Miðvikudagur 16.09.2015 - 12:57 - FB ummæli ()

Er mikil byrði af lífeyrisþegum á Íslandi?

Menn hafa rætt svolítið um byrði af örorkulífeyrisþegum undanfarið.

Í síðasta pistli sýndi ég nýjustu tölur um stærð þessa hóps í norrænu samfélögunum.

Niðurstaðan er sú, að hlutfall örorkulífeyrisþega af fólki á vinnualdri er svipað eða minna hér en á hinum Norðurlöndunum.

En ef við lítum á alla lífeyrisþega (öryrkja og ellilífeyrisþega samanlagða)? Hvernig kemur Ísland þá út úr samanburðinum?

Það má sjá á myndinni hér að neðan.

Fjöldi lífeyrisþega 2013

Hér má sjá að Ísland er með hlutfallslega minnsta byrði vegna fjölda lífeyrisþega af Norðurlöndunum öllum.

Hér voru allir lífeyrisþega um 22% af íbúum 16 ára og eldri, en í hinum löndunum var hlutfallið frá 28% og upp í 32%.

Hér munar mest um það að ellilífeyrisþegar eru mun færri á Íslandi. Það helgast einkum af því að Íslendingar fara mun síðar á ellilífeyri en íbúar grannríkjanna.

Íslendingar vinna lengur fram eftir aldri og einnig er algengara að fólk vinni hér eitthvað áfram eftir að það hefur töku ellilífeyris (sem sparar ríkinu útgjöld í almannatryggingakerfinu).

 

Íslenskir ellilífeyrisþegar borga sjálfir meirihluta eigin lífeyris

Íslendingar hafa ekki einungis litla byrði af lífeyrisþegum vegna minni fjölda þeirra almennt. Annað léttir skattborgurum byrðina að auki.

Það er sú staðreynd að um 60% af ellilífeyri eldri borgara kemur nú þegar úr lífeyrissjóðunum. Það er uppsafnaður ævisparnaður fólks. Skattborgarar sleppa við að greiða þetta, ólíkt því sem er í flestum landanna á meginlandi Evrópu.

Eftir því sem tíminn líður kemur enn stærri hluti ellilífeyris úr lífeyrissjóðunum og framlag almannatrygginga til eldri borgara minnkar að sama skapi, vegna tekjutenginga í almannatryggingakerfinu.

Byrði samfélagsins vegna ellilífeyrisgreiðslna mun þannig minnka á næstu áratugum, að öðru óbreyttu. Eftir því sem tekjur eldri borgara munu aukast, munu þeir einnig greiða meira í skatta.

Þegar lífeyrisréttindi verða orðin fullþroskuð (upp úr ca. 2030) mun staðan hafa batnað hvað þetta varðar og framlag almannatrygginga verður að stærstum hluta greiðsla örorkulífeyris og uppbóta á ellilífeyri fyrir þá sem hafa lítið úr lífeyrissjóðum, af einhverjum ástæðum.

Það er því óhætt að segja, að heildarbyrði Íslendinga vegna fjölda lífeyrisþega er umtalsvert minni en á hinum Norðurlöndunum.

Lífeyrisþegar greiða sjálfir stærri hluta lífeyris síns hér en í flestum vestrænum löndum, með sparnaði sínum í lífeyrissjóðunum.

Raunar erum við með einna minnsta byrði vegna lífeyrisþega á Vesturlöndum öllum – á heildina litið.

Við höfum því betri stöðu en flestar þjóðir til að gera vel við þenna þjóðfélagshóp sem lífeyrisþegar eru.

 

Síðasti pistill:  Fjöldi öryrkja á Norðurlöndum árið 2013

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar