Þekkt er að hrunið orsakaðist öðru fremur af gríðarlegri skuldasöfnun íslenska þjóðarbúsins (sjá hér).
Það voru ekki heimilin sem voru helstu sökudólgarnir. Ekki heldur ríkisvaldið (það greiddi niður skuldir á árunum fyrir hrun).
Nei, það voru fyrirtækin og bankarnir sem drekktu Íslandi í skuldum (sjá hér).
Myndin hér að neðan sýnir skuldasöfnun íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegum samanburði.
Skuldasöfnun íslenskra fyrirtækja var algerlega einstök á árunum eftir 2003 (svarta feita línan á myndinni). Hvergi í þessum löndum söfnuðu fyrirtæki jafn miklum skuldum og hér! Hraðinn í skuldasöfnun fyrirtækja á Íslandi var raunar ævintýralegur.
Mynd: Skuldir fyrirtækja í vestrænum löndum, frá 2003 til 2014 (tölurnar koma úr skýrslu Seðlabankans um Fjármálastöðugleika 2015:1)
Þessi skuldasöfnun var vegna brasks og spákaupmennsku, sem varð almenn í stærri fyrirtækjum á Íslandi. Það var kallað “fjármálastarfsemi” og forstjórar steypustöðva og pizzustaða fóru að kalla sig „fagfjárfesta“.
Eftir að hrunið skall á sagði Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, að “Ísland ætlaði ekki að greiða skuldir óreiðumanna”.
Óreiðumennirnir voru einkum stjórnendur fyrirtækja og banka. Sem sagt: einkageirinn.
Það sem myndin segir okkur er að óreiðan á bóluárunum var hvergi meiri en í íslenska einkageiranum. Raunar var hún alveg fordæmalaus. Íslensku fyrirtækin hafa síðan fengið mun meiri skuldaafskriftir á kreppuárunum en erlend fyrirtæki – og miklu meira afskriftir en heimilin.
Írland og Kýpur voru einnig þekkt fyrir mikið brask og mikla skuldasöfnun, (enda varð fjármálakreppan djúp þar). En hegðun fyrirtækjageiranna í þeim löndum komst þó ekki í hálfkvist á við íslensku fyrirtækin, í óreiðu og braski. Það sýnir myndin á skýran hátt.
Þetta er merkilegt og segir mikla sögu um íslenska þjóðarbúið og orsakir hrunsins.
Hluti opinbera geirans (Seðlabankin, Fjármálaeftirlitið og ríkisstjórnin) brást vissulega þeirri skyldu sinni að verja íslenska þjóðarbúið fyrir þessari ógæfu (þeir hefðu átt að stöðva þessa ósjálfbæru skuldasöfnun fyrirtækja og banka, ekki síðar en á árinu 2006).
Almennt var ekki um slíka óreiðu og brask að ræða í opinberum stofnunum. Hins vegar var nokkuð um slæmar ákvarðanir hjá æðstu stjórnsýslu ríkisins, sem veiktu eftirlit og aðhald og svo kynntu stjórnvöld einnig undir bólunni með rangri tímasetningu stóriðjuframkvæmda.
En velferðarríkinu var til dæmis ekki sleppt lausu með stórkostlegum hækkunum lífeyris og bóta til almennings. Heilbrigðisútgjöld drógust saman frá 2003 til 2008. Helst voru það orkuveitur sem tóku mið af einkageiranum og fóru offari í fjárfestingum (sem er þó annað en brask með lánsfé í eigin ágóðaskyni).
Sjá ekki bjálkann í eigin auga
Í þessu samhengi er athyglisvert að talsmenn fyrirtækja (Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök kaupmanna, Mogginn, hægri stjórnmálamenn o.fl.) eru sífellt að tala um gallana í opinbera geiranum.
Þeir þykjast sjá flísina þar, en sjá ekki bjálkann í eigin auga!
Þeir segja í síbylju, allir sem einn, að opinberi geirinn sé helsta vandamál Íslands. Vilja skera niður opinber útgjöld (opinbera þjónustu, stjórnsýslu og velferðarútgjöld), fækka starfsfólki og helst einkavæða sem mest.
Samt er opinberi geirinn á Íslandi ekki sérlega stór samanborið við OECD-ríkin (sjá hér). Opinber laun eru yfirleitt hófleg, allt skorið við nögl og horft í hverja útgjaldakrónu.
Samt næst þar ágætur árangur, enda er samkeppnishæfni opinbera geirans betri en samkeppnishæfni einkageirans (sjá hér). Opinberi geirinn á Íslandi stendur sig almennt nokkuð vel.
Hvernig væri nú að talsmenn einkageirans litu sér nær á nýju ári og einbeittu sér að lagfæringum í einkageira, áður en þeir ráðast frekar á opinbera starfsmenn og opinberar stofnanir?
Auðvitað eigum við áfram að leita hagkvæmni og ráðdeildar í opinbera geiranum, en það ætti ekki að verða til að skerða gæði opinberrar þjónustu í heilbrigðismálum, menntun, félagslegri þjónustu og stjórnsýslu, eins og orðið hefur.
Stærstu umbótaverkefnin ættu að vera í einkageiranum
Þar má til dæmis nefna eftirfarandi:
- Tryggja þarf að græðgin og óhófið sleppi ekki laus á ný, eins og á árunum fyrir hrun. Opinberi eftirlitsiðnaðurinn þarf því að vera öflugur, ekki síst í fjármálageiranum
- Auka þarf framleiðni atvinnulífsins
- Draga þarf úr kostnaði vegna yfirbyggingar í einkageira, t.d. með sameiningu Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins og margra fleiri slíkra samtaka
- Lækka þarf verðlag á Íslandi, en það er eitt hið hæsta í heimi (nema fyrir heitt vatn og rafmagn, sem hið opinbera sér um)
- Hækka þarf grunnlaun og stytta vinnutíma
- Atvinnulífið sjálft þarf að efla nýsköpun – ekki bara heimta að ríkið geri það fyrir einkageirann
- Þær atvinnugreinar einkageirans sem nota sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar þurfa að greiða meiri auðlindarentu til almennings, svo sanngirni og ráðdeildar sé gætt.
Talsmenn og stjórnendur einkageirans hafa verk að vinna – einkum í eigin garði!
Fyrri pistlar