Í fyrradag var frétt í Viðskiptablaðinu um könnun á afstöðu almennings til einkavæðingar RÚV og fleiri opinberra stofnana (sjá hér).
Megin niðurstaða könnunarinnar var sú, að meirihluti kjósenda er andvígur einkavæðingu Landsbankans, Landsvirkjunar og RÚV.
Í tilviki Landsvirkjunar voru einungis um 13% hlynnt því að ríkið selji eignarhlut sinn og um 29% voru fylgjandi því að selja hlut ríkisins í RÚV.
Um 71% svarenda voru þá ekki fylgjandi því að einkavæða RÚV og um 87% voru ekki fylgjandi einkavæðingu Landsvirkjunar!
Þetta er sem sagt afar mikil andstaða við einkavæðingu Landsvirkjunar og RÚV, en meirihlutinn var minni hvað Landsbankann snerti.
Hver er þá eðlilegur fréttauppsláttur að mati Viðskiptablaðsins?
Jú, hann var þessi: “Fleiri vilja einkavæða Ríkisútvarpið”!
Þeir sem ekki lesa fréttina til fulls fá þau skilaboð af fyrirsögninni að meirihluti kjósenda vilji selja RÚV!
Þarna var Viðskiptablaðið augljóslega að hagræða áhrifum í þá átt að blekkja, þ.e. að gefa í skyn að meiri stuðningur sé við einkavæðingu RÚV en í raun er.
Þetta er í takti við þá hugmyndafræðilegu afstöðu sem iðulega einkennir fréttaskrif Viðskiptablaðsins.
Þar ganga menn alla jafna erinda atvinnurekenda og fjárfesta í einkageiranum.
Fyrri pistlar