Fimmtudagur 18.06.2015 - 12:06 - FB ummæli ()

Ánægja og óánægja Íslendinga

Mönnum er tíðrætt um óánægjuna meðal Íslendinga þessi misserin.

Sú umræða er að mestu leyti mörkuð af biturri reynslu þjóðarinnar af hruninu og efasemdum um hvernig við hefur verið brugðist á sumum sviðum.

Lífskjör almennings versnuðu auðvitað verulega við hrunið og fólki finnst enn nokkuð vanta upp á endurheimt fyrri kjara.

Í þessu sambandi er fróðlegt að skoða niðurstöður könnunar um ánægju og óánægju með hina ýmsu þætti lífskjaranna, sem gerð var meðal allra Evrópuþjóða árið 2013 (gögnin koma frá Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins og Hagstofu Íslands).

Á myndinni er útkoma Íslendinga borin saman við meðaltal hinna norrænu þjóðanna og meðaltal ESB-þjóðanna allra.

Ánægja Íslendinga 2013

Íslendingar ánægðir með lífið almennt – en óánægðir með fjárhagsafkomu sína

Íslendingar eru almennt mjög ánægðir með flesta þætti lífskjara sinna sem þarna var spurt um – nema fjárhagsafkomuna.

Við þekkjum það úr fjölmörgum alþjóðlegum könnunum til lengri tíma að Íslendingar segjast flestir vera mjög ánægðir með lífið almennt og jafnvel einna hamingjusamastir þjóða.

Þessi mikla ánægja með lífið minnkaði strax í kjölfar hrunsins, en hefur aukist á ný frá og með árinu 2011, eftir að þjóðarbúið reis við á ný.

En óánægja með fjárhagsafkomuna er enn áberandi meðal þjóðarinnar, þó ánægja með aðra þætti lífskjaranna sé almennt mikil orðin á ný.

Það er raunar vel þekkt í þessum könnunum á ánægju með lífið og hamingju þjóða, að saman getur farið mikil ánægja með lífið almennt og óánægja með fjárhagsafkomu.

 

Hamingjusamastir í heimi!

Þannig var það í fyrstu og frægustu hamingjukönnun Gallup sem gerð var hér á landi árið 1984. Það var í kjölfar kreppu í efnahagslífi og mikillar kjaraskerðingar og aukinna skuldabyrði vegna húsnæðislána (“Misgengið”, sem kallað var).

Það var fyrsta kreppan þar sem gallar verðtryggingarinnar lögðust með fullum þunga á heimilin í landinu: kaupmáttur rýrnaði mikið um leið og skuldir hækkuðu með verðbólguskoti.

Þá kemur þessi könnun árið eftir kjaraskerðinguna miklu og niðursstöður hennar voru að Íslendingar væru hamingjusamasta þjóð í heimi! Sem sagt, “bestir í heimi…”

Mörgum brá og sýndist þetta með miklum ólíkindum, enda fjárhagur heimilanna enn slæmur.

Sú könnun sýndi þó reyndar líka að Íslendingar voru þá mjög óánægðir með fjárhagsafkomu sína, á pari við fátækari þjóðir í Suður Evrópu. Menn tóku minna eftir því í fjölmiðlunum.

Þegar Íslendingar eru spurðir um hamingju sína þá hugsa þeir ekki fyrst og fremst um fjárhagsafkomu, heldur aðra og væntanlega mikilvægari þætti lífsins.

Svo er enn, eins og myndin hér að ofan sýnir.

 

Mun meiri ánægja er með fjárhagsafkomuna í Skandinavíu

Eins og sjá má á fyrstu dálkunum á myndinni eru hinar norrænu þjóðirnar (Danir, Finnar, Norðmenn og Svíar) talsvert ánægðari með fjárhagsafkomu sína en Íslendingar.

Þetta var árið 2013. Á árinu 2014 jókst kaupmáttur á Íslandi líklega meira en á hinum Norðurlöndum og í ár hefur skuldalækkun skilað sér til margra heimila, auk þess sem nýir kjarasamningar eiga að bæta stöðu lægri tekjuhópa nokkuð.

Staðan með fjárhagsafkomuna ætti því að hafa batnað nokkuð á Íslandi frá því könnunin var gerð. Þó hefur varla náðst jöfnuður við skandinavísku þjóðirnar í þessum efnum.

Hin hliðin er svo sú, að ánægja með fjárhagsafkomuna er að meðaltali minni í ESB-ríkjunum en á Íslandi, þrátt fyrir allt, enda eru þar á meðal margar mun fátækari þjóðir í Suður og Austur Evrópu meðtaldar.

Flestar þróuðu þjóðirnar innan ESB koma þó betur út en Ísland hvað ánægju með fjárhagsafkomu snertir (t.d. Þjóðverjar, Svisslendingar, Hollendingar, Austurríkismenn, Belgar og Lúxemborgarar – auk norrænu þjóðanna allra).

Ef við lítum svo á aðra þætti lífskjara, þá voru Skandínavar ögn ánægðari með lífið almennt á þessu herrans ári, þeir voru einnig nokkuð ánægðari með húsnæði sitt, útivistaraðstöðu, hvernig tíma þeirra er varið, gæði umhverfisins sem þeir lifa í og persónuleg tengsl sín.

Íslendingar voru hins vegar ánægðari eða áþekkir Skandinövum hvað snertir ánægju með starfið sem þeir gegna, tíma sem varið er til samgangna og Íslendingar virðast almennt sáttastir þjóða við meiningu lífsins – næstir á eftir Dönum frændum okkar.

 

Lærdómur

Lexían af þessu er sú, að þjóðir gera mikinn greinarmun á ánægju með fjárhagsafkomu sína og ánægju með aðra þætti lífskjara sinna.

Mikil óánægja með fjárhagsafkomu getur farið saman við mikla ánægju með lífið almennt, ekki síst félagslega og umhverfislega þætti lífskjaranna.

Fjárhagsafkoma skiptir þó auðvitað miklu máli og samanburður við hinar skandinavísku þjóðirnar er okkur Íslendingum enn nokkuð erfiður.

Við erum þó á réttri leið á því sviði og höfum verið svo allt frá árinu 2011, þegar endurreisnin tók að skila árangri eftir hið gríðarlega hrun. Sá árangur hefur komið stig af stigi allt til dagsins í dag. Horfurnar framundan um enn betri árangur eru líka ágætar.

Við munum þó varla ná því að verða samkeppnishæf við skandinavísku þjóðirnar hvað fjárhagsafkomu heimila almennt snertir fyrr en grunnkaup hefur hækkað hér umtalsvert um leið og vinnutími hefur styst. Þar ber enn mikið á milli fyrir flestar starfsstéttir.

En slíkar framfarir eru mögulegar, því framleiðsla og auðlegð þjóðarinnar er slík.

Það er einungis spurning um fyrirkomulag lífskjaranna og skiptingu auðlegðarinnar og ávaxta hennar meðal þjóðarinnar.

Bæta má hlut almennings og skerða lítillega hlut yfirstéttarinnar, ekki síst hvað snertir rentu af auðlindum þjóðarinnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar