Þriðjudagur 20.10.2015 - 15:40 - FB ummæli ()

Stöðugleikinn: Mun Ísland semja af sér?

Það var stór stund í júní síðastliðnum þegar leiðtogar ríkisstjórnarinnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson, kynntu áformin um afnám gjaldeyrishafta og varðveislu stöðugleika.

Flestir tóku þessum áformum fagnandi og töldu vel á málum haldið. Þetta var stór rós í hnappagat stjórnarinnar.

Í kynningunni var gert ráð fyrir að lagður yrði á eignir slitabúanna 39% stöðugleikaskattur, sem myndi skila allt að 850 milljörðum í ríkissjóð. Að teknu tilliti til heimilaðra frádráttarliða myndi hann skila 682 milljörðum, segir fjármálaráðuneytið. Þetta væri sú leið sem stjórnvöld gætu farið ef ekki næðust samningar við kröfuhafa.

Samningaleiðin var hins vegar skilgreind sem “leið stöðugleikaskilyrða”, sem uppfylla þyrfti til að tryggja að gengið myndi ekki hrynja á ný vegna mikils útfæðis krónueigna. Þau skilyrði voru skilgreind í 6 liðum.

En leiðtogar ríkisstjórnarinnar lögðu áherslu á að leiðir stöðugleikaskatts og stöðugleikaskilyrða væru álíka verðmætar fyrir þjóðarbúið. Þó reiknuðu flestir með að leið stöðugleikaskilyrðanna yrði lítillega hagfelldari kröfuhöfunum, til að ýta undir samningsvilja þeirra.

 

Á að gefa tæpan helming af skattinum eftir?

Nú er hins vegar komin upp sú staða, að þrotabúin bjóða stjórnvöldum 340 milljarða greiðslu til að fullnægja stöðugleikaskilyrðunum, eða rétt um helming af því sem stöðugleikaskattur myndi skila.

Í gær bauð svo slitabú Glitnis að ríkið fengi fullt eignarhald á Íslandsbanka, gegn lækkun á öðrum greiðslum sem búið hafði áður boðið. Samtals virðist þó sem að sú leið myndi einungis hækka framlag slitabúanna samanlagt um 40-50 milljarða, upp í um 380-390 milljarða (þetta er óstaðfest mat).

Þetta yrðu samt ekki meira en í besta falli tæpir 400 milljarðar, samanborið við 682 milljarða sem stöðugleikaskattur myndi skila.

Munar ekki allt of miklu á þessum upphæðum?

Þetta myndi fela í sér að erlendu kröfuhafarnir myndu áfram eiga hundruð milljarða króna hér á landi, sem nytu ávöxtunar og sem þyrfti að leysa út með gjaldeyri eftir 7-10 ár.

Hluta lausnarinnar yrði sem sagt einungis slegið á frest, eins og InDefence-menn hafa bent á (sjá grein Ólafs Elíassonar hér).

 

Skiptir ekki máli hversu mikið ríkið fær frá slitabúunum?

Nú fljóta undarlegar röksemdir um samfélagið, röksemdir sem hljóta að vera komnar frá hagfræðingum sem eru að vinna fyrir hina erlendu kröfuhafa.

Þeir segja að ekki skipti máli hversu miklar tekjur ríkið/Seðlabankinn fær út úr þessum samningum við kröfuhafana! Það eina sem skipti máli sé hversu miklu þurfi að breyta af krónum í gjaldeyri til skemmri tíma.

Það sé hvort eð er ekki hægt að eyða þessu fé strax án þess að valda eignabólu, verðbólgu eða gengisfalli, segja þeir. Þá gera þessir menn væntanlega ráð fyrir því að ofþensluástand sé hafið og verði varanlegt á Íslandi til lengri tíma og að ríkið geti aldrei greitt niður skuldir sínar eða farið í stærri framkvæmdir (t.d. byggingu nýs Landsspítala)!

“Peningana þarf að taka úr umferð og eyða þeim”… “láta þá hverfa”, segja þessir menn!

Í veruleikanum eru eignirnar þó jafn verðmætar hvort sem menn geta eytt þeim strax eða bara síðar – ekki satt?

Það er án efa erfitt fyrir venjulegt fólk að skilja þetta tal hagfræðinga!

Ríkið gæti sem sagt haft a.m.k. 682 milljarða í skatttekjur af 39% stöðugleikaskatti en svo er sagt að það geti alveg eins vel sætt sig við að fá einungis 340-400 milljarða og að sitja jafnframt uppi með stóran hluta vandans óleystan (í þessu sambandi skiptir litlu máli í hvaða formi eignirnar eru, þ.e. sem fullt eignarhald Íslandsbanka sem nú er boðið eða sem reiðufé).

Fyrir venjulegt fólk nær þetta ekki nokkru máli, að slá hátt í 300 milljörðum af mögulegum skatttekjum og sætta sig við það. Maður hefði talið að svona 50 milljarða afsláttur af skattinum til að fá samning og sátt um málið hefði verið alveg nógu gott fyrir kröfuhafana.

 

Loforð stjórnvalda

Loforð stjórnvalda um að báðar leiðirnar myndu skila álíka ávinningi, í möguleika á lækkun opinberra skulda og lækkun vaxtagreiðslna, þarf að standa.

Á það var lögð rík áhersla í kynningu þeirra Sigmundar Davíðs og Bjarna.

Nú skal ég ekki útiloka að önnur mikilvæg verðmæti, en beinar tekjur ríkisins, kunni að felast í leið stöðugleikaskilyrðanna, sem semja mætti um.

Á glæru nr. 9 í kynningu ráðherranna var sagt: “Rík áhersla er lögð á gagnsæi og upplýsingagjöf”.

Það stendur þó enn uppá Seðlabankann og ríkisstjórnina að sýna svart á hvítu, hvernig samningaleið sem skilar einungis 340-400 milljörðum í ríkissjóð er jafn verðmæt og 682 milljarðarnir sem stöðugleikaskattur gæti skilað.

Það er mikið í húfi fyrir ríkisstjórnina – og enn meira fyrir almenning í landinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar