Brynjar Níelsson, lögfræðingur og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur skilað skýrslu til Alþingis um trúverðugleika ásakana Víglundar Þorsteinssonar í garð fyrri stjórnvalda, opinberu stjórnsýslunnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Víglundur fullyrti að leiðtogar fyrri ríkisstjórnar, Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir, hefðu ásamt öðrum framið það sem er ígildi landráðs – hvorki meira né minna (þó hann hafi ekki notað það orð).
Þau hefðu gert samsæri gegn hagsmunum almennings, í þágu erlendra kröfuhafa, við endurreisn bankanna eftir hrun.
Niðurstaða Brynjars er sú, að engin haldbær gögn leynist í skjölum Víglunar sem sýni að íslenskur almenningur hafi verið hlunnfarinn eða að brögð hafi verið í tafli við endurreisn íslensku bankanna (sjá hér).
Gríðarlega alvarlegar og meiðandi ásakanir Víglundar Þorsteinssonar eru sem sagt haldlausar – eins og raunar ýmsir fagmenn höfðu þegar sýnt og ítarlega hefur verið greint frá, t.d. í Kjarnanum.
Kjarni málsins: Steypustöð drukknar í skuldum
Allur þessi málatilbúnaður Víglundar byrjaði með því, að hann sakaði Arion banka um að hafa sett fyrirtæki sitt, steypustöðina B.M. Vallá, í gjaldþrot að ástæðulausu.
Hann sagði bankann hafa verið með “dauðalista” yfir fyrirtæki sem setja ætti í gjaldþrot, sem skilja mátti á Víglundi að settur hefði verið saman m.a. af ráðherrum fyrrverandi ríkisstjórnar. Þetta er eins og í mögnuðum reyfara.
Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins voru skuldir B.M. Vallár um 10 milljarðar fyrir gjaldþrot og eiginfjárstaðan neiðkvæð um 2,5 milljarða, eða um 35%. Eigendur vildu fá helming skulda afskrifaðan – þar á meðal 2 milljarða frá lífeyrissjóðum – og halda fyrirtækinu áfram. Bankinn hafnaði þessu og héraðsdómur úrskurðaði það gjaldþrota.
Það ætti raunar að kanna sérstaklega hvernig B.M. Vallá gat safnað svo gríðarlegum skuldum í einstöku góðæri fyrir steyðustöðvar, því áratuginn fram að hruni var óvenju mikið steypt á Íslandi og aðstæður því einstaklega gróðavænlegar fyrir fyrirtæki Víglundar.
Svo virðist sem eigendur og stjórnendur B.M. Vallár hafi einfaldlega drekkt fyrirtækinu í skuldum, vegna viðamikils brasks með lánsfé (eins og henti marga þá er fóru offari í græðgisvæðingu bóluáranna).
Það var í öllu falli niðurstaða Arion banka og lífeyrissjóða að ekki væri verjandi að afskrifa svona mikið af fyrirtækinu og skilja það eftir áfram í höndum sömu eigenda.
Fjármálaeftirlitið gerði sérstaka úttekt á vinnubrögðum bankans við skuldaskil fyrirtækisins, að beiðni Víglundar sjálfs. Niðurstaða þess var sú, að ekkert óeðlilegt væri að finna í vinnubrögðum bankans gagnvart B.M. Vallá.
Þetta sætti Víglundur sig ekki við og hóf nýja leit að sökudólgum eigin ófara. Það nýjasta í því máli voru svo þessar hrikalegu ásakanir um landráð og svik gagnvart ráðherrum fyrri ríkisstjórnarinnar – og gegn allri opinberu stjórnsýslunni og AGS sem saman komu að endurreisn bankanna.
Söfnuður Davíðs studdi Víglund í einu og öllu
Þó fáir fagmenn hafi tekið undir með Víglundi, þá átti hann sér harða stuðningsmenn. Félagar hans úr forystu Sjálfstæðisflokksins frá tímabilinu fyrir hrun voru þar fremstir í flokki: Davíð Oddsson og lið hans.
Morgunblaðið og Evrópuvakt Björns Bjarnasonar og Styrmis Gunnarssonar (sem rekin er af Hannesi Hólmsteini og félögum), tóku kröftuglega undir ásakanir Víglundar og kröfðust rannsóknar á meintum svikum ríkisstjórnarinnar. Óvarkár kona í Framsóknarflokknum bergmálaði raddir þessara manna, eins og stundum áður.
Nú hefur þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lögfræðingurinn Brynjar Níelsson, sem sagt skilað niðurstöðu sinni. Sá ágæti maður hefði án efa haft ánægju af því að hlaða sökum á stjórn Jóhönnu og Steingríms ef tilefni hefði gefist – en það gerir hann ekki.
Málefnaleg niðurstaða Brynjars er sú, að ekkert sé hæft í alvarlegum ásökunum Víglundar.
Hvað gera vinir Víglundar þá?
Krefjast þeir frekari rannsókna eða biðjast afsökunar?
Ætti að rannsaka rekstur B.M. Vallár?
Vissulega má rannsaka endurreisn bankanna frekar og helst alveg ofan í kjölinn. En ekki sýnist manni þó að ásakanir Víglundar og frumleg leit hans að sökudólgum vegna gjaldþrots B.M. Vallár eigi að vera sérstök ástæða til þess. Annað þyrfti til.
Alvöru rök og ábyggileg gögn þurfa að liggja til grundvallar ef fara á fram með þeim hætti að saka þjóðarleiðtoga og opinberu stjórnsýsluna um svo alvarleg svik.
Ekki síst í ljósi þess að viðkomandi leiðtogar glímdu við fordæmalausan vanda og náðu góðum árangri við endurreisn fjármálakerfisins, eins og AGS hefur staðfest. Brynjar Níelsson bendir einnig sjálfur á þann góða árangur fyrri stjórnar í úttekt sinni.
Eftir stendur það, að nærtækt kann að vera að rannsaka hvernig hægt var að drekkja steypustöðinni B.M. Vallá í skuldum, í einstöku góðæri í byggingariðnaði.
Í því gæti leynst lærdómur um það, sem ber að varast í framtíðinni, svo ekki skelli annað hrun á þjóðinni.
Fyrri pistlar