InDefence hópurinn er kominn á vaktina á ný. Þessi hópur gegndi mikilvægu hlutverki í baráttunni gegn Icesave, sem eigendur Landsbankans stofnuðu til, eftir að bankinn stefndi í þrot á árunum 2006 og 2007. Það tiltæki Landsbankamanna lagði mikla áhættu á þjóðarbúið íslenska, eins og allir vita.
Það fór þó á endanum betur en á horfðist.
Nú eru aðilar úr þessum vaska hópi komnir á kreik á ný með athyglisverðan málflutning (sjá hér).
Þeir vekja athygli á þeirri staðreynd að bankarnir ollu þjóðinni gríðarlegu tjóni með óábyrgri starfsemi sinni fram að hruni.
Ég vakti athygli á mati AGS á kostnaði við bankahrunið í pistli á Eyjunni í október á síðasta ári. Beinn fjárhagslegur kostnaður var um 750 milljarðar en raunsærra mat er að skuldir hins opinbera jukust um rúmlega 1200 milljarða vegna hrunsins, skv. sama mati AGS.
Og þá er ekki allt talið, eins og kaupmáttarrýrnun heimila, aukning skulda þeirra, tap lífeyrissparnaðar, aukinn vaxtakostnaður á næstu árum og fleira.
Þó að stjórnvöld, Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hafi illa brugðist þeirri skyldu sinni að verja þjóðina gegn þeirri áhættu sem lögð var á þjóðarbúið á bóluárunum, þá voru bankamennirnir og braskaraherinn sem þeir gerðu út frum orsakavaldar hrunsins. Þeir ollu þessu gríðarlega tjóni.
Því má segja að Ísland eigi réttmæta kröfu á þær eignir sem enn eru í þrotabúunum. Hve mikið er álitamál, en traust mat óháðs alþjóðlegs aðila (AGS) hlýtur að koma til greina sem viðmið eða útgangspunktur.
Ef erlent olíuskip hefði valdið gríðarlegu umhverfistjóni við Íslandsstrendur þá teldum við eigendur þess að sjálfsögðu bótaskylda (eins og Shell var vegna mengunarslyssins í Mexíkóflóa). Þó félagið færi á hausinn í kjölfarið breytti það engu um réttmæti slíkrar skaðabótarkröfu á félagið eða þrotabú þess.
Ljóst er að InDefence menn eru að hvetja stjórnvöld til að halda fast á þessu máli við losun gjaldeyrishaftanna, í þágu almannahagsmuna.
Undir það má taka.
Er stjórnarandstaðan ekki með á nótunum?
Fara má ólíkar leiðir að þessu markmiði, allt frá beinni skattheimtu á fjármagnsflutninga eða þrotabúin sjálf til samninga við kröfuhafa um afskriftir krónueigna sem hér eru fastar, gegn losun erlendra eigna þrotabúanna.
Bæði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafa áður talað með ákveðni í þessa átt. Því má þess vænta að hraustlega verði sótt í málinu.
Stjórnarandstaðan ætti að styðja slíkan sóknarbolta af miklum krafti, jafnvel ætti hún að vera í fararbroddi – með InDefence mönnum.
Varla á stjórnarandstaðan meiri samleið með erlendum fjármagnseigendum en íslenskum alþýðuheimilum?
Síðasti pistill: Krossinn í Colosseum
Fyrri pistlar