Margir urðu forviða yfir þeirri uppákomu er varð í fjárlaganefnd Alþingis þegar forstjóri Landsspítalans kom þar á fund fyrir skömmu.
Forysta nefndarinnar talaði um að stjórnendur Landsspítalans beittu nefndina “andlegu ofbeldi” og sögðu að slíkt væri árlegur viðburður.
Forsendan virðist vera sú, að stjórnendur Landsspítalans séu að fara fram á ónauðsynlegar eða óréttmætar fjárveitingar.
Í viðtali Sigurjóns Egilssonar við Pál Matthíasson, forstjóra Landsspítalans, á Sprengisandi í morgun kom hins vegar fram að forysta fjárlaganefndar hafi ekki skilið þau gögn er Landsspítalinn lagði fram, sem grundvöll mats á fjárþörf, í samræmi við lagalegt hlutverk og markmið spítalans.
Heilbrigðisráðherra hefur brugðist við með því að fá hlutlausa utanaðkomandi sérfræðinga til að gera úttekt á rekstri Landsspítalans. Sigurjón Egilsson sagði að svo virtist sem ráðherrann ætlaði að stappa staðreyndunum ofaní forystu fjárlaganefndarinnar með þessum hætti. Páll fagnaði því að slík úttekt yrði gerð, en tók ekki afstöðu til túlkunar Sigurjóns.
Málið allt vekur upp mikilvægar spurningar.
Ef forysta fjárlaganefndar er ekki fær um að skilja fagleg gögn sem Landsspítalinn leggur fram þá er það grafalvarlegt mál, sem ekki má við una. Ekki kom fram í viðbrögðum forystu nefndarinnar að efnislegar villur væru í téðum gögnum, heldur töluðu þau einungis um óeðlilegan þrýsting að hálfu spítalans.
Hins vegar efast ég um að Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og núverandi varaformaður fjárlaganefndar, hafi ekki skilið þessi gögn. Hann er enginn kjáni.
En Guðlaugur Þór er hins vegar fangi róttækrar hugmyndafræði sem leggst gegn ríkisrekstri í heilbrigðisþjónustu og vill stórauka einkarekstur. Helsta leiðin til að ná því markmiði er að grafa undan ríkisreknum Landsspítalanum og annarri opinberri heilbrigðisþjónustu. Formaður fjárlaganefndar virðist hins vegar telja allan ríkisrekstur of dýran og ekki skila verðmætasköpun á pari við einkageirann (sem stenst þó enga staðreyndakönnun).
Ástæða er því til að ætla að hugmyndafræðileg afstaða stýri þessum viðbrögðum hjá forystu fjárlaganefndar að einhverju leyti.
Kanski vilja þau ekki taka mark á fjárbeiðni Landsspítalans? Fram hefur jú komið að svigrúm er fyrir hendi í rekstri ríkisins um þessar mundir.
En hverjar eru staðreyndirnar?
Tiltölulega nýleg úttekt á rekstri Landsspítalans sýndi að hann er ódýr miðað við sambærilega spítala í grannríkjunum og nær samt góðum árangri. Heilbrigðisútgjöld á Íslandi eru nú undir meðallagi OECD-ríkja en voru um 2003 í fremstu röð. Fyrirhuguð úttekt heilbrigðisráðherra mun án efa skila svipaðri niðurstöðu.
Ég þekki vel til tveggja annarra stórra opinberra stofnana sem báðar eru mjög ódýrar í samanburði við sambærilegar stofnanir í norrænu grannríkjunum.
Háskóli Íslands er einn alódýrasti háskóli á Vesturlöndum, í sínum stærðarflokki. Samt nær hann ágætum árangri á alþjóðlega gæðamælikvarða, mun betri árangri en margir miklu dýrari háskólar.
Tryggingastofnun ríkisins er rekin fyrir einungis um þriðjung til fjórðung af kostnaði við systurstofnanirnar á Norðurlöndum, í hlutfalli við umsvif (útgreiddan lífeyri og bætur).
Þetta er víðar svona í opinbera geiranum, enda er Ísland ekki með óeðlilega mikil opinber útgjöld á hvern íbúa, raunar talsvert minni en frændþjóðirnar á Norðurlöndum.
Opinberar stofnanir sem ekki voru vel fjármagnaðar fyrir hrun (miðað við hlutverk sín og markmið) máttu sæta miklum niðurskurði í kreppunni.
Vanda Landsspítalans nú ber að skoða í því ljósi. Líka í ljósi þess að verkefnin jukust á niðurskurðarárunum og vaxa nú umtalsvert á hverju ári sem við bætist.
Stjórnvöld hafa vissulega hafið sókn í málum Landsspítalans og það ber að virða. Enda var því lofað í stjórnarsáttmála og kjarasamningum við lækna.
En meira virðist þurfa í grunnrekstur, viðhald og innviði.
Fyrri pistlar