Mér er sama hvort vín er selt í sérverslunum ÁTVR eða í matvörubúðum. Ég hef enga hugsjón um það – á hvorn veginn sem er. Hef þó reynslu af hvoru tveggja.
Fyrir mér er þetta einungis spurning um hagkvæmni og skynsemi. Við eigum einfaldlega að vega kosti og galla við báðar leiðir, út frá almannahagsmunum og lýðheilsu.
Hér eru nokkrir kostir ÁTVR fyrirkomulagsins:
- ÁTVR er eitt best þokkaða fyrirtæki landsins! Þetta hefur ítrekað komið fram í Íslensku ánægjuvoginni, en hún mælir ánægju almennings með íslensk fyrirtæki og þjónustu þeirra.
- Sérverslanir ÁTVR bjóða nú orðið upp á ágætt vöruúrval og þjónustan er almennt skikkanleg og víða aðgengileg.
- Rekstur ÁTVR skilar ríkissjóði um 1300 milljónum í hreinan hagnað á ári hverju, auk þeirra tekna sem opinber gjöld á áfengi og tóbak skila, en það telur í tugum milljarða á ári (sjá hér).
- Reynsla annarra vestrænna þjóða er sú, að rekstur eins og ÁTVR annast gangi síður gegn markmiðum um betri lýðheilsu en sala víns í matvöruverslunum.
Hér eru nokkrir gallar við hina leiðina:
- Flestar matvörubúðir verða með lítið framboð vína og bjórtegunda samanborið við ÁTVR og því myndi vöruframboð og gæði minnka, nema jafnhliða væru reknar sérverslanir með áfengi. Dreifikerfið gæti þannig orðið viðameira og jafnvel dýrara.
- Ríkið og skattgreiðendur yrðu af þeim hagnaði sem er af rekstri vínbúðanna og innheimta opinberra áfengisgjalda yrði sett í hendur fjölmargra einkaaðila. Hugsanlega yrðu braskarar og kennitöluflakkarar í þeim hópi.
- Í mörgum matvöruverslunum eru það unglingar, langt undir löglegum áfengisaldri, sem annast afgreiðslu. Hvaða áhrif myndi það hafa á meðferð áfengis í landinu ef fermingarbörn færu almennt að annast sölu áfengis?
- Aðgengi að áfengi yrði almennt meira en nú er og það er líklegt til að auka áfengisneyslu og vanda sem af henni leiðir, eins og lýðheilsufólk bendir ítrekað á.
- Freistnivandi áfengissjúkra eykst með áfengi í matvörubúðum, sem sumar eru opnar allan sólarhringinn, árið um kring.
Þegar allt er saman tekið virðist nokkuð ljóst að núverandi fyrirkomulag áfengis- og tóbakssölu skilar þokkalegum árangri fyrir skattgreiðendur, neytendur og fyrir lýðheilsumarkmið þjóðarinnar – að því frádregnu að áfengi er auðvitað skaðræðisvessi og tóbakið drepur fyrir aldur fram.
Og svo eru bara langflestir ánægðir með ÁTVR! Pælið í því…
Hvers vegna ætti þá að gjörbreyta því sem virðist vera í lagi?
Fyrri pistlar