Biskup nýfrjálshyggjunnar á Íslandi, heilagur Hannes frá Hólmsteini, hefur kveðið upp úr um það, að vændi skuli ekki lengur teljast ámælisvert, ólíkt því sem kristin kirkja hefur boðað í rúm 2000 ár.
Vændi er einungis eitt af þeim “atvinnutækifærum” sem konur geta nýtt sér til lífsviðurværis, segir hann.
Ekki sé sanngjarnt af kvenréttindakonum af hafa slík tækifæri af öðrum konum.
Hmmmm….
Þetta er að vísu rökrétt út frá lífsskoðun nýfrjálshyggjunnar. Þar er í forgangi frelsi til hvers konar viðskipta og réttur til að safna eignum. Annað er víkjandi.
Fyrirbæri eins og manngildi og mannréttindi skipta minna máli. Mannleg virðing og réttlæti sömuleiðis.
Réttur allra til lágmarkslífsgæða og velferðar leiðir bara til skattheimtu sem hamlar viðskiptafrelsinu, segir í helgiritum nýfrjálshyggjunnar.
Fólk er sumsé bara markaðsvarningur í heimi Hólmsteins. Hvorki meira né minna. Það má meðhöndla eins og hverja aðra söluvöru.
Atvinnutækifæri hjá mafíunni
Það sama gildir auðvitað á öðrum sviðum.
Eða hvers vegna skyldi fólk amast við því að ungir menn fari til starfa fyrir mafíuna í Rússlandi eða Mexíkó?
Þar er hægt að hafa góðar tekjur – að minnsta kosti til skemmri tíma.
Gildir einu þó starfsemin felist í því að greiða ungu fólki leið til glötunar og að mafíósar myrði stundum keppinauta sína og aðra sem kunna að standa þeim í vegi.
Já, hvers vegna skyldu menn láta siðferði, mannréttindi og manngildi flækast fyrir góðum markaðsviðskiptum?
Slíkt eru bara viðskiptahindranir í heimi nýfrjálshyggjunnar!
Fyrri pistlar