Laugardagur 25.04.2015 - 12:37 - FB ummæli ()

Allir greiða skatta – líka lágtekjufólkið

Í stórri fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins í dag segir að þau 18% sem lægstar tekjur hafa greiði ekki skatta. Viðskiptablaðið bergmálar uppsláttinn. Í báðum tilvikum er vísað til úttektar í Tíund, fréttablaði Ríkisskattstjóra.

Þetta er hins vegar kolrangt.

Það rétta er að nær allir greiða einhverja skatta. Líka þau 18% sem hafa lægstu tekjurnar.

Lágtekjufólk greiðir til dæmis háan virðisaukaskatt og önnur neyslugjöld af því sem þau kaupa daglega. Einnig fasteignagjöld og útsvar til sveitarfélaga.

Virðisaukaskattur á Íslandi er einn sá hæsti í heimi. Allir sem versla í búðum greiða hann, líka lágtekjufólk.

Það sem er rétt í uppslættinum er að þessi 18% tekjulægstu einstaklinga greiða ekki tekjuskatt (beinan skatt). Þegar greinargerð Ríkisskattstjóra í Tíund er skoðuð kemur berlega í ljós hvað átt er við.

Með því er þó minna en hálf sagan sögð.

Það er nefnilega svo að virðisaukaskattar vega meira í tekjuöflun ríkisins en tekjuskattar einstaklinga, eða um 29% heildartekna á móti um 25% sem koma af tekjuskatti einstaklinga.

Óbeinir skattar, eins og virðisaukaskattur, tollar og vörugjöld, eru alla jafna stærra hlutfall af tekjum lágtekjufólks en af hærri tekjum, því lágtekjufólk eyðir nær öllum sínum tekjum í vsk-skylda vöru og þjónustu, en ekki hátekjufólk (það á frekar afgang til að spara eða fjárfesta).

Þetta er yfirleitt alls staðar þannig, að beinir skattar leggjast með meiri þunga á hærri tekjur og jafna tekjuskiptinguna, en óbeinir skattar leggjast yfirleitt með meiri þunga á lágar tekjur – með öndverðum áhrifum á tekjuskiptinguna.

Það er því vægast sagt villandi að fullyrða að lágtekjufólk greiði enga skatta.

Slíkt er oft sett fram til að grafa undan jöfnunaráhrifum tekjuskatta og jafnvel til að létta byrðum af hærri tekjuhópum og stóreignafólki, sem hefur meiri greiðslugetu.

Adam Smith boðaði þó að þeir sem meiri greiðslugetu hafa ættu að bera meiri skattbyrðar. Þannig er það líka víðast hvar, þó mismikið sé.

Þannig er það líka hér á landi, á heildina litið. Hátekjufólk á Íslandi er þó með heldur minni skattbyrði en samsvarandi hópar í grannríkjunum. Fyrir hrun var skattbyrði hátekjufólks á Íslandi hins vegar orðin minni en skattbyrði hjá lægra meðaltekjufólki (sjá hér, bls. 40).

Samt vilja sumir á hægri væng stjórnmálanna og þeir sem eru ofar í tekjustiganum gjarnan létta skattbyrði af hærri tekjuhópum og auka hana hjá lágtekjuhópum. Morgunblaðið og Viðskiptablaðið hafa lengi verið höll undir þau sjónarmið.

Þannig var einmitt skattastefnan sem rekin var frá um 1995 til hruns á Íslandi. Núverandi ritstjóri Morgunblaðsins var helsti boðberi og framkvæmdaraðili þeirrar stefnu.

Í þessu samhengi er það hættulega röng fullyrðing þegar sagt er að lágtekjufólk greiði enga skatta.

Hafa skal það sem sannara reynist – í þessu sem öðru.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar