Mánudagur 07.09.2015 - 09:23 - FB ummæli ()

Fjöldi öryrkja á Norðurlöndum árið 2013

Í nýlegri umfjöllun um fjölda örorkulífeyrisþega á Íslandi og hinum Norðurlöndunum vísaði ég til talna frá OECD fyrir árið 2009 og talna frá NOSOSKO (Norræn nefnd um tölfræði félagsmála) fyrir árið 2011.

Megin niðurstaðan var sú, að Ísland væri í neðri kantinum hvað hlutfall örorkulífeyrisþega af fólki á vinnualdri snerti, samanborið við hin Norðurlöndin.

Hér eru nýrri tölur og í skýrari framsetningu (Heimild NOSOSKO 2015).

Hlutfall öryrkja 2013

Ísland er árið 2013 með lægst hlutfall fólks á vinnualdri sem er á einhverjum lífeyri, eða um 10%, á meðan hinar norrænu þjóðirnar eru með 11% til 14%.

Langflestir þessara lífeyrisþega á vinnualdri eru með örorkulífeyri, en aðrir eru á endurhæfingarlífeyri, örorkustyrk eða hafa farið snemma á ellilífeyri (förtidspension/early retirement).

Á Íslandi tilheyra síðari hópnum t.d. sjómenn sem geta farið á lífeyri eftir 60 ára aldur eða opinberir starfsmenn sem njóta 95 ára reglunnar og geta stundum farið á ellilífeyri áður en 67 ára aldri er náð. Hér er þó mun fátíðara að fara snemma á ellilífeyri en í nær öllum öðrum vestrænum samfélögum.

Ísland er sem sagt með hlutfallslega færri örorkulífeyrisþega en hin Norðurlöndin, á heildina litið.

Það er því mjög fjarri lagi að hér sé fjórfalt til fimmfalt fleiri íbúar á vinnualdri á örorkulífeyri en á hinum Norðurlöndunum, eins og fullyrt hefur verið.

Á næstu mynd er sýnt hlutfall örkulífeyrisþega af stærð einstakra aldurshópa. Það segir mikið um einkenni örorkulífeyrisþega á Íslandi.

Öryrkjar eftir aldurshópum 2013

Hér má sjá að Ísland er með hærra hlutfall örorkulífeyrisþega í lægri aldurshópum en mun lægra hlutfall í efri aldurshópum, einkum yfir 60 ára aldursmörkunum, þar sem flestir örorkulífeyrisþegar eru.

Okkur hefur sem sagt tekist verr en frændþjóðunum að koma ungu fólki sem býr við skerta heilsu til vinnu og samfélagsþátttöku. Það ætti að vera sérstakt markmið hér á landi að bæta úr þessu, til dæmis í samstarfi TR , VIRK endurhæfingarsjóðsins, heilbrigðisþjónustunnar og atvinnulífsins.

Hér hefur einnig gætt vaxandi vanda við að koma ungu fólki úr skóla og út á vinnumarkað, sem æskilegt væri að taka betur á, einkum þar eð ótímabært brottfall úr framhaldsskólum er allt of mikið á Íslandi.

Á móti tekst mun betur hér á landi að halda aftur af fjölgun örorkulífeyrisþega í efri aldurshópum. Það skiptir mestu fyrir heildarniðurstöðuna.

Sú útkoma byggir á því, að Íslendingar vinna lengur fram eftir ævinni en nær allar aðrar þjóðir innan OECD samtakanna, jafnvel þó erfitt og versnandi heilsufar hamli vinnugetu margra þegar árin færast yfir.

Það er aðdáunarverður árangur. Hann kemur meðal annars fram í því, að mun fleira fólk með margvísleg heilsuvandamál stundar hér fulla launaða vinnu sér til framfærslu en algengast er í grannríkjunum.

 

Mikið hefur dregið úr fjölgun örorkulífeyrisþega

Menn hafa einnig rætt nokkuð um fjölgun örorkulífeyrisþega á síðustu árum. Það hefur að sumu leyti verið villandi umræða.

Örorkulífeyrisþegum tók að fjölga mikið í kringum 1990 en eftir 2005 hafa hins vegar orðið mikil umskipti hvað það varðar. Síðan þá hefur mikið dregið úr fjölguninni, eins og eftirfarandi mynd með gögnum frá TR sýnir.

Fjölgun öryrkja til 2014

Árleg fjölgun örorkulífeyrisþega á Íslandi frá 2005 til 2014 var á bilinu 1-4% en fyrir þann tíma var fjölgunin oftast á bilinu 5-11%.

Tvö ár á fyrra tímabilinu eru þó fráviksár með um 3% fjölgun (1997 og 1998), en fyrir 2005 fylgdi fjölgun örorkulífeyrisþega atvinnuleysi að umtalsverðu leyti (ég hef rannsakað það samband talsvert ítarlega ásamt Sigurði Thorlacius lækni, sem er sérfræðingur í örorkumálum).

Eftir því sem meðalaldur þjóða hækkar (sem er að gerast á Íslandi og víðar á Vesturlöndum) þá má búast við að örorkulífeyrisþegum fjölgi meira en íbúafjölgunin almennt er, að öðru óbreyttu.

Það er einfaldlega vegna þess að tíðni örorku vex með aldri.

Árið 2014 var þó fjölgun örorkulífeyrisþega hins vegar lítið frábrugðin almennri fólksfjölgun hér á landi (um 1%). Oftar er fjölgun örorkulífeyrisþega þó meiri en íbúafjölgunin, eins og í mörgum vestrænum löndum.

 

Atvinnuþátttaka fólks með örorku

Almennt er æskilegt að greiða fyrir aukinni atvinnuþátttöku fólks með hvers konar örorku, eins og kostur er. Það er bæði gott fyrir fólkið sjálft og samfélagið. Raunar hefur ágætur árangur náðst á því sviði á Íslandi.

Hér er samkvæmt lífskjarakönnunum Hagstofunnar um 11-12% fólks á vinnualdri með líkamlega eða andlegar heilsufarshömlur af einhverjum toga, sem draga úr vinnugetu. Örorkulífeyrisþegar eru hins vegar rúmlega 8% af fólki á vinnualdri, skv. tölum TR.

Það þýðir að hátt í þriðjungur fólks með einhverja örorku bjargi sér sjálft með fullri atvinnuþátttöku, þrátt fyrir skerta heilsu. Um 30% hinna sem eru á örorkulífeyri stunda einhverja launaða vinnu að auki, oftast í hlutastörfum. Raunar benda tölur OECD til þess að atvinnuþátttaka fólks með örorku sé með allra hæsta móti á Íslandi af OECD-ríkjunum.

Megin leiðirnar til að ná betri árangri í að auka atvinnuþátttöku öryrkja eru:

  • Að auka sveigjanleika á vinnustöðum fyrir fólk með skerta vinnugetu
  • Auka fjárhagslegan ávinning öryrkja af atvinnuþátttöku (t.d. með því að hætta að fullu skerðingu örorkulífeyris vegna eigin atvinnutekna)
  • Aukinn almennur stuðningur við atvinnuþátttöku
  • Jákvæðara viðhorf atvinnulífsins og stjórnvalda til málsins

Sumir virðast telja að upptaka starfsgetumats í stað núverandi örorkumats muni sjálfkrafa fækka örorkulífeyrisþegum. Þó sú breyting sé um margt jákvæð þá leiðir hún ekki sjálfkrafa til fækkunar örorkulífeyrisþega, nema það sé um leið gert mun erfiðara en nú er fyrir langveikt fólk að fá örorkulífeyri.

Starfgetumat er einfaldlega hin hliðin á örorkumati. Maður sem fær þá niðurstöðu að hann sé með 75% örorku (skerta vinnugetu) hann telst að öðru jöfnu vera með 25% starfsgetu.

Það er vissulega jákvætt að horfa á starfsgetuna, en í grunninn er hún einungis önnur leið til að tala um skerta starfsgetu og örorku.

Það eru stuðningsaðgerðirnar og hvataumhverfið sem mestu ráða um raunverulega atvinnuþátttöku fólks með skerta vinnugetu af heilsufarsástæðum.

Til að ná betri árangri á þessu sviði þarf einkum meiri stuðning og jákvæðari viðhorf til úrræða, bæði hjá atvinnulífi og stjórnvöldum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar