Miðvikudagur 07.10.2015 - 11:35 - FB ummæli ()

Valdabrölt Jóns Steinars

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, heldur áfram að ráðast á Hæstarétt. Segist vilja koma réttinum “í lag”.

Hann segir sitjandi dómara vera í valdabrölti og telur það miður.

En fáir hafa verið jafn mikið í valdabrölti og Jón Steinar sjálfur.

Þegar Davíð Oddsson og Björn Bjarnason hófu að skipa pólitíska samherja á dómarabekkinn í Hæstarétti hafði Jón Steinar ekkert við það að athuga.

Ónei! Hann sjálfur, stórpólitískur eins og hann hefur lengi verið, þáði meira að segja dómarasæti þar í valdatíð Björns Bjarnasonar.

Mörgum í samfélaginu fannst að Jón Steinar ætti ekkert sérstakt erindi á dómarabekk í æðsta dómstóli landsins, vegna óvenju mikilla pólitískra afskipta sinna. Hlutleysi gagnvart viðfangsefninu er mikilvægur eiginleiki sem dómarar þurfa að hafa.

Pólitískur einstrengingur og harðdrægni í hagsmunabaráttu eru hins vegar hættulegir eiginleikar dómara, sem öðru fremur þurfa að hefja sig upp yfir baráttu dægurmála og hagsmuna.

En Jón Steinar fór í Hæstarétt. Síðar kom í ljós að hann hafði haldið áfram pólitískri starfsemi sinni þar, meðal annars með útsendingu nafnlausa bréfsins sem frægt varð.

Það sem Jóni Steinari gramdist sérstaklega á hinum nýja starfsvettvangi sínum var að hann gat ekki tekið yfir réttinn. Þar voru fyrir á bekk menn sem stóðu í lappirnar og létu pólitíska sendingu frá Eimreiðarklíkunni ekki trufla sig um of.

Þetta gat Jón Steinar ekki fyrirgefið. Þegar hann, valdsmaðurinn sjálfur, sakar Hæstarétt um valdabrölt þá er hann eina ferðina enn að hefna ófara í eigin valdabrölti í Hæstarétti.

En það er fleira sem vekur athygli við málflutning Jóns Steinars.

Tryggvi Gíslason, sá merki skólamaður, gerir athugasemd við það sjónarmið Jóns Steinars að ekki eigi almenn viðmið lýðræðis og jafnræðis að gilda við ráðningu dómara í Hæstarétt, ásamt hæfni á sviði lögfræða og samfélagsmála.

Tryggvi vill að í Hæstirétti sitji hæfir dómarar sem talist geta eins konar “þverskurður af fólkinu í landinu”. Konur ættu til dæmis að hafa þar álíka vægi og karlar, enda enginn skortur á hæfum konum í lögfræðingastétt.

Betur sjá augu en auga og taka þarf tillit til ólíkra viðhorfa þegar leyst er úr ágreiningi manna, segir Tryggvi réttilega.

Þessu hafnar Jón Steinar og segist aðeins vilja þá allrahæfustu. En hverjir eru það?

Eru það þeir sem Eimreiðarklíkan velur og telur sér hliðholla?

Vissulega má bæta skipan dómara í Hæstarétt með hliðsjón af viðmiðum sem Tryggvi Gíslason nefnir.

En þegar annálaðir valdsmenn gagnrýna aðra fyrir valdabrölt þá ætti fólk að láta slíkt sem vind um eyru þjóta.

 

Síðasti pistill:  Jóhanna slær í gegn

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar