Þriðjudagur 28.07.2015 - 09:30 - FB ummæli ()

Magnað bull Guðlaugs Þórs

Í nýlegri grein á Eyjunni vísaði ég til tveggja talsmanna nýfrjálshyggju í Sjálfstæðisflokknum sem sjá nú mikil tækifæri til að veikja opinbera heilbrigðiskerfið og auka stórlega einkavæðingu á því sviði (sjá hér).

Ég varaði við veikingu opinbera kerfisins og benti á slæma reynslu af bandaríska kerfinu, sem er að stórum hluta einkarekið, en jafnframt lang dýrasta heilbrigðiskerfi Vesturlanda. Samt nær það kerfi ekki sérstaklega góðum árangri fyrir almenning, einkum þá efnaminni.

Ég hef greinilega komið við kaunin á Sjálfstæðismönnum með þeim skrifum. Samt var ég bara að vísa til þeirra eigin talsmanna og vel þekktra staðreynda á sviði heilbrigðismála.

Í Fréttablaðinu í dag skrifar Guðlaugur Þór Þórðarson Alþingismaður svo makalausa grein um málið þar sem hann afflytur gróflega málflutning minn og segir að ég vilji leggja niður allan einkarekinn þátt íslenska heilbrigðiskerfisins.

Það er víðáttufjarri og hvergi getur hann fundið þessum orðum sínum stað í skrifum mínum.

Ég hef lengi verið talsmaður blandaða hagkerfisins og þar með blandaðra leiða í veitingu opinberrar þjónustu, einnig í heilbrigðisþjónustu. Ég er heldur ekki neinn sérstakur hugmyndafræðingur vinstri manna – tek engan þátt í flokkastjórnmálum, en veiti öllum ráðgjöf ef óskað er.

Ég er miðjumaður í þjóðmálaumræðunni, eins og ég hef margítrekað. Styð sumt af því sem núverandi stjórnvöld eru að gera, en annað ekki.

Ég hef raunar verið sérstakur stuðningsmaður þriðja geirans í opinberri velferðarþjónustu. Það hefur margoft komið fram á liðnum árum.

Þegar Guðlaugur Þór telur upp fjölda stofnana í þriðja geiranum (SÁÁ og Hjartavernd o.fl.) og einkarekna þætti heilbrigðiskerfisins og segir að ég vilji loka því öllu þá er hann að afbaka umræðuna úr hófi – og það veit hann vel.

Heldur er það ódýr málflutningur hjá þingmanninum. Hann á að vera heiðarlegri og hafa betri rök fyrir máli sínu.

Ég var hins vegar að vara við veikingu opinbera samtryggingarkerfisins, með tilvísun til slæmrar reynslu af bandarísku leiðinni.

Guðlaugur þór hefur oft vísað með velþóknun til þess að Svíar hafi í tíð hægri stjórna þar í landi aukið hlut einkarekinna verktaka í sínu heilbrigðiskerfi á síðustu árum. Hann telur að við ættum að fylgja fordæmi þeirra í mun meiri mæli.

 

Umdeild þróun einkavæðingar í Svíþjóð

Þessi þróun í Svíþjóð hefur þó verið mjög umdeild og var meðal annars mikið gagnrýnt í nýlegri kosningabaráttu að einkarekin fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu tæku sér óhóflegan hagnað, oft með lakari þjónustu en áður var veitt. Til dæmis við umönnun aldraðra.

Ekki bætir úr skák að sum þessara fyrirtækja hafa verið staðinn að því að flytja hagnað sinn í erlend skattaskjól. Hagnaður slíkra fyrirtækja kemur af opinberum útgjöldum (ríkið greiðir fyrir þjónustu þeirra). Með því að veita þjónustu sína með færra og ódýrara starfsfólki auka þau hagnað sinn.

Þegar slíkur hagnaður rennur í erlend skattaskjól er blóði tappað af sænska þjóðarbúinu, því það fé nýtist ekki lengur til uppbyggingar í landinu.

Það er auðvitað magnað á sinn hátt að opinber útgjöld til einkarekins atvinnurekstrar renni í erlend skattaskjól.

Þau greiða þá ekki sinn hluta af kostnaði við rekstur samfélagsins, sem þó skapaði þessum einkafyrirtækjum gróðann.

Sænska Ríkisendurskoðunin gerði nýlega úttekt á hvernig til hefur tekist með þessa auknu einkavæðingu sumra þátta í sænska heilbrigðiskerfinu.

Dómur Ríkisendurskoðunarinnar er falleinkunn.

Breytingarnar í Svíþjóð hafa gert heilbrigðiskerfinu erfiðara fyrir við að veita öllum jafnt þjónustuaðgengi og að setja þá veikustu og með mestu þarfirnar í forgang, sem á að vera markmið kerfisins samkvæmt lögum.

Það er fyrst og fremst minna veikt fólk og fólk sem er í hærri stéttum samfélagsins sem notið hefur þessara breytinga með bættu aðgengi að þjónustu, segir sænska Ríkisendurskoðunin í skýrslu sinni (sjá hér).

Þetta eru þær “framfarir” sem Guðlaugur Þór og aðrir nýfrjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum vilja innleiða í ríkari mæli hér á landi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar