New York Times er með merkilega úttekt um áhrif peninga í bandarískum stjórnmálum í dag (sjá hér).
Þeir sýna enn betur en áður mikil áhrif auðmanna í bandarískum stjórnmálum, sem ég hef reyndar oft bloggað um. Hvernig auðmenn nota fé sitt til að kaupa sér mikil pólitísk áhrif.
Þetta gengur svo langt að stjórnmálamenn verða eins og strengjabrúður auðmanna, sem leggja línurnar um stefnu og úrræði í þjóðmálunum.
Ef stjórnmálamenn spila ekki með og þjóna hagsmunum auðmanna þá verða þeir sveltir – framlög í kosningasjóðinn rýrna eða þorna upp. Ferillinn er þar með í hættu.
Úttekt New York Times sýnir að auðmenn í fjármálageira og orkugeira eru atkvæðamestir í pólitíkinni.
Hvernig pólitík vilja auðmenn?
Hvað vilja auðmenn fá stjórnmálamenn til að gera fyrir sig?
Þeir vilja lægri skatta á hátekjur, fjármagnstekjur og erfðafé – og svo vilja þeir skera niður velferðarprógrömm fyrir almenning, ekki síst fyrir þá tekjulægstu. Þeir vilja meira frelsi til að braska án afskipta stjórnvalda.
Þeir vilja sem sagt meiri ójöfnuð og betri skilyrði til að auka auð sinn með sívaxandi hraða, um leið og tekjur lægri og milli tekjuhópa sitja eftir.
Það hefur náðst svo mikill árangur með þessa stefnu frá um 1980 að ójöfnuður í Bandaríkjunum er nú meiri en nokkru sinni fyrr frá byrjun 20 aldar. Ríkidæmið á toppnum blómstrar sem aldrei fyrr.
Millistéttin hefur á sama tíma dregist afturúr og ungt vel menntað fólk úr millistétt getur varla vænst þess að njóta betri kjara en foreldrar þeirra. Það er nýtt.
Um 60-70% kjósenda í Bandaríkjunum vilja hins vegar hækka skatta á hátekjur, fjármagn og uppsafnaðan ættarauð og allur þorri almennings vill líka efla velferðarkerfið, bæði almannatryggingar og sjúkratryggingar.
Almenningur er sem sagt á algerlega öndverðri skoðun við auðmennina.
En lína auðmanna ræður samt ferðinni, að mestu leyti.
Það er ótvíræður vitnisburður um að keypt pólitísk áhrif auðmanna skila þeim miklum árangri. Jafnvel þó þeir setji aðeins örlítið brot af auði sínum í pólitískar fjárfestingar.
Auðræðið er þar með orðið áhrifameira en lýðræðið.
Fyrri pistlar