Föstudagur 13.02.2015 - 11:16 - FB ummæli ()

Vitfirring Viðskiptaráðs

Viðskiptaráð Íslands var með árlega revíu sína í gær.

Þetta eru skrautlegar samkomur þar sem forystumenn Viðskiptaráðs koma fram í röndóttum jakkafötum og segja þjóðinni og stjórnmálamönnum hvernig stjórna eigi landinu.

Fyrir hrun voru þessar samkomur vinsælar. Menn töldu að spekingar Viðskiptaráðs hefðu höndlað sannleikann og mændu upp í nasir þeirra.

Sannleikur þeirra reyndist vera einföld útgáfa af bandarískri nýfrjálshyggju og ræningjakapítalisma.

Lykilstefið var: allt sem ríkið gerir er slæmt – allt sem einkageirinn gerir er frábært! Ég á’etta – ég má’etta.  Amen…

Stjórnvöld gleyptu við þessu, eins og margir aðrir.

Viðskiptaráð hældi sér af því að á árunum fram að hruni hefði ráðið fengið um 95% af stefnumálum sínum framkvæmd af ríkisstjórnum Íslands.

Árangurinn lét ekki á sér standa!

Eftir trylltan dans í kringum gullkálfinn hrundi fjármálakerfið og efnahagslífið til grunna. Atvinnulífið drukknaði í skuldum vegna brasks. Þar á meðal steypustöðin B.M. Vallá.

Ég sé að Viðskiptaráð er enn við sama heygarðshornið – með sömu messuna og fyrir hrun.

 

Eigum við að gefa frá okkur orkuauðlindirnar?

Nú heimta Viðskiptaráðsmenn á ný að Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur verði seld ódýrt til braskara í einkageiranum. Þeir eru meira að segja búnir að verðleggja góssið sjálfir!

Orkuveitan er einokunarfyrirtæki í almannaþjónustu. Einkavæðing þess myndi gefa gróðapungum opið veiðileyfi á neytendur vatns og rafmagns (án samkeppni) og reikningar heimilanna myndu hækka.

Við erum nú með einhvern lægsta húshitunar- og rafmagnskostnað sem þekkist í Evrópu – í þessu kalda og dimma landi. Það er mikilvægt fyrir heimilin.

Það væri vitfirring að láta einkavæðingu Orkuveitunnar yfir okkur ganga og tapa þessari góðu stöðu.

Og ættum við líka að afhenda einkaaðilum í Viðskiptaráði orkuauðlindir fallvatnanna til eigin fénýtingar, með einkavæðingu Landsvirkjunar?

Forstjóri Landsvirkjunar hefur nýlega upplýst að fyrirtækið verði á næstunni í stakk búið að greiða almenningi í arð tugi milljarða á ári til sameiginlegra þarfa þjóðarinnar – eigenda auðlindanna.

Væru þeir peningar betur geymdir í vösum meðlima Viðskiptaráðs eða á reikningum braskara í erlendum skattaskjólum? Svari hver fyrir sig.

Viðskiptaráð vill einnig að ríkið selji alla aðra fýsilega starfsemi sem það hefur á sinni könnu og leggur meðal annars til að heilbrigðisþjónustu, menntun og störfum sýslumanna verði úthýst til braskara í Viðskiptaráði. Næsti bær við er úthýsing löggæslunnar og ríkisstjórnarinnar.

 

Er búið að útvista ríkisstjórninni til Viðskiptaráðs?

Maður hlustar á þessa speki í forundran.

Eftir þá reynslu sem þjóðin fékk af hrunadansinum þá væri það vitfirring að fylgja ráðum Viðskiptaráðs nú. Hrein og klár vitfirring.

Hvernig væri nú að Viðskiptaráðsmenn færu í meðferð og lærðu að viðurkenna að það var einkageirinn sem steypti Íslandi fyrir björg.

Ný-einkavæddir bankar fóru þar fremstir, með taumlausri græðgisvæðingu, skuldasöfnun og lögbrotum í bland.

Það tók braskarana einungis fimm ár að reka bankana alla í þrot, í eitt stærsta gjaldþrot heimssögunnar! Þjóðin axlar nú byrðar vegna þess.

Ef Viðskiptaráð einbeitti sér að því að bæta rekstur, stjórnun og siðferði í einkageiranum þá gæti það átt rétt á sér. En ekki sem sjálfskipuð ríkisstjórn þjóðarinnar.

Íslenskir kjósendur hafa ekki kosið Viðskiptaráð til að stjórna landinu.

Viðskiptaráðsmenn ættu að hafa hægt um sig eftir reynsluna af stefnu þeirra sem færði okkur hrunið.

Þeir hafa ekkert lært af reynslunni.

 

Síðasti pistill:  Hrunið og árangur endurreisnarinnar

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar