa Íslands)
Rétt er að ítreka að inn í þessar tölur vantar eignir Íslendinga erlendis, þar með talið eignir í erlendum skattaskjólum.
Það er fyrst og fremst allra ríkasta fólkið sem á umtalsverðar eignir erlendis. Ójöfnuðurinn í eignaskiptingunni meðal Íslendinga væri þannig mun meiri en ofangreindar tölur benda til, ef erlendar eignir væru að fullu meðtaldar. Einnig ef hlutabréf og verðbréf væru talin á markaðsvirði en ekki á nafnvirði eins og skatturinn gerir. Tölurnar vanmeta því ójöfnuðinn í eignaskiptingunni umtalstalsvert.
Fyrri pistlar