Stuðmenn toppuðu glæsilegan dag menningarnætur á Arnarhóli í gær.
Það fór vel á því, enda gullaldarbandið enn í fínum gír. Þeir mættu meira að segja fara að koma með ný lög – gætu hæglega slegið í gegn á ný.
Tónleikarnir á hólnum byrjuðu með hinni kraftmiklu Dimmu og svo tók við hin stórskemmtilega Amaba Dama. Loks Stuðmenn.
Þar sem ég stóð í hópi innlendra sem erlendra og fylgdist með Stuðmönnum skauta í gegnum vel valin lög, frá ýmsum skeiðum ferilsins, rifjaðist upp fyrir mér hversu mikið Stuðmenn og þeirra líkir eiga í mér og minni tíð.
Stuðmenn eru ekki bara frábærir tónlistarmenn. Þeir eru líka konseptlistamenn sem lögðu mikið til tíðarandans.
Plötur þeirra, frá brautryðjendaverkinu Sumar á Sýrlandi til Tívolí og Með allt á hreinu, voru að miklu leyti konseptverk. Þarna mátti finna snjöll þemu, þar sem saman fór húmor og pólitík, þeirra eigin sýn á lífið. En umfram allt var þetta góð skemmtun.
Það var því gaman að sjá Stuðmenn í svona fínu formi á Arnarhólnum í gærkvöld. Þeir eru einn stærsti gullmolinn í okkar alþýðumenningu, popp kúltinu.
Poppið og nýsköpunin – og það sem minnið geymir
Þegar maður hugsar til þess hvað það er sem stendur uppúr í samfélaginu og menningunni á hverjum tíma þá leitar maður að stóru stjörnunum, í listum jafnt sem þjóðmálum. Maður spyr um nýsköpunina.
Saga mannkyns var lengi skrifuð sem eins konar ferðalag um kirkjugarða þjóðarleiðtoga, herforingja og biskupa. Hún var sögð sem saga yfirstéttarinnar – freku karlanna sem höfðu völdin og auðinn.
Á okkar tíð á seinni hluta 20. aldar og inn á núverandi öld opnaðist æ meira svigrúm fyrir nýja strauma til áhrifa, ekki síst í menningu, vísindum, þjóðmálum og viðskiptum.
Popp menningin var stór hluti nýsköpunarinnar á okkar tíð, frá sjöunda áratug síðustu aldar. Þar var mikil gerjun og mikill sköpunarmáttur sem slapp laus á þeim tíma og fjörgaði umhverfi sitt. Jók við lífið.
Maður spyr sig stundum að því hvort úr nýsköpunarmættinum hafi dregið á síðustu áratugum?
Klassískir snillingar á þessu sviði hafa í auknum mæli stigið á stokk á síðustu árum og endurflutt verk sín, oft við góðan hljómgrunn. Um daginn hlustaði ég á Patty Smith gera sínu framlagi skil á frábærum tónleikum í Hörpu. Það fjörgaði söguminni mitt.
Kanski einmitt þess vegna var ég með hugann við söguna og víða samhengið er ég hlustaði á Stuðmenn í gær.
Það er ómetanlegt fyrir þjóð að eiga góða listamenn sem geta hreift við hverri taug í líkama manns og túlkað og auðgað tíðarandann.
Hver kynslóð á sín leiðarljós í menningunni, en mér sýnist að Stuðmenn höfði enn til ansi breiðs hóps þó 40 ár séu liðin frá því að sumarið kom á „Sýrlandinu“ kalda.
“Mannst’ekk’eftir mér” hljómaði textinn í einu laginu, reyndar um stjórnmálamann. Það minnir á að stjórnmálamenn eru oft ekki nógu stórir í sniðum né nógu farsælir, svona almennt séð.
Æskilegt væri að fleiri stjórnmálamenn skili þjóðinni jafn miklum tilefnum til gleði og uppörvunar og listamenn eins og Stuðmenn hafa gert.
Ég man Stuðmenn og geri áfram, meðan enn fer straumur um víraverk sálarinnar. Það gildir um flesta Íslendinga. En ég vildi gjarnan muna fleiri stjórnmálamenn betur, fyrir góð og farsæl verk í almannaþágu.
Þeir sem einkum þjóna sérhagsmunum og forréttindaaðli mega gjarnan hverfa í gleymskunnar dá. Þeir eru því miður of margir.
Þeir sem færa fjöldanum mest skína skærast – og geymast best.
Fyrri pistlar