Sunnudagur 08.02.2015 - 10:46 - FB ummæli ()

Hrunið og árangur endurreisnarinnar

Ég skrifaði fræðilega grein í Íslenska þjóðfélagið, tímarit Félagsfræðingafélagsins, í desember sl. Þar fjalla ég ítarlega um áhrif hrunsins á lífskjör þjóðarinnar og árangurinn við endurreisn samfélagsins (greinina í heild má sjá hér).

Í útdrætti er efni og niðurstöðum úttektarinnar lýst svona:

“Hér er fjallað um einkenni íslensku fjármálakreppunnar og spurt hvernig hún hafði áhrif á lífskjör almennings. Sjónum er sérstaklega beint að aðgerðum við endurreisn samfélagsins eftir hrunið. Umfjöllunin er sett í samhengi við helstu kenningar um kreppuviðbrögð í anda keynesískrar hagstjórnar og afskiptaleysisstefnu austurríska skólans. Niðurstaðan er sú, að endurreisn íslenska þjóðarbúsins hafi tekist nokkuð vel í samanburði við aðrar þjóðir sem urðu fyrir stóru áfalli eins og Ísland. Sérstaða íslensku leiðarinnar fólst einkum í blandaðri aðferð niðurskurðar og skattahækkana, með útfærslum í anda endurdreifingarstefnu.

Velferðarútgjöldum var beint meira til lægri og millitekjuhópa um leið og skert var hjá hærri tekjuhópum; tekjutilfærslur til heimila voru auknar en skert í þjónustu. Bætur og greiðslur sem fóru sérstaklega til lægri tekjuhópa voru auknar, til að vinna gegn aukningu fátæktar. Hið sama var gert við skattbyrði heimila, þ.e. byrðin var færð frá tekjulægri heimilum til þeirra tekjuhærri og til fyrirtækja. Í kjarasamningum voru lágmarkslaun hækkuð sérstaklega. Þá var sérstakur auðlegðarskattur lagður á fólk með miklar hreinar eignir. Loks var beitt úrræðum til að létta skuldabyrði heimila og beindust þær aðgerðir einnig meira að milli- og lægri tekjuhópum.

Lífskjörin jöfnuðust mikið í kjölfar hrunsins, meðal annars vegna áhrifa af þessari endurdreifingarstefnu.”

Ljóst er af staðreyndagögnum að stjórnvöld (í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélög og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn) unnu mikið starf við einstaklega erfiðar aðstæður, sem skilaði miklum árangri.

Þó gera megi ágreining um sumt í framkvæmd kreppuúrræðanna er ekki hægt að gera ágreining um að umtalsverður árangur hafi náðst. Margir vildu þó að stjórnvöld hefðu gert meira, til dæmis í skuldamálum.

Hugsanlega hefði mátt ná enn betri árangri með öðrum áherslum og í einhverjum tilvikum með öðrum leiðum. Það er þó auðveldara að segja eftirá en í að komast í hita leiksins.

Þetta hefði líka getað farið miklu verr. Hrunið var fordæmalaust og geigvænlegt áfall – og fjárhagur ríkisins í rúst.

Menn eiga því að vera sanngjarnir og varast gífuryrði og grófar og illa ígrundaðar ásakanir, eins og enn heyrast. Full ástæða er til að hæla þeim og þakka sem stóðu vaktina í rústum hrunsins, ekki síst Jóhönnu og Steingrími og liði þeirra.

Menn mættu líka hafa í huga, að fjölmargir erlendir fagmenn á þessu sviði hafa lokið upp einum munni um ágæti þeirrar leiðar sem farin var á Íslandi – og þann árangur sem hún skilaði.

 

Síðasti pistill:  Skipting eigna – hvar er Ísland í röðinni?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar