Það er auðvitað ekki ný frétt að frjálshyggjuhjörðin í Sjálfstæðisflokknum vilji rústa opinbera heilbrigðiskerfinu.
Þetta hefur þó lengi verið ákveðið feimnismál í flokknum, enda vill allur þorri almennings hafa öflugt opinbert heilbrigðiskerfi sem byggir á samtryggingu og veitir hágæða þjónustu, óháð greiðslugetu þeirra sem hana þurfa.
Samt hafa Sjálfstæðismenn verið að róa í átt til þess að veikja opinbera kerfið, bæði Landsspítalann og heilsugæsluna.
Þeir líta svo á að lélegra opinbert heilbrigðiskerfi opni fleiri tækifæri fyrir einkarekstur.
Þetta gera Sjálfstæðismenn annars vegar í nafni villutrúar um meinta yfirburði einkarekstrar á þessu sviði (sem þó gæti átt við á öðrum sviðum) og hins vegar vegna þess að sumir þeirra vilja græða sjálfir á slíkri starfsemi.
Í Bandaríkjunum er hlutur einkarekinnar heilbrigðisþjónustu mun stærri en hér. Reynslan er sú, að kostnaður við slíkt kerfi er um 50% dýrari en við opinberu kerfin á Norðurlöndum og sums staðar á meginlandi Evrópu.
Einnig gætir mun meiri áhrifa stéttaskiptingar í einkareknum kerfum, eins og í Bandaríkjunum. Þeir efnaminni njóta lakari þjónustu og lifa verr og skemur en þeir efnameiri.
Tækifæri til að öðlast farsæla heilsu sem lengst verða ójafnari í einkareknu kerfi.
Einmitt þess vegna er heilsufar Bandaríkjamanna að jafnaði verra en meðal íbúa Norðurlandanna og margra annarra Evrópulanda, sem búa við öflug opinber samtryggingarkerfi.
Þeir sem ætla sjálfir að græða á einkarekstri í heilbrigðisþjónustu hirða lítt um það þó samfélaginu sé breytt á verri veg fyrir allan þorra almennings. Þeir hugsa bara um eigin gróðavon.
Er nýi Sjálfstæðisflokkurinn kominn til að vera – með minna fylgi?
Hér áður fyrr var Sjálfstæðisflokkurinn meira fyrir opinbera heilbrigðisþjónustu en nú er.
Minna fylgi meðal almennings við Sjálfstæðisflokkinn nú á dögum skýrist meðal annars af því, að Sjálfstæðisflokkurinn er nú orðið fyrst og fremst flokkur hinna efnameiri.
Þess sér augljós merki í heilbrigðismálunum.
Séreignastefnan í húsnæðismálum, sem miðaði að því að gera sem flestum kleift að eignast þokkalegt húsnæði, er meira að segja líka fyrir bí.
Þar vilja Sjálfstæðismenn bara styrkja fyrirtæki sem byggja húsnæði en ekki almenning sem þarf að kaupa eða leigja húsnæði, sem einungis býðs á óviðráðanlegu verði.
Styrkir til fyrirtækja eru sem sagt OK í Sjálfstæðisflokknum (jafnvel þó þeir auki einungis gróða eigenda þeirra, en hafi lítil áhrif á verð húsnæðis).
En niðurgreiðsla húsnæðiskostnaðar fyrir almenning er talin af hinu illa, þó hún hafi reynst vel á árum áður, til dæmis í félagslega húsnæðiskerfinu.
Þegar fólk sér og heyrir raddir nýfrjálshyggjufólksins í Sjálfstæðisflokknum (sjá t.d. nýleg dæmi hér og hér), þá áttar fólk sig á því að þar er talað fyrir hagsmunum eignafólks, en ekki almennings.
Gamli Sjálfstæðisflokkurinn sem hugsaði um millistéttina er sem sagt dauður og Sjálfstæðisflokkur nýfrjálshyggjunnar og auðmannadekurs er sá sem í boði er.
Þeir sem trúa því að nýji Sjálfstæðisflokkurinn bæti samfélagið fyrir almenning eru sennilega fáfróðir eða auðtrúa kjánar.
Gróðapungum sérhagsmunanna er hins vegar alveg sama þó gott samfélag sé skemmt – ef þeir geta sjálfir grætt á því.
Fyrri pistlar