Sunnudagur 01.03.2015 - 16:44 - FB ummæli ()

Staðan í stjórnmálunum

Styrmir Gunnarsson skrifar að mörgu leyti athyglisvera grein um tilvistarkreppu hefðbundnu stjórnmálaflokkanna í Morgunblaðið í dag.

Meginboðskapur Styrmis er sá, að hefðbundnu flokkarnir séu allir í sömu tilvistarkreppunni og hafi misst tengslin við grasrótina. Það er rétt að hluta, eins og ég benti einnig á í viðtali við Egil Helgason á RÁS 1 um daginn.

En það er meira í þróuninni en Styrmir ætlar og tilvistarvandinn er ólíkur milli flokka. Stærsta breytingin er raunar hjá Sjálfstæðisflokknum, sem hefur farið frá því að vera allsráðandi 40% flokkur niður í 25-27% flokk.

Það tengist því að stefna flokksins hefur færst talsvert til hægri, í átt að nýfrjálshyggju sem þjónar fyrst og fremst hagsmunum þeirra ríku. Sú stefna tengdist hrunadansinum og hruninu og margir vilja eðlilega refsa flokknum fyrir það.

Samhliða þessari breytingu hefur Sjálfstæðisflokkurinn minna að bjóða millistéttinni og fólki úr lægri stéttum. Eitt það mikilvægasta fyrir þessar stéttir var séreignastefnan í húsnæðismálum, sem átti stóran þátt í miklu fylgi “Gamla Sjálfstæðisflokksins”. Þeirri stefnu hefur flokkurinn fórnað á altari óheftrar markaðshyggju.

Nú hefur stórlega fækkað þeim sem búa í eigin húsnæði og nær ómögulegt er fyrir venjulegt ungt fólk að eignast íbúð (raunar er líka ómögulegt að leigja vegna okurs).

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert fram að færa til að laga þessa stöðu og styður varla að séð verður viðleitni Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra Framsóknarflokksins, til að bæta ástandið á þessu sviði.

Á vinstri væng og miðjunni er hins vegar minna nýtt. Þar er fylgi flokkanna að skiptast milli of margra flokka, eins og lengst af á lýðveldistímanum. Það sem varð nýtt í kosningunum 2013 var að klofningur á miðju og vinstri væng varð óvenju mikill, sögulega séð.

 

Meginlínur fylgisins 2013 og nú

Lítum á hvernig fylgi flokkanna hefur þróast frá kosningunum 2013 til janúar á þessu ári, á fyrri myndinni.

Fylgi flokka 2015

Sjálfstæðisflokkur stendur í stað frá kosningum (27% fylgi). Framsókn hefur misst tæpan helming og stjórnarmeirihlutinn því farið úr um 51% niður í um 40% fylgi. Stjórnarandstaðan í heild fór úr um 49% í um 60%.

Samfylkingin hefur bætt við sig eftir gríðarlegt tap 2013, en er samt enn með lítið fylgi miðað við glæstari tíð frá 2003 til 2009. Björt framtíð og VG standa nokkurn veginn í stað en Píratar hafa bætt um þriðjungi við sig.

Það er rétt hjá Styrmi að Samfylkingin er um of tengd stétt menntamanna og með veikar rætur í hefðbundnum stéttum jafnaðarmannaflokka. Sú staðreynd hefur gert Samfylkinguna að jafn miklum ESB-aðildarflokki og raun ber vitni, sem takmarkar fylgismöguleika flokksins í milli og lægri stéttum, hefðbundnum stéttum jafnaðarmannaflokka.

Björt framtíð er raunar klofningur frá Samfylkingunni, enda með sömu pólitísku áherslunar á nær öllum sviðum. Saman eru þeir flokkar með yfir 30% fylgi, eða álíka mikið og Samfylkingin náði mestu á betri dögum sínum. Saman eru þessir flokkar með mun meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn – sem er athyglisvert.

Það sem var nýtt með tilkomu Samfylkingarinnar 1999 var að þá varð til nýr flokkur á vinstri-miðjunni (þar sem flestir kjósendur eru), sem gat tekið við hlutverki Framsóknarflokksins, sem leiðandi flokkur er gat starfað bæði til hægri og vinstri.

Velgengni Samfylkingar takmarkaði velgengni Framsóknar – og í kosningunum 2013 snérist það aftur við. Framsókn er nú leiðandi velferðarflokkur í landsmálunum, en Samfylkingin virðist nú fyrst og fremst vera ESB-aðildarflokkur.

Þannig að sagan endalausa um mikinn klofning og tilheyrandi áhrifaleysi vinstri og miðju flokkanna náði nýjum hæðum 2013, eftir mikla vinstri sveiflu í kjölfar hrunsins og í kosningunum 2009.

Það athyglisverðasta við kosningarnar 2013 var þó það, að þá varð ekki hægri sveifla, þó Sf og VG töpuðu miklu – heldur miðjusveifla. Fylgið færðist frá þeim og yfir á Framsókn og Pírata. Píratar eru eins konar biðstöð ungs fólks sem sér ekki til lands í pólitíkinni – finnur fátt til að trúa á.

Fylgi flokka 2015 2

Seinni myndin sýnir að heildarfylgi miðju og vinstri flokka samanlagt hefur haldist svipað frá 2013 til janúar á þessu ári (67-68%). Sjálfstæðisflokkurinn hefur sömuleiðis staðið í stað með sitt hægra fylgi, um 27%.

 

Það sem klýfur miðjuna og vinstrið

Um 55-60% kjósenda kusu oft flokka til vinstri eða á miðjunni hér áður fyrr, en nær 65-68% eftir að Sjálfstæðisflokkurinn færðist til hægri. Eins og myndin sýnir hélst það þannig í könnunum frá kosningum 2013 til þessa árs.

Á áratugunum meðan bandaríski herinn var hér var afstaðan til hans og vestrænnar samvinnu sá fleygur sem risti dýpst í klofningi vinstri og miðju manna. Alþýðuflokkur og Framsókn voru með vestrænni samvinnu en Alþýðubandalag vildi hlutleysi og sósíalistar áður fyrr hölluðust meira að Sovétríkjunum.

Eftir að herinn fór tók afstaðan til ESB-aðildar við þessu stóra klofningshlutverki hersins. Vinstrið og miðjan eru nú klofin til helminga um þetta mál (Sf og BF með en Framsókn og VG á móti). Sá klofningur virðist rista mjög djúpt og eyðileggja mikilvæga samstarfsmöguleika á miðjunni.

ESB er ekki gallalaust og óheft flæði fjármagns og fólks milli aðildarríkja skapar ný alvarleg vandamál (fjármálavæðingu, aukinn ójöfnuð og innflytjendavandamál). Þessi nýi veruleiki skilur eftir sig þá tilfinningu hjá venjulegum kjósendum að þeir séu afskiptir, hjá þeim flokkum sem fylgja algerri opnun samfélagsins með ESB-aðild og öðru alþjóðasamstarfi um óhefta markaðshætti.

Við erum að sjá þetta leiða til grundvallarbreytinga á flokkaskipan á öllum hinum Norðurlöndunum, í Bretlandi og víðar. Hjá þeim þjóðum sem fara verst út úr kreppunni (t.d. Grikkland og Spánn) er róttæk vinstri sveifla í gangi.

Flokkar sem kallaðir er “hægri popúlistaflokkar” (sem í raun eru þó meira “þjóðlegir velferðarflokkar”) gera sig gildandi svo um munar. Taka mikið fylgi úr lægri og milli stéttum, frá bæði vinstri og hægri flokkum, þar á meðal klassískt fylgi jafnaðarmannaflokka á Norðurlöndum. Þetta virðist ætla að verða mikil breyting á landslagi stjórnmálanna víða.

Stuðningsmenn nýju flokkanna eru þó ekki sérstakir kynþáttahatarar, heldur er það flest venjulegt fólk sem óttast samkeppni um störf sín frá innflytjendum og lækkun launa sinna, ásamt rýrnun velferðarkerfisins. Það er raunsær ótti.

Að sama skapi sér þetta fólk lítinn stuðning við velferð sína frá hefðbundnum jafnaðarmannaflokkum, sem eru nú meira alþjóðasinnar og talsmenn óhefts markaðar og frelsis til fjármagnsflutninga, frekar en sem talsmenn velferðarríkisins og þjóðlegrar menningar.

Þannig breytist grundvöllur stjórnmálaflokka, vegna þjóðfélagsbreytinga og hugmyndafræða. Hnattvæðingin og aukinn ójöfnuður eru víða í Evrópu að hafa slík áhrif á stjórnmálin – sem ekki sér fyrir endann á.

 

Er ESB-aðild þess virði?

Hér á landi er sérstaklega brýn sú spurning, fyrir þá sem eru á miðjunni og vinstri vængnum, hvort ESB-aðild sé þess virði að kljúfa miðjuna og vinstrið í herðar niður og gera hvern og einn flokkanna sem þar eru nær áhrifalausa?

Við Íslendingar erum nú þegar um 70% meðlimir í Evrópusambandinu, með EES samningnum. Kanski það dugi bara?

Ef við viljum endilega njóta til viðbótar þeirra hagstjórnaráhrifa sem fylgja Evrunni þá getum við einfaldlega fasttengt krónuna við hana, eins og Danir gera. Látið reyna á þetta. Það mun að vísu ekki lækna öll mein sem hér er að finna, frekar en full aðild. Gæti þó aukið stöðugleika eitthvað. Ef þetta færi illa væri enn sá sveigjanleiki fyrir hendi að rjúfa tengslin aftur.

Er það sem útaf stendur virkilega þess virði að kljúfa miðjuna og vinstrið eins og raun ber vitni og dæma jafnvel fulltrúa tveggja af hverjum þremur kjósendum þar með til almenns áhrifaleysis, sem hækjur nýfrjálshyggjunnar í Sjálfstæðisflokknum?

Samfylking og Björt framtíð eiga mest sameiginlegt með Framsókn, að ESB-aðild frátaldri. VG er að mestu leyti þjóðlegur velferðarflokkur í anda gömlu jafnaðarmannaflokkanna í Skandinavíu. Samvinna þessara aðila eða hluta þeirra í þágu meirihluta kjósenda ætti að vera mikilvægt markmið.

Hin leiðin er áframhaldandi sundrung og innbyrðis samkeppni, samhliða ofurvaldi Sjálfstæðisflokksins, sem einungis er fulltrúi innan við þriðjungs kjósenda, en öðru fremur er hann þó fulltrúi atvinnurekenda og fjármálaaflanna.

Þau öfl ráða alveg nógu miklu þó þeim sé ekki að auki gert kleift að stjórna eða dempa áhrif launþegahreyfingar, vinstri og miðjuflokkanna.

Kanski flokkarnir á miðjunni og í vinstrinu ættu að endurskilgreina sig og tengja betur við launþegahreyfinguna?

 

Síðasti pistill:  Stjórn fjármála – Ísland verst í heimi?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar